Fundur Sagnfræðiprófessorinn Øystein Sørensen talar á fundinum í gær um alræðisstefnur og norska fjöldamorðingjann Andres Behring Breivik.
Fundur Sagnfræðiprófessorinn Øystein Sørensen talar á fundinum í gær um alræðisstefnur og norska fjöldamorðingjann Andres Behring Breivik. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Hjörtur J. Guðmundsson hjorturj@mbl.

Baksvið

Hjörtur J. Guðmundsson

hjorturj@mbl.is

Það samfélag og stjórnfyrirkomulag sem norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik vill koma á fót, samkvæmt svokallaðri stefnuskrá sinni sem hann birti á netinu áður en hann framdi fjöldamorð sín í Osló og á Útey 22. júlí á síðasta ári, er líkast því fyrirkomulagi sem þekkist í dag í Íran. Þetta er mat norska sagnfræðiprófessorsins Øysteins Sørensens, sem flutti í gær erindi á fundi á vegum Varðbergs og Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt (RNH) um alræðishugarfar Breivik. Hann gaf meðal annars út bókina „Drømmen om de fullkomne samfunn“ (Draumurinn um hið fullkomna samfélag) árið 2010 þar sem umfjöllunarefnið eru alræðisstefnur eins og fasismi, nasismi, kommúnismi og íslamismi.

Tilgangurinn helgar meðalið

Sørensen sagði að allar alræðisstefnur snerust um hið fullkomna samfélag og hinn fullkomna mann sem þeir sem aðhylltust þær teldu sig hafa fundið. Þær höfnuðu þeim samfélögum sem til staðar væru og einkum þeim sem byggðust á lýðræði og frjálslyndi og teldu þau dauðadæmd. Þeir sem aðhylltust þessar stefnur höfnuðu ennfremur því að hægt væri að gera umbætur á þeim samfélögum sem fyrir væru og teldu einu leiðina vera ofbeldisfulla byltingu til þess að leggja grunninn að fyrirmyndarríkinu. Lögð væri áhersla á að hafa algera stjórn og stýra öllu niður í smæstu smáatriði með regluverki. Þá teldu þeir sem aðhylltust slíkar alræðisstefnur að flest venjulegt fólk áttaði sig ekki á raunverulegu samhengi hlutanna og fyrir vikið þyrfti að hafa vit fyrir því og stýra því.

Sørensen sagði að þeir sem aðhylltust slíkar alræðisstefnur teldu ennfremur að þeir hefðu siðferðið sín megin vegna þeirra háleitu markmiða sem þeir stefndu að. Fyrir vikið skipti ekki máli hvaða aðferðum væri beitt í þeim tilgangi að ná þeim. Venjuleg siðferðissjónarmið skiptu þar engu máli og ekki heldur mannslíf, sama hversu mörg þau væru. Þeim sem stæðu í vegi fyrir því að hægt yrði að ná þessum markmiðum væri réttlætanlegt að víkja til hliðar með einum eða öðrum hætti, koma í veg fyrir að þeir gætu haft áhrif á samfélagið og jafnvel eyða þeim. Þeir vildu leika Guð. Sørensen sagði allt þetta koma vel heim og saman við hugmyndaheim Breivik, einkum eins og hann birtist í stefnuskrá hans.

Þannig teldi hann til að mynda Vestur-Evrópu dauðadæmda, einkum vegna fjölda múslima, sem hann sæi fyrir sér sem samsæri um að taka yfir Evrópu, og siðferðislegrar hnignunar. Umbylta yrði samfélaginu og stofna nýtt fyrirmyndarríki sem hann hefði uppskriftina að. Til að ná þessu markmiði væri honum heimilt að beita hvaða aðferðum sem á þyrfti að halda og ekki síst ofbeldi. Í þessu fyrirmyndarríki væru til dæmis engir múslimar, engir marxistar (sem Sørensen sagði Breivik hafa mjög víðfeðma skilgreiningu á) og engir femínistar. Hins vegar vildi hann loka öfgafrjálslynda inni í gettóum þar sem þeir gætu ekki haft áhrif á samfélagið sjálft.

Ekki langt yfir til óvinanna

Eins og fram kom í upphafi telur Sørensen að helsta samsvörun hugmyndar Breivik um hið fullkomna samfélag sé að finna í dag í Íran undir klerkastjórninni sem þar ræður ríkjum. Þótt forsendurnar væru aðrar væri grunnhugsunin sú sama og í íslamisma. Hann lauk erindi sínu á því að það væri því ekki svo langt á milli Breivik og þeirra sem hann teldi vera sína helstu óvini. Með hliðstæðum hætti og það hefði á ýmsan hátt ekki verið langt á milli Hitlers og Stalíns á sínum tíma.

NORSKUR PRÓFESSOR

Staðsetning Breiviks erfið

Erfitt er að staðsetja norska fjöldamorðingjann Anders Behring Breivik hugmyndafræðilega, að mati Øysteins Sørensen. Það sem kemst næst því er að skilgreina hann sem einhvers konar nýfasista. Hins vegar tali hann bæði illa um nýnasista og nasista í stefnuskrá sinni sem hann setti á netið áður en hann framdi fjöldamorð sín í Noregi í júlí á síðasta ári.

Sørensen segir Breivik ekki falla undir hefðbundna skilgreiningu á þjóðernissinna enda leggi hann enga sérstaka áherslu á Noreg, norsku þjóðina eða norska menningu. Áhersla hans sé þess í stað á Evrópu og evrópska menningu.