JJónína Margrét Pétursdóttir fæddist í Áreyjum á Reyðarfirði 15. mars 1922. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni 15. júlí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Pétur Wilhelm Jóhannsson, f. 3.11. 1893, d. 25.2. 1986, og Sóley Sölvadóttir, f. 30.4. 1899, d. 10.12. 1928. Systkini Jónínu voru Jóhann Benedikt, f. 1920, maki Kristrún Líney Helgadóttir, látin; Ingólfur, f. 1924, d. 2001, fyrri kona hans var Arnfríður Guðmundsdóttir, kvæntist síðar Stefaníu Gísladóttur; Sólveig Alda, f. 1925, maki Kristján Geir Kjartansson, látinn, Kristrún Jóhanna, f. 1927, d. 2008, maki Ingi Guðmann Hjörleifsson; Ragnar, f. 1928, d. 1983, maki Jóna Ingimundardóttir. Jónína missti móður sína sex ára gömul og var þá send í fóstur til afa síns og ömmu, Sölva Jónssonar og Jónínu Gunnlaugsdóttur, sem bjuggu í Reykjavík. Jónína giftist 30. júní 1950 Halldóri Grímssyni, f. 24.12. 1919, d. 21.9. 2006. Þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Hörður, f. 1950, kvæntur Þórgunni Skúladóttur, f. 1951. Synir þeirra eru: a) Halldór, f. 1973, kvæntur Kristínu Johansen, f. 1971; börn þeirra eru Nína, f. 2004, Martin, f. 2005 og Þórgunnur Kara, f. 2012. b) Skúli Hrafn, f. 1980, sambýliskona hans er Ása Iðunn Róbertsdóttir, f. 1978; dóttir þeirra er Matthildur Íris, f. 2011. 2) Gunnlaugur, f. 1956, hann var kvæntur Piu Kjær, f. 1962. Þau skildu. Börn þeirra eru: a) Alex, f. 1985, b) Anja, f. 1987, c) Mikael, f. 1989, d) Tobias, f. 1993. 3) Bryndís, f. 1958, hún var gift Ólafi Schram, f. 1956. Þau skildu. Dætur þeirra eru: a) Helga Margrét, f. 1981, b) Sunna María, f. 1984, gift Karli Ágústi Þorbergssyni, f. 1982; börn þeirra eru Dagur, f. 2008, og Bryndís, f. 2010. Seinni maður Bryndísar er Hany Hadaya, f. 1962. Dóttir þeirra er: c) Mona Sif, f. 1993. Jónína lauk prófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1939. Hún vann síðan í Ingólfsapóteki í nokkur ár áður en hún hélt til Washington þar sem hún stundaði nám og starfaði um tíma í íslenska sendiráðinu. Stór hluti starfsævi hennar var tengdur hótelrekstri, hún starfaði á City hóteli í Reykjavík, var hótelstjóri á sumrin á hótelinu í Stykkishólmi, á Hótel Varðborg á Akureyri, en lengst af á Hótel Bifröst í Borgarfirði. Jónína hóf síðan störf hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar árið 1977 sem forstöðukona heimilishjálpar og heimilisþjónustu. Hún lét af störfum þar árið 1992. Jónína hafði yndi af hestamennsku og útivist, og naut þess að vera úti í náttúrunni. Hún var mikil áhugamanneskja um brids og spilaði reglulega. Hún unni góðum bókmenntum og listum og las mikið alla sína tíð. Hin síðari ár átti hún góða samfylgd með Matthíasi Bjarnasyni, skólabróður sínum úr Verzlunarskólanum. Þau ferðuðust mikið og nutu lífsins saman. Útför Jónínu verður gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, þriðjudaginn 24. júlí 2012 og hefst athöfnin klukkan 11.

Þegar ég hugsa til Jónínu Pétursdóttur fyllist hugur minn birtu og gleði og óendanlegu þakklæti fyrir að hafa átt hana að, ekki einungis sem tengdamóður heldur einnig þá traustu vinkonu sem hún ávallt var mér. Strax við fyrstu kynni skapaðist með okkur djúp og einlæg vinátta sem aldrei bar skugga á. Hún var heilsteypt manneskja, sjálfri sér samkvæm, föst fyrir og ákveðin. En hrókur alls fagnaðar á góðri stund sem kunni svo sannarlega að njóta augnabliksins. Það var ávallt stutt í hláturinn í návist hennar, svo eðlislægt var það henni að koma auga á hið spaugilega í tilverunni. Líf hennar var þó ekki dans á rósum alla tíð; allt of snemma þurfti hún að horfast í augu við alvöru lífsins. Í huganum bregður fyrir svipmyndum frá liðinni tíð.

