Friðbjörg Ingjaldsdóttir fæddist í Reykjavík 8. október 1918. Hún lést á Landspítalanum 14. maí 2012.
Útför Friðbjargar fór fram frá Dómkirkjunni 23. maí 2012.
„Amma af hverju ertu ekki eins og aðrar ömmur; Lítil, feit með gráar fléttur og svuntu, prjónandi í ruggustól?“
Ég var ekki há í loftinu þegar ég áttaði mig á því að amma mín, þessi eina sem ég átti, var ekki eins og fólk er flest. Hún var dama á háum hælum með hanska og hatt og fór aldrei út úr húsi ótilhöfð. Það gustaði af henni og hún var ekki skoðanalaus, hafði meiningar um allt og fylgdist með öllu hvort sem það viðkom fjölskyldu eða þjóðmálum. Vellugang þoldi hún illa og vildi heyra skemmtisögur af börnum, ekki rapport um veikindi eða almenn leiðindi, nema ef það voru stjórnmál, þá mátti ræða málin.
Hún amma tók alltaf við okkur systkinum þegar foreldrar okkur brugðu sér á bæ og var gott að hafa ömmu heima. Það var fírað upp í eldhúsinu á morgnana, heitt súkkulaði og skorpulaust dúkkubrauð á boðstólum áður en við fórum í skólann. Hún bjó til búninga á okkur úr hillupappír og rabbabarablöðum, steikti spælegg á dúkkupönnu yfir sprittkerti, spilaði við okkur rússa og kenndi okkur að leggja kapal. Alltaf mátti ég fikta í skartgripunum hennar og glingrinu, raða á mig perlufestum og demöntum, prófa hatta og hanska en það varð allt að vera í stíl. Hún var ekki venjuleg amma, það var eiginlega fátt venjulegt við hana Friðbjörgu Ingjaldsdóttur.
Það kom að því að ég gat aðstoðað hana og voru ófáar ferðirnar sem að ég keyrði hana að hitta stelpurnar þegar þær spiluðu brids, flestar yfir 80 ára gamlar. Það hélt heilabúinu gangandi, sagði hún og lagði hart að mér að læra þá list. Ég skvísaðist líka heilmikið með henni því svona dama eins og hún gat ekki látið sjá sig óplokkaða með ljótar tær, ferðir á snyrtistofuna voru því í miklu uppáhaldi hjá okkur báðum.
Hún var ekki allra, sumum fannst hún hvöss og stjórnsöm en hún stóð fast á sínu fram á hinstu stund. Stjórnaði okkur öllum eins og herforingi en allt gerði ég fyrir hana með bros á vör og sól í hjarta því hún var amma mín, hjartagull.
Hrafnhildi, Sigríði Dóru og öllu starfsfólki á A6 er þakkað fyrir umönnunina og aðstoðina við að hjálpa henni að halda reisn sinni fram á síðasta dag.
Hún var orðin þreytt, þessi elska, þráði veisluna sem beið hennar í Paradís þar sem afi Gaggadú klappar fyrir steikinni og henni Björgu sinni. Veit ég í hjarta mínu að þar hafa beðið vinir í varpa er von var á gesti.
Út úr húsi fer dótturbarnið ekki öðruvísi en með málaðan túlla og vasaklút. Þakka ég elsku ömmu fyrir allt og allt. Það voru sönn forréttindi að fá að þekkja hana og elska.
Þóra
Bjarnadóttir.
Elsku amma, ég kveð þig með söknuði og vona að ég hafi náð að gleðja þig jafn mikið og þú gladdir mig.
Þín
Ásta.
Björg giftist ung Oddi Helgasyni útgerðarmanni. Hann var sonur hjónanna Helga Magnússonar járnsmiðs og kaupmanns og Oddrúnar Sigurðardóttur húsfreyju í Reykjavík. Björgu og Oddi varð sjö barna auðið sem öll komust á legg og urðu mikið myndarfólk.
Björg hafði alltaf góðar sögur að segja af sínu fólki. Hún fylgdist með hópnum af áhuga og skýrði mér frá sigrum þeirra í lífinu þegar við töluðum saman. Síðustu tvo áratugi ræddum við saman í síma oft einu sinni á dag og stundum oftar en hittumst sjaldnar. Eftir að við urðum báðar ekkjur og fækka tók fólki sem tilheyrði „gömlu fjölskyldunni“ urðu bönd okkar nánari. Við höfðum þó þekkst í tæp 70 ár og oft lágu leiðir okkar saman. Við fórum til dæmis saman í mína fyrstu utanlandsferð með hinu fræga skipi Eimskipafélagsins, Gullfossi, árið 1954. Börn okkar voru sum á svipuðum aldri, léku sér saman og áttu margt sameiginlegt. Við giftumst inn í stóra og samheldna fjölskyldu þar sem gjarnan var mikið um að vera, bæði í Bankastræti 7 og seinna á Miklubraut 50 þar sem tengdamóðir okkar og mágkonur bjuggu. Það er sannarlega margs að minnast á svona tímamótum; sigra og sorga sem við deildum með öðrum í fjölskyldunni á áratuga langri vegferð.
