Sigurður G. Valgeirsson
Sigurður G. Valgeirsson
Í ljósi reynslu Fjármálaeftirlitsins af þeirri leið sem var valin við yfirtökuna á SPRON í mars 2009 var önnur leið valin við yfirtökuna á Byr sparisjóði og Sparisjóðnum í Keflavík í apríl 2010. Kemur þetta fram í skriflegu svari frá Sigurði G.
Í ljósi reynslu Fjármálaeftirlitsins af þeirri leið sem var valin við yfirtökuna á SPRON í mars 2009 var önnur leið valin við yfirtökuna á Byr sparisjóði og Sparisjóðnum í Keflavík í apríl 2010. Kemur þetta fram í skriflegu svari frá Sigurði G. Valgeirssyni, upplýsingafulltrúa Fjármálaeftirlitsins (FME). Spurt er hvort það hafi verið mistök af hálfu FME að setja skuldir við Frjálsa fjárfestingabankann og SPRON í félagið Dróma. Ókosturinn við aðferðina sem var notuð við yfirtökuna á SPRON er að rof varð á viðskiptasambandi viðskiptavina SPRON. Svarið frá Fjármálaeftirlitinu hljóðar svo:

„Það var 21. mars 2009 sem FME ákvað á grundvelli heimilda sinna skv. neyðarlögunum að yfirtaka vald stjórnar og hluthafafundar í SPRON og skipa honum skilanefnd. Þá ákvað FME að flytja hæfar innstæður SPRON til Arion banka, eftir að hafa haft samráð við skilanefndina, kröfuhafa, Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytið, til að tryggja innstæðueigendum aðgang að innstæðum sínum. Þá ákvað FME að SPRON skyldi stofna sérstakt hlutafélag, sem fékk nafnið Drómi ehf., að fullu í sinni eigu sem myndi yfirtaka allar eignir SPRON, þar með talin veðréttindi og ábyrgðir. Drómi tók einnig yfir skuldbindingar SPRON gagnvart Arion vegna flutnings á innstæðum og skyldi gefa út skuldabréf til Arion sem samsvaraði yfirteknum innstæðukröfum með veði í öllum eignum félagsins ásamt hlutafjáreign SPRON í Dróma, hið svokallaða SPRON-skuldabréf.

Með framangreindri leið var komist hjá framkvæmd á verðmati á yfirteknum eignum sambærilegu því sem þá stóð yfir í mars 2009 vegna yfirtekinna eigna viðskiptabankanna. Einnig mun hafa verið horft til þess að ríkissjóður sparaði sér umtalsverða fjármuni í eiginfjárframlagi miðað við t.d. að nota sömu aðferð við ráðstöfun á innlánum og eignum og beitt var varðandi stóru bankana þrjá.

Ókosturinn við framangeinda aðferð var hins vegar sá að rof varð á viðskiptasambandi viðskiptavina SPRON. Í ljósi reynslunnar af þessari leið var önnur leið valin við yfirtökuna á Byr sparisjóði og Sparisjóðnum í Keflavík í apríl 2010.“ ingveldur@mbl.is