Sigurður Kristinn og Theódór eru í óða önn að gera klárt fyrir hina árlegu matarveislu, Food & Fun.
Sigurður Kristinn og Theódór eru í óða önn að gera klárt fyrir hina árlegu matarveislu, Food & Fun. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Öndvegiseldhúsið á VOX Restaurant á Hilton Reykjavik Nordica á von á góðum gesti þegar Food & Fun gengur í garð.
Þar er á ferðinni Daninn Jakob Mielcke og matreiðslumeistarar staðarins, þeir Theodór Árnason og Sigurður Kristinn L. Haraldsson. Þeir hlakka til að fá þennan spennandi liðsauka að hlóðunum en Jakob var nýlega settur á lista Phaidon sem einn af 100 frumlegustu matreiðslumeisturum heims. Þá er veitingastaður hans, Mielcke & Hurtigkarl einn sá virtasti og vinsælasti í Kaupmannahöfn.

Hráefni úr bakgarðinum

„Við á VOX höfum verið að fylgjast með Jakob Mielcke og því sem hann hefur verið að gera í tæp 2 ár,“ segir Theódór. „Hugmyndafræði hans er byggð að miklu leyti á að ná til fólks með því að vera fyndinn, ögrandi og koma á óvart. Hann hefur ferðast töluvert um heiminn og matreiðsla hans hefur litast af því,“ bætir hann við. Undir þetta tekur Sigurður. „Hann er með einlægan og nýstárlegan stíl með asísku stefi og þrátt fyrir að hann sé ekki á nýnorrænu línunni eins og VOX Restaurant er alla jafna, þá á hann það sameiginlegt með okkur að hann sækir flest af sínu hráefni beint í „bakgarðinn“ ef svo má að orði komast. Þetta er einmitt hluti af stefnu nýnorrænu matargerðalistarinnar, að notast aðeins við hráefni sem auðvelt er að nálgast og úr okkar nánasta umhverfi. Einkennisrétturinn hans er virkilega flottur en það er eftirrétturinn Forest Floor. Þar notar hann til að mynda birki og beykitré sem hluta af bragði og skreytingu á réttinum. Þessi réttur verður meðal annars á boðstólum hjá okkur á Food & Fun.“

jonagnar@mbl.is

Matseðill

Leturhumar Maeda-San

Sandhverfa og reykt þorskhrogn – rauðrófur eldaðar í heyi

Lambahjörtu í vorhug

Fullmeyrnaðar nautalundir

Skógarbotn

Steikt blálanga með káli og lauk

Fyrir 4

Blálanga

Fiskurinn er hreinsaður og skorinn í 160 g bita, kryddaður með salti. Steiktur í smáolíu við háan hita í 2 mínútur á hvorri hlið og smjörteningum bætt á pönnuna.

Lokið við að elda fiskinn í 170°C heitum ofni, í 2-3 mínútur (eftir hversu þykk steikin er ?)

Kartöflumús

500 g kartöflur

4 stk. hvítlauksgeirar

250 ml rjómi

100 g smjör

salt

Kartöflur skrældar og soðnar í léttsöltu vatni, hvítlaukurinn er afhýddur og eldaður í helmingnum af smjörinu við vægan hita þar til gullinbrúnn, þegar kartöflurnar eru soðnar eru þær teknar í gegnum pressu, færðar yfir hita og rjómanum bætt saman við. Hvítlaukurinn saxaður og bætt í ásamt restinni af smjörinu, einnig er gott að nota smjörið af hvítlauknum líka. Smakkað til með salti.

Smjörsósa

200 g smjör, skorið í kubba

½ krukka silungahrogn

steinselja, dill, ferskur aspas og skalott smátt saxað.

Í litlum potti komið upp suðu á 2 msk. af vatni, hrærið svo köldum smjörkubbum saman við með písk, þarf að hræra svolítið kröftuglega, fjarlægið af hita og blandið öllu saman. Salt eftir smekk. Borið fram volgt.

Kál og laukur

Kál skorið í hæfilegar sneiðar og soðið í söltu vatni með smásmjöri í 30 sek., laukurinn skorinn í lauf og steiktur á annarri hliðinni þar til hann er eldaður í gegn, einnig borið fram með smjörelduðum hvítlauksgeirum.