Ég sé hana fyrir mér sex ára hnátu takast á við móðurmissi. Þá hrundi heimur litlu stúlkunnar sem fram að því hafði skottast um áhyggjulaus í stórum systkinahópi í sveitinni sinni fyrir austan. Á þeim tímum var fátt um úrræði við slíkar aðstæður, hnípin sigldi hún suður til höfuðborgarinnar þar sem afi hennar og amma tóku hana í fóstur. Og ekki naut hún ömmu sinnar lengi því að hún lést skömmu síðar. Þessi sára reynsla varð tengdamóður minni eftirminnileg og hefur ugglaust mótað viðhorf hennar og persónuleika; það varð henni mikilvægt að geta staðið á eigin fótum. Að loknu námi í Verzlunarskólanum horfði hún bjartsýn til framtíðar, dreif sig út á vinnumarkaðinn og hugsaði sig ekki tvisvar um þegar hún fékk tækifæri til að fara út í hinn stóra heim á vit ævintýranna.

Ég sé hana fyrir mér gullfallega, unga stúlku með koparrautt hár horfa hnarreista í kringum sig í ókunnri álfu. Ekki var þá um farþegaflug á nútímavísu að ræða og eftir háskaferð yfir höfin blá við frumstæðar aðstæður, þar sem hún þurfti að sitja í viðbragðsstöðu með fallhlíf á baki, tók við nýr og spennandi kafli í lífi hennar. Henni bauðst starf í íslenska sendiráðinu í Washington og í þeirri borg hitti hún síðar draumaprinsinn sinn. Hann stundaði framhaldsnám í Bandaríkjunum, en saman eignuðust þau framtíðardrauma og stofnuðu heimili sitt í Reykjavík. Börnin urðu þrjú og allt lék í lyndi um árabil. En erfiðleikar steðjuðu aftur að í lífi hennar þegar tengdafaðir minn missti heilsuna á besta aldri. Það var mikið áfall sem hún tókst á við af sama kjarki og einurð og endranær.

Ég sá hana fyrst á Hótel Bifröst í Borgarfirði. Hún var hótelstjórinn sem réð mig þar kornunga til starfa. Það var ógleymanlegt augnablik. Sjálfsörugg, elegant og virðuleg í fasi tók hún á móti mér en sýndi mér jafnframt strax þá vináttu og hlýju sem einkenndi hana alla tíð. Þetta var kona að mínu skapi. Seinna göntuðumst við með að ég hefði af forsjálni viljað tryggja mér hana sem tengdamömmu ... áður en mannsefnið skaut upp kollinum! Bifrastarsumrin voru oft rifjuð upp og hlegið dátt að ýmsum uppátækjum og atvikum sem óhjákvæmilega koma upp á stórum vinnustað með ungu fólki og stöðugum straumi gesta sem gerðu kröfur af öllum stærðum og gerðum. Jónína stýrði þessari skútu af festu og alúð og naut óskiptrar virðingar og vinsælda. Þessir eiginleikar nýttust henni ekki síður í þeim stjórnunarstörfum sem hún síðar sinnti hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar þar sem hún starfaði síðari hluta starfsævi sinnar.

Ég sé hana ávallt fyrir mér sem hina glæsilegu heimskonu sem hún var. Ungleg og kankvís fram til hinstu stundar, fínleg og fáguð. Fagurkeri og smekkvís á alla hluti. Spilaði bridds með góðum félögum og var alltaf með bókastafla í seilingarfjarlægð. Hún var mikil fjölskyldumanneskja; barnabörnin löðuðust að henni, enda fylgdist hún grannt með öllu sem þau tóku sér fyrir hendur, og var alsæl þegar langömmubörnin tóku að bætast í hópinn.

Síðustu árin naut hún þess að ferðast og eiga góðar stundir með vini sínum og gömlum skólabróður úr Verzlunarskólanum, Matthíasi Bjarnasyni. Þótt árin væru orðin níutíu var það ekki elli kerling sem beygði bak hennar heldur þurfti hún að lúta í lægra haldi fyrir ólæknandi meini sem hún greindist með nú á vormánuðum. Baráttan var hörð en skammvinn, Jónína stóð meðan stætt var og tók því sem að höndum bar af æðruleysi.

Ég kveð tengdamóður mína með trega í hjarta og sé hana fyrir mér svífa umvafin síðustu geislum kvöldsólarinnar inn í eilífðarlandið, á undan okkur hinum. Fögur minning hennar lifir í hugum okkar sem áttum hana að.

Þórgunnur Skúladóttir