Strindberg ásamt tveimur barna sinna sem hann átti með Siri, fyrstu konu sinni.
Strindberg ásamt tveimur barna sinna sem hann átti með Siri, fyrstu konu sinni.
Hundrað ár eru liðin frá dauða leikritaskáldsins Augusts Strindbergs og vitanlega lítur ný ævisaga dagsljósið. Kolbrún Bergþórsdóttir kolbrun@mbl.is

Hundrað ár eru frá því að hinn áhrifamikli sænski leikritahöfundur August Strindberg lést. Af því tilefni er ný ævisaga hans komin út. Bókin nefnist Strindberg: A Life og höfundurinn er breskur rithöfundur og ævisagnahöfundur, Sue Prideaux, en hún fékk áhuga á höfundinum þegar hún var að vinna að bók um málarann Edvard Munch.

Strindberg var afkastamikill höfundur 60 leikrita og 18 skáldsagna, auk fjölda annarra verka. Hann hefur haft gríðarleg áhrif á fjölmörg leikritaskáld og leikrit hans eru enn leikin við miklar vinsældir.

Strindberg var ofsamaður, þjáðist af sjúklegri afbrýðisemi og var haldin ofsóknaræði. Neikvæð viðhorf hans til kvenna hafa svo löngum þótt sérstakt rannsóknarefni. Hann var um tíma eindreginn stuðningsmaður kvenréttinda en átakamikil hjónabönd hans urðu til þess að breyta viðhorfum hans og leikrit hans fjalla iðulega um hatramma og kaldrifjaða baráttu milli kynjanna.

Strindberg var vægast sagt afleitur eiginmaður, en kvæntist þrisvar. Hið skrautlega einkalíf hans fær mikið vægi í ævisögunni, enda er þar svo æsilegt efni á ferð að hvaða slúðurtímarit sem er í heiminum myndi fagna því að fá að birta slíkar frásagnir um einkalíf frægra núlifandi einstaklinga.

Fyrsta eiginkona Strindbergs var Siri von Essen sem yfirgaf eiginmann sinn og giftist Strindberg. Í byrjun var hjónband þeirra hamingjusamt en þegar Strindberg, fór að efast um að hann væri faðir þriggja barna þeirra seig verulega á ógæfuhliðina. Þegar Siri viðurkenndi að hafa átt í stuttu ástarsambandi utan hjónabands kýldi hann hana í gólfið að skelfingu lostnum börnum þeirra ásjáandi. Hann sagði öllum sem heyra vildu að hann myndi ekki sjást opinberlega með henni framar. Þegar Siri þekkti svo sjálfa sig í einu verka hans brást hún við þeirri lýsingu með því að hætta að lesa verk hans. Eftir fjórtán ára hjónaband yfirgaf hún hann. Önnur eiginkona hans var tvítug austurrísk blaðakona, Frida Uhl, sem giftist honum eftir þriggja mánaða kynni og í brúðkaupsferðinni reyndi hann að kyrkja hana. Hún yfirgaf hann eftir eins árs hjónaband. Þriðja eiginkonan var hin tuttugu og tveggja ára gamla leikkona Harriet Bosse sem hann kvæntist árið 1901 en hún fór frá honum árið 1903.

Óhætt er að segja að Strindberg hafi ekki verið maður sem bjó yfir andlegu jafnvægi, en hafa má í huga að barnæska hans var ömurleg en faðir hans barði hann og móðir hans sýndi honum algjört áhugaleysi. Sem fullorðinn maður þjáðist hann af ofsóknaræði og með árunum fór geðheilsa hans æ versnandi. Hann trúði að málarinn Edvard Munch, sem bjó í París eins og Strindberg, hygðist myrða hann með gasi. Strindberg hafði mikla trú á yfirnáttúrulegum hlutum og fór engar venjulegar leiðir til að komast inn í íbúð sína í París því hann klifraði inn um gluggann til að forðast illa anda sem hann taldi bíða sín við dyrnar. Hann taldi svo eitt sinn að sér hefði tekist að breyta mold úr frönskum kirkjugarði í gull.

Þessi mikli rithöfundur var elskaður og dáður af alþýðu manna í Svíþjóð og þegar hann lést árið 1912 fylgdu 10.000 manns líkvagninum.