Góður Giordan Watson var stigahæstur hjá Grindvíkingum í gær gegn Haukum með 25 stig.
Góður Giordan Watson var stigahæstur hjá Grindvíkingum í gær gegn Haukum með 25 stig. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÁSVELLIR Ólafur Már Þórisson omt@mbl.is Eftir tvíframlengdan leik þar sem gæðunum var á stundum fórnað fyrir baráttuna höfðu Grindvíkingar betur gegn Haukum, 94:93, í æsispennandi leik.
ÁSVELLIR

Ólafur Már Þórisson

omt@mbl.is

Eftir tvíframlengdan leik þar sem gæðunum var á stundum fórnað fyrir baráttuna höfðu Grindvíkingar betur gegn Haukum, 94:93, í æsispennandi leik. Haukar geta nagað sig í handarbökin fyrir að hafa ekki skellt deildarmeistaraefnunum en besta færið til þess fékk Alik Joseph-Pauline undir lok leiks. Hann fékk þá, þegar staðan var jöfn og fjórar sekúndur eftir, tvö vítaskot en fann ekki leiðina í gegnum hringinn. Staðan eftir fyrri framlenginguna var svo 86:86 og enn þurfti að framlengja. Giordan Watson reyndi undarlegt þriggja stiga skot undir lok framlengingarinnar sem fann ekki körfuna.

Þá tók við þáttur Páls Axels Vilbergssonar sem sagði sjálfur í samtali við blaðamann að hann hefði verið lélegur í leiknum. Engu að síður skoraði hann fimm síðustu stig gestanna, eina þriggja stiga körfu og svo tveggja stiga körfu nánast við lokaflautuna.

„Það var ekki beint teiknað upp en í bakhöndinni að leita til mín ef ég væri laus,“ sagði hógvær Páll Axel um síðustu sekúndurnar og bætti við: „Það var náttúrlega ekkert leikkerfi í gangi í síðustu sókninni. Bakvörðurinn okkar átti að splundra vörninni og annaðhvort fara sjálfur eða finna mann. Sem betur fer fann hann mig.“

„Fannst ég vera slakur“

Páll Axel var ekki ánægður með eigin frammistöðu en hann hefur verið að koma til baka eftir meiðsl. „Ég gerði ekkert og þess vegna fannst mér ég vera slakur. Ég er í þessu liði til að gera eitthvað, alveg sama hvað það er – ná í ískalt vatn eða eitthvað annað. Ég gerði í raun ekkert fyrr en á síðustu sekúndunum,“ sagði Páll harður við sjálfan sig.

Páll sagði að hann og væntanlega liðið allt hefði alls ekki vanmetið Hauka enda þeir með gott lið að hans sögn sem þeir sönnuðu rækilega í gær. Það munaði hins vegar 22 stigum á liðunum í deildinni fyrir leikinn og Haukarnir í bullandi fallbaráttu. Auk þess höfðu Haukar unnið bæði Keflavík og Fjölni fyrir leikinn gegn Grindavík. „Það sem við erum að klikka á er að gíra okkur ekki upp í þessi verkefni. Ég ber virðingu fyrir öllum liðum í deildinni og ég myndi aldrei mæta til leiks með hangandi haus, það er bara vanvirðing. Við getum hins vegar sagt að það sé erfiðara fyrir okkur að ná upp stemningu en fyrir Haukana sem eru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni. Gulrótin þeirra er stærri og meiri,“ sagði Páll.

Haukarnir geta sjálfum sér um kennt að hafa ekki unnið Grindavík og Pétur Rúrik Guðmundsson, þjálfari þeirra, var á sama máli. „Þetta er eins svekkjandi og hægt er. Við vorum með leikinn, að mér fannst, í öll skiptin sem hann var að klárast. Mörg klaufamistök voru þá gerð sem gerist auðvitað í svona spennu. Þau voru hins vegar of dýr að þessu sinni.“

Spurður hvort hann væri stoltur af sínum mönnum sagði Pétur: „Ég get ekki verið annað, maður er náttúrlega alltaf svekktur að tapa. Þetta var bara þannig leikur að hann gat fallið báðum megin.“ Nánar er rætt við Pétur og Helga Jónas Guðfinnsson, þjálfara Grindavíkur, á mbl.is.

Stigametið féll – aftur gegn ÍR

Travis Holmes setti stigamet í deildinni á þessu keppnistímabili þegar hann skoraði 54 stig fyrir Njarðvík gegn ÍR. Fyrra metið átti J'Nathan Bullock, leikmaður Grindavíkur, en hann skoraði þá 51 stig líka gegn ÍR. Stig Holmes komu sér vel fyrir Njarðvík sem hafði nokkuð sannfærandi sigur, 107:93. ÍR-ingar berjast því enn við falldrauginn eins og sjá má hér til hliðar í tölfræðinni.

Stjarnan sýndi mátt sinn og megin gegn Snæfellingum í gær þegar þeir ferðuðust heim með stigin tvö sem í boði voru. Lokatölur voru 80:75 en heimamenn voru með undirtökin allt þar til í fjórða leikhluta. Stigin tvö eru Stjörnumönnum gríðarlega mikilvæg í baráttunni um 2. sætið í deildinni og þar með öruggan heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.