Kristján Jónsson fjallaskáld, fæddist 20. júní 1842 í Krossdal í Kelduhverfi, heimildum ber þó ekki saman um fæðingardag hans.

Kristján Jónsson fjallaskáld, fæddist 20. júní 1842 í Krossdal í Kelduhverfi, heimildum ber þó ekki saman um fæðingardag hans.

Hann missti föður sinn ungur og honum samdi ekki vel við fósturföður sinn sem líklega varð til þess að hann fluttist að heiman við tólf ára aldur. Upp frá því dvaldist Kristján á ýmsum bæjum í Öxarfirði, og var vinnumaður á Hólsfjöllum frá 1859-63, er auknefnið dregið af vist hans í þeirri sveit.

Kristján hlaut styrk velgjörðamanna til skólagöngu og hélt í Lærða skólann í Reykjavík síðla árs 1864. Hann sagði sig úr skólanum að loknu 3. ári 1868 og réði sig til barnakennslu austur á Vopnafjörð. Ástæðu þess má að öllum líkindum rekja til óreglu Kristjáns.

Kveðskapur Kristjáns birtist í blöðum og tímaritum, margt af því mun vera glatað þar á meðal stutt leikrit en varðveist hafa brot úr söngvísum. Kvæðum hans var safnað saman í bók að honum látum.

Þegar hann fyrst lætur að sér kveða vekur hann athygli manna fyrir kjarnyrtan kveðskap þrátt fyrir að vera óskólagenginn.

Þegar Kristján var 19 ára gamall birtist ljóðið Dettifoss í Íslendingi árið 1861. Ljóðið vakti mikla hrifningu, og naut hann almennrar hylli meðal almennings þrátt fyrir stutta ævi. Kvæðið Þorraþræll, sem er þjóðþekkt sönglag, ber glöggt vitni um ríka tilfinningu fyrir móðurmálinu, formgerð og sterka hrynjandi.

Kvæði hans sverja sig í ætt rómantíkur, mörg hver eru með þunglyndislegum blæ þar sem takast á miklar andstæður. Bölmóður og vonleysi eru áberandi og hlutskipti smælingjans í óvinveittum heimi. Lífshlaup Kristjáns ýtir einnig undir áhrifamáttinn, hann þjáðist alla ævi og var fremur drykkfelldur. Matthías Viðar Sæmundsson segir í formála að ljóðmælum Fjallaskáldsins: „Bölsýni og sjálfseyðingarhneigð Kristjáns hafa átt upptök sín innra með honum sjálfum, verið ályktun af tilvist, viðbragð við lífi.“

Kristján dó 9. apríl 1869.