Oddur og Björg giftu sig í Kaupmannahöfn árið 1938. Björg hafði þá nýlokið húsmæðraskólanámi sínu þegar Oddur sigldi út til hennar. Þau gengu í heilagt hjónaband í Holmenskirke í Höfn þar sem þjónaði íslenskur prestur, séra Haukur Gíslason frá Dalsmynni í Þingeyjarsýslu.
Það er víst ekki ofsögum sagt að Björg hafi verið glæsileg kona, bæði ung og gömul. Að henni sópaði og eftir henni var tekið hvar sem komið var. Hún hafði létta lund, gat verið ákveðin og jafnvel hvöss, en alltaf fann maður fyrir hlýju og væntumþykju í viðmóti hennar þegar upp var staðið. Björg var vel gefin kona með framúrskarandi gott minni. Eitt helsta einkenni Bjargar var gjafmildi, hún vildi alltaf vera að gefa og gleðja fólk. Þessum eiginleika sínum fékk hún meðal annars svalað í starfi sínu fyrir Hringinn, en hún tók þátt í vinnu margra nefnda félagsins árum saman og lá aldrei á liði sínu.
Síðustu árin hafa oft verið Björgu erfið vegna mikilla veikinda. Að lokum varð hún að láta í minni pokann og ganga á vit feðra sinna södd lífdaga.
Nú þegar komið er að kveðjustund sendi ég og mín fjölskylda öllum núlifandi ættingjum Bjargar okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum þeim Guðs blessunar. Ég sakna vinar í stað en veit fyrir víst að það hefur verið vel tekið á móti Björgu handan við móðuna miklu.
Katrín Sigurðardóttir.
Amma Björg var alveg mögnuð. Hennar persónuleiki einkenndist af lífsgleði, jákvæðni, bjartsýni, dugnaði og einstökum sálarstyrk og æðruleysi. Það voru forréttindi að fá að kynnast lífsviðhorfum hennar.
Það var alltaf gaman að hitta ömmu, heyra hana segja sögur frá því í „gamla“ daga og þær voru ófáar sögurnar sem voru sagðar. Merkilegast af öllu var að hún sagði aldrei sömu söguna tvisvar. Sögurnar voru fróðlegar, skemmtilegar, kærleiksríkar og sumar hverjar átakanlegar. Þær höfðu skýran boðskap, sem hún greinilega vildi koma til skila til komandi kynslóða. Eflaust var þetta hennar leið til að takast á við lífið og þau veikindi og áföll sem hún gekk í gegnum. Jákvæðni, bjartsýni og æðruleysi var hennar boðskapur, sem hún taldi vera forsenda vonarinnar. Með það að leiðarljósi var lífið fullt af möguleikum í stað hindrana. Hjá ömmu Björgu var glasið ávallt hálffullt.
Í mörgum sögum hennar var afi Oddur í aðalhlutverki. Stílfærði hún sögurnar þannig að við vorum stödd í einhvers konar James Bond bíómynd og afi var sjálfur James Bond. Slíkar voru lýsingarnar á skemmtilegum lífstakti hans og þeim samkomum sem hann fór með hana í. Það var ætíð gaman að sjá glampann í augum ömmu þegar hún sagði okkur afa Odds sögurnar. Það var ástar- og kærleiksglampi. Virðingin sem hún bar fyrir honum var ólýsanleg og ætti að vera okkur öllum góð fyrirmynd.
Hún kom til dyranna eins og hún var klædd og talaði aldrei í kringum hlutina. Kvöld eitt fyrir skömmu heimsóttum við bræðurnir hana á spítalann. Þegar við gengum inn á herbergið hennar spenntir að fá að hitta hana, sagði hún: „Ég var einmitt að hugsa um að eina manneskjan sem mig langar til að tala við núna er hún amma ykkar, Steinþóra. Eruð þið með síma?“ Við réttum henni farsíma og talaði hún við ömmu Steinu í um 10 mínútur. Að símtalinu loknu sagði hún: „Allt í lagi strákar mínir. Takk fyrir komuna.“
Amma var mjög vanaföst eða öllu heldur íhaldssöm. Það var stranglega bannað að hringja í hana þegar verið var að sýna Leiðarljós, íþróttaleiki eða fréttir í sjónvarpinu. Ef við hringdum á þessum tíma var símtalið stutt og hnitmiðað: „Sælir, ég er að horfa á fréttir, heyrumst síðar, bless.“
Amma var úrræðagóð og heyrðum við t.a.m. oft sögur af því hvernig málum var reddað ef skortur var á mat og stór veisla í vændum. Hjá ömmu var alltaf boðið upp á kaffi í fínasta postulíninu. Hún töfraði fram smákökur eða annað góðgæti og lét gestum líða eins og þeir væru staddir í veislu hjá kóngafólki.
Amma Björg var fyrirmyndarkona í einu og öllu. Hún smitaði út frá sér lífsgleði og jákvæðni, sem gerði það að verkum að það var einstaklega gaman að vera í kringum hana. Megi lífsviðhorf hennar vera okkur styrkur og leiðarljós alla tíð.
Blessuð sé minning ömmu Bjargar.
Davíð Freyr og Friðbjörn.
Elsku amma, ég vona að þú hafir það gott og gaman með afa og svífir í ilmvatnsskýi Elisabetar Taylor. Guð veri ávallt með þér.
Katrín Helgadóttir.