Siggi Hall hefur verið framlínunni varðandi Food & Fun hátíðina. „Þegar erlendir gæðakokkar koma hingað árlega eykst eðlilega metnaður okkar fólks, það nánast segir sig sjálft,“ segir kokkurinn kunni. Ekki má gleyma að erlendir úrvalskokkar kynnast íslensku hráefni við þetta tækifæri.
Siggi Hall hefur verið framlínunni varðandi Food & Fun hátíðina. „Þegar erlendir gæðakokkar koma hingað árlega eykst eðlilega metnaður okkar fólks, það nánast segir sig sjálft,“ segir kokkurinn kunni. Ekki má gleyma að erlendir úrvalskokkar kynnast íslensku hráefni við þetta tækifæri. — Morgunblaðið/Kristinn
Íslensk matarmenning er hátt skrifuð. Sigurður Hall matreiðslumaður fer fyrir Food & Fun-hátíðinni, sem verður haldin um næstu helgi. Einstakt íslenskt hráefni. Heimsfrægir kokkar koma til landsins.
Matarhátíðin Food and Fun sem haldin verður nú um helgina er nú haldin í ellefta sinn. Erlendir kokkar koma til landsins og matreiða á fjölmörgum veitingahúsum höfuðborgarsvæðisins, sem bjóða upp á fjögurra rétta sælkeramáltíð á sama verði á öllum stöðum. Dómnefnd hátíðarinnar velur síðan bestu réttina, en í nefndinni sitja matreiðslumeistarar og fjölmiðlafólk sem sérhæfir sig í matargerð. Félagarnir Sigurður L. Hall matreiðslumaður og Baldvin Jónsson hafa verið í forsvari Food and Fun frá upphafi.

Tuttugu kokkar koma í ár

„Baldvin kom að máli við mig á sínum tíma og kynnti mér hugmyndina; að fá hingað til lands erlenda kokka að vetrarlagi. Icelandair slóst í hópinn og ákveðið var að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd,“ segir Sigurður Hall.

„Við fórum til Ameríku og hittum fjöldann allan af kokkum og kynntum þeim væntanlega hátíð. Við vorum svo heppnir að margir þeirra voru jákvæðir, enda Ísland um margt spennandi land til að heimsækja. Sömu sögu er að segja um evrópska kokka. Fyrsta árið komu tólf kokkar, nú koma nærri tuttugu. Eigendur veitingahúsa í borginni tóku okkur sömuleiðis fagnandi, þannig að vindarnir voru okkur hliðhollir. Auðvitað voru ýmis ljón í veginum, eins og gengur og gerist. Við tókum þetta með íslensku aðferðinni, undirbúningnum lauk nánast korteri áður en sjálf hátíðin var sett.“

Kjöt, fiskur, mjólk og vatn

Sigurður Hall segir að hátíðin hafi breyst talsvert á undanförnum árum, sérstaklega sjálf keppni matreiðslufólksins. Samtök iðnaðarins eru nýr bakhjarl Food and Fun, en aðrir helstu aðstandendur eru Icelandair, Reykjavíkurborg og viðburðafyrirtækið Main Course. Sigurður er ekki í vafa um að keppnin hafi haft áhrif á íslenska matarmenningu.

„Já, ég er alveg klár á því. Food and Fun er fyrst og fremst viðburður til að vekja athygli á matarmenningu Íslands, sem er rómuð. Við erum mjög hátt skrifuð á þessu sviði, það er bara einfaldlega þannig. Lambakjötið, fiskurinn, mjólkurafurðirnar, vatnið og svo framvegis. Við segjumst stundum vera best í heiminum og þegar maður heyrir heimsfræga kokka taka undir þessa stóru fullyrðingu hlýtur hún að vera sönn. Þegar erlendir gæðakokkar koma hingað árlega eykst eðlilega metnaður okkar fólks, það nánast segir sig sjálft. Svo má heldur ekki gleyma því að erlendu kokkarnir kynnast vel íslensku hráefni, þannig að við erum bæði að tala um inn- og útflutning í þessum sambandi.“ Sigurður segir að undirbúningurinn hafi gengið vonum framar, allt sé að verða tilbúið.

Matarhátíð og skemmtun

Food and Fun er orðin verulega þekkt hátíð í útlöndum, enda hefur verið mikið skrifað um hana í virtum blöðum og tímaritum. Hingað til lands hafa komið um tvö hundruð erlendir kokkar til að taka þátt í hátíðinni og mikill fjöldi fjölmiðlafólks. Hið virta tímarit National Geographic valdi til dæmis Food and Fund sem eina merkustu sælkerahátíð í heiminum. Í ár verða bandarískir kokkar óvenjumargir á Food and Fun.

„Mitt helsta hlutverk verður að vera í góðu sambandi við erlendu kokkana. Svo má ekki gleyma því að þetta er ekki bara matarhátíð, heldur líka skemmtun. Og ég ætla sannarlega að skemmta mér konunglega í góðra vina hópi. Þetta verður bara Food and Fun,“ segir Sigurður L. Hall matreiðslumeistari. karlesp@simnet.is