Nokkra athygli vakti, að kunnir bókmenntamenn tóku við krossi á Bessastöðum á nýársdag 2012. Af því tilefni má rifja upp, þegar Steingrími Thorsteinssyni þóttu stjórnvöld veita heiðursmerki af óþarflegri rausn í tilefni þúsund ára afmælis byggðar á Íslandi 1874, að þá orti hann:
Orður og titlar, úrelt þing,
eins og dæmin sanna,
notast oft sem uppfylling
í eyður verðleikanna.
Raunar var til danskt kvæði svipaðs efnis eftir P. A. Heiberg, sem uppi var 1758-1841:
Ordener hænger man paa Idioter,
Stierner og Baand man kun Adelen gier;
Men om de Mallinger, Suhmer og Rot her,
Man ei et Ord i Aviserne seer.
Dog, har man Hierne,
Kan man jo gierne
Undvære Orden og Stierne.
Þetta má þýða svo á laust mál: Heiðurs-merki eru hengd á bjálfa; stjörnur og bönd eru veitt aðlinum. Um menn með nöfnin Malling, Suhm og Roth er ekkert sagt í blöðunum. Hafi maður heila, getur hann verið án heiðursmerkja og krossa.
Heiberg fékk 150 ríkisdala sekt fyrir þennan kveðskap sinn.
Það þóttu síðan fádæmi, þegar Hannesi Hafstein tókst þrátt fyrir fyrri kveðskap Steingríms að krækja heiðursmerki Dannebrog á brjóst honum í konungskomunni 1907. Raunar sagði Pétur Jónsson á Gautlöndum, alþingismaður og ráðherra, þegar hann þáði slíkt merki: „Ég veit ekki, hvort er minni hégómaskapur að hafna Dannebrogskrossinum eða þiggja hann.“
Á næstu þjóðhátíð, Alþingishátíðinni 1930, þóttu stjórnvöld líka óspör á heiðursmerki, þótt nú væri Fálkaorða komin í stað Dannebrog, og Jón Helgason prófessor orti:
Þótt fólkið sé skuldug og flámælt og ráðlítil hjörð
er forsjónin greiðug við oss,
því Ísland er bráðum hið einasta land hér á jörð
þar sem allir menn hafa kross.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is