Sigursæll Undir stjórn Stefáns Arnarsonar hefur árangur Vals batnað til mikill muna og liðið unnið marga góða sigra.
Sigursæll Undir stjórn Stefáns Arnarsonar hefur árangur Vals batnað til mikill muna og liðið unnið marga góða sigra. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.is Stefán Arnarson stýrir kvennaliði Vals í handknattleik þriðja árið í röð í úrslitum Eimskipsbikarsins í Laugardalshöll á morgun.
Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Stefán Arnarson stýrir kvennaliði Vals í handknattleik þriðja árið í röð í úrslitum Eimskipsbikarsins í Laugardalshöll á morgun. Valur leikur þá við ÍBV en tvö síðustu árin hefur Valsliðið mátt sætta sig við tap fyrir Fram. Þetta árið skelltu Valskonur stöllum sínum úr Fram á fyrri stigum keppninnar en eru staðráðnar í að nú verði fullreynt í þriðja sinn. Eimskipsbikarinn er hinn eini sem hið siguræsla Valslið hefur ekki náð að hampa undanfarin þrjú ár undir stjórn Stefáns.

Stoltur að komast í úrslit

„Ég er fyrst og fremst stoltur yfir að hafa farið með lið mitt í Laugardalshöllina í úrslitaleik Eimskipsbikarsins þrjú ár í röð þótt við höfum tapað tvö síðustu árin fyrir Fram í úrslitaleik. Margir þjálfarar og leikmenn komast aldrei á sínum ferli í úrslitaleik bikarkeppninnar. Þess vegna eiga menn að njóta stundarinnar og vera ánægðir með að hafa náð svo langt sem raun ber vitni. Það ætlum við að gera á laugardaginn gegn ÍBV,“ segir Stefán sem óttast ekki að leikmenn hans beri með sér slæmar minningar frá tapleikjum síðustu tveggja ára inn í úrslitaleikinn við ÍBV.

„Hvort sem menn tapa eða vinna í úrslitaleikjum mega þeir ekki líta svo á að eitthvað sé sjálfgefið í þeim efnum og það sé sjálfsagt að lið komist í úrslit á ný að ári. Það kemur nýtt ár og nýr leikur hvort sem það gengur vel eða illa árið á undan. Við erum að fara í nýjan leik við ÍBV á laugardaginn og þá skipta úrslit leikjanna við Fram tvö síðustu árin engu máli,“ segir Stefán og undirstrikar að menn megi aldrei óttast að tapa leikjum.

Jafn leikur framundan

Um andstæðingana í úrslitaleiknum, ÍBV, segir Stefán að liðið hafi tekið miklum framförum á stuttum tíma og verði fyrir vikið hættulegur andstæðingur. „Í mínum huga verður um að ræða jafnan leik þar sem hvort lið á helmingsmöguleika á sigri,“ segir Stefán.

Stoltur af árangrinum

Eftir að Stefán tók við þjálfun kvennaliðs Vals hefur það verið afar sigursælt og m.a. orðið Íslands- og deildarmeistari tvö síðustu árin og auk þess unnið deildarbikarinn oftar en einu sinni. Stefán segir að mikill metnaður leikmanna sé skýringin á betri árangri. „Ég er stoltur af þeim árangri sem liðið hefur náð undir minni stjórn. Þegar ég tók við hafði Valur ekki orðið Íslandsmeistari í handknattleik kvenna í 27 ár. Nú, þremur og hálfu ár síðar, erum við með sterkasta lið landsins. Þessi árangur hefur náðst þrátt fyrir þá staðreynd að liðið hefur misst sex til sjö leikmenn á hverju ári síðan ég tók við. Þeir hafa ekki farið til annarra liða hér heima heldur hefur leið þeirra legið til útlanda eða þá að þeir hafa lagt skóna á hilluna. Við höfum verið nokkuð klókir að finna leikmenn til þess að fylla í skörðin jafnóðum,“ segir Stefán og bætir við:

Sætta sig ekki við hálfkák

„Þá má ekki gleyma því að leikmenn Valsliðsins eru mjög metnaðargjarnir. Stúlkurnar sætta sig ekki við neitt hálfkák, þær eru í boltanum til þess að vinna. Það er lykilatriðið.

Leikmenn kvennaliðs Vals eiga 13 börn og þeir eru tilbúnir að koma aftur að loknu hléi m.a. vegna barnsburðar. Það er ekki síst vegna þessara eldri og reyndari leikmanna sem við erum í jafngóðri stöðu og höfum náð eins góðum árangri og raun ber vitni.

Fimm til sex leikmenn liðsins eru komnir yfir þrítugt. Þær eru miklar fyrirmyndir og vonandi hafa þær sannað það fyrir kynsystrum sínum að það er hægt að vera á fullri ferð og í góðri æfingu í handbolta þótt þú sért komin yfir þrítugt og hafir átt börn. Í gegnum tíðina hefur verið alltof mikið um að konur hætti ungar í handknattleik eftir að hafa átt börn. Ein kona í Valsliðinu, Ágústa Edda Björnsdóttir, á þrjú börn, meðal annars eitt sex mánaða. Hún missir ekki úr eina einustu æfingu. Það segir svolítið um karakterinn og metnaðinn sem ríkir innan liðsins,“ segir Stefán Arnarson, þjálfari Íslandsmeistara Vals í handknattleik kvenna.

Undir stjórn Stefáns
» Valur hefur orðið Íslandsmeistari í handknattleik kvenna síðustu tvö árin.
» Þegar liðið vann titilinn vorið 2010 voru 27 ár liðin frá því Valur varð síðast Íslandsmeistari í kvennaflokki.
» Á morgun leikur Valur við ÍBV í úrslitum Eimskipsbikars kvenna.
» Valur hefur leikið til úrslita í Eimskipsbikarnum tvö síðustu ár en orðið að sætta sig við tap í bæði skiptin.