„Það er mjög skemmtilegur metnaður á milli kokka og veitingastaða, og matarunnendur njóta góðs af,“ segir Veronika sem hlakkar til að taka hús á keppinautunum meðan hátíðin stendur yfir.
„Það er mjög skemmtilegur metnaður á milli kokka og veitingastaða, og matarunnendur njóta góðs af,“ segir Veronika sem hlakkar til að taka hús á keppinautunum meðan hátíðin stendur yfir. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Verðlaunakokkur mun sýna listir sínar á veitingastaðnum Silfri á Food & Fun. Hann útbýr m.a. eftirrétt sem hann kallar „fruit pizza“.
Finnski matreiðslulistamaðurinn Petteri Luoto verður í eldhúsi veitingastaðarins Silfur í tilefni af Food and Fun og segir Guðrún Veronika Þorvaldsdóttir, veitingastjóri staðarins, að gestum sé óhætt að setjast til borðs með miklar væntingar. „Petteri var m.a. valinn matreiðslumaður ársins í heimalandi sínu og tekið þátt í Bocuse d'Or-matreiðslukeppninni. Hann er ekki bara matreiðslumaður heldur líka listamaður, og ástríða hans í lífinu allt sem heitir góður matur og falleg list.“

Alls kyns áhrifa gætir í matseðlinum sem Petteri og Silfur hafa sett saman fyrir hátíðina. „Fyrsti réttur er ceviche-fiskpinnar með laxi, humri og avókadó í lime, annar réttur er risarækjur með kryddjurtum, og aðalrétturinn léttreykt lamb. Eftirrétturinn er svo það sem Petteri kallar „fruit pizza“, sem er súkkulaðibitakaka með lofnarblóma-krapís, mangó, hvítu súkkulaði og rabarbara.“

Margir gera vel

Veronika á von á fjölda gesta meðan matarhátíðin stendur yfir og til að geta leyft fleirum að njóta verður tekið á móti hópum í veislusal staðarins. Hún segir Íslendinga taka vel við sér þegar blásið er til hátíðar af þessu tagi, matarhátíðum í borginni virðist fara fjölgandi og skemmtileg tilbreyting í starfsemi veitingastaðanna. „Það er upplifun að prufa jafnvel nokkra veitingastaði yfir nokkra daga, sjá hvað þeir hafa upp á að bjóða og mynda sér skoðun á því hver gerir best. Gestakokkarnir sem koma til landsins vegna þessarar hátíðar eru margir hreint að „brillera“ og við höfum það fyrir vana að framlengja hátíðarmatseðilinn ef viðtökurnar eru sérstaklega góðar og hvað þá ef gestakokkurinn hreppir verðlaun á hátíðinni.“

Veronika á 15 ár að baki í veitingageiranum og segir frábært hvað úrval veitingastaða er orðið goot og gæðin framúrskarandi hér á landi. „Það er ekki langt síðan að það eina sem þótti gjaldgengt á veitingastöðum var hið svokallaða franska eldhús: það var annaðhvort það eða Múlakaffi,“ segir hún og hlær. „Í dag er hægt að upplifa nánast hvaða krók og kima í matarmenningu heimsins í borginni okkar, og hver staður eldar með alls kyns áherslum og útfærslum.“

Þessi vöxtur er ekki síst borinn uppi af heimamönnum sem Veronika segir miklu duglegri að fara út að borða en áður. „Flestir nýir veitingastaðir um þessar mundir virðast ganga vel upp og ákaflega flott það sem verið er að gera bæði innan og utan eldhússins. Landsmenn eru mjög áhugasamir og temja sér margir að skoða nýju staðina og reyna að láta ekki langan tíma líða á milli veitingastaðferða. Vinahópar, saumaklúbbar og vinnufélagar stunda það mikið að skrafa yfir góðum mat á veitingastað, jafnvel þó að ekki sé nema rétt nógu lengi til að smakka einn rétt, og mamma mín tilheyrir t.d. vinkvennahóp sem einsetur sér að fara sem allra fyrst á nýja staði til að forvitnast og vera með á nótunum.“

Veronika segir svo gæðin borin uppi af kröfuhörðum neytendum, vel menntuðu matreiðslufólki og heilbrigðum skammti af samkeppni. „Það er mjög skemmtileg og metnaðarfull samkeppni á milli kokka og veitingastaða, og matarunnendur njóta góðs af.“

Góður matur auðgar lífið

Það er ekki beinlínis hægt að segja að efnahagslífið sé beysið, en Veronika segir að það virðist ekki hafa dregið úr heimsóknum landsmanna á veitingastaðina, þó að ekki séu jafnmargar krónur í buddunni og þegar best lét. „En við sjáum það líka að veitingastaðirnir hafa lagt sig fram við að halda verði niðri, og ef við tökum mikinn hráefniskostnað inn í dæmið er hreint ekki dýrt að gera sér dagamun á fallegum veitingastað og smakka eins og einn eða tvo rétti. Íslendingar hafa líka lært að meta hvað það bætir miklu við gæði hins daglega lífs að gera endrum og sinnum vel við sig með veitingastaðaferð sem þarf alls ekki að kosta mikið.“

ai@mbl.is

Færeysk hörpuskel, döðlur og hráskinka

Uppskrift fyrir 4

32 stk. mini hörpuskel (líka hægt að nota venjulega)

Aðferð Hörpuskelin er hreinsuð og krydduð með sjávarsalti.

Pannan er hituð þangað til fer að rjúka af henni, olía er þá sett á pönnuna og hörpuskelin á eftir. Hún er brúnuð í um 30 sekúndur, smásmjöri bætt út í til að fá góðan karamellugljáa á skelina.

Hrist aðeins saman og harpan svo hvíld á pappír.

Hráskinku- og döðlugljái

1 stk. skallottulaukur

2 stk. hvítlauksgeirar

6 stk. döðlur

5 sneiðar hráskinka

1 dl rauðvín

5 dl nautasoðsgljái

4 cl portvín

Aðferð Skallottu- og hvítlaukur er saxaður og svitaður í potti. Döðlum og hráskinku bætt út í ásamt portvíni. Suðan látin koma upp og rauðvínið sett út í – látið malla í ca 5 mínútur.

Tilbúnum nautasoðsgljáa bætt við og soðið niður um helming. Klárað með smásmjöri og smakkað til með salti og pipar.

Brúnað nípumauk

2 stk. nípa

200 ml rjómi

50 g smjör

Aðferð Nípan er afhýdd, skorin í bita og sett í pott með olíu og 50 g af smjöri. Nípan er brúnuð í 5-10 mínútur á miðlungshita, rjóma bætt við og soðið í 5 mín.

Því næst er þetta sigtað, vökvinn tekinn til hliðar, nípan maukuð í matvinnsluvél. Vökvanum bætt út í og vélin látin vinna þetta silkimjúkt. Smakkað til með salti og pipar.

Hráskinkuskífur

8 sneiðar hráskinka

Aðferð Raðað á smjörpappírsklædda bökunarplötu og önnur örk af pappír lögð yfir. Bakki settur ofan á til að fá pressu og bakað í 180°í 8 mínútur.

Döðlur

4 stk. döðlur

Aðferð Skornar í 6 bita og settar út á pönnuna með hörpuskelinni í lokin.

Öllu raðað fallega upp á disk og skreytt með smákerfli.