Höfundur Stasilands Metsöluhöfundurinn Anna Funder hélt fyrirlestur á ráðstefnu um fórnarlömb kommúnismans. Fjallaði hún um minningu þeirra sem hefðu lifað undir eftirliti Stasi, austurþýsku leynilögreglunnar.
Höfundur Stasilands Metsöluhöfundurinn Anna Funder hélt fyrirlestur á ráðstefnu um fórnarlömb kommúnismans. Fjallaði hún um minningu þeirra sem hefðu lifað undir eftirliti Stasi, austurþýsku leynilögreglunnar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is „Ég vildi alltaf vera rithöfundur,“ segir Anna Funder, höfundur bókarinnar Stasiland , sem kom út árið 2003.

Viðtal

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

„Ég vildi alltaf vera rithöfundur,“ segir Anna Funder, höfundur bókarinnar Stasiland , sem kom út árið 2003. Bókin fjallar um líf venjulegs fólks undir eftirliti Stasi, leyniþjónustu Austur-Þýskalands, og vakti hún heilmikla athygli um allan heim, en bókin kom út í íslenskri þýðingu í sumar. Funder var ein af fyrirlesurunum á ráðstefnunni „Evrópa fórnarlambanna“ sem haldin var á laugardaginn. Hún mun einnig kynna seinni bók sína, All That I Am í fyrirlestri sem haldinn verður í hádeginu í dag í stofu 201 í Odda.

Funder er löglærð og vann um hríð fyrir ástralska ríkið. En hvers vegna ákvað hún að yfirgefa ferilinn og fjalla um Austur-Þýskaland? „Ég lærði einkum mannréttindalög og þjóðarétt og vann því við að semja milliríkjasamninga og ráðleggja um stjórnlög, en ég trúði því alltaf að ef ég gæti orðið rithöfundur þá myndi ég verða það.“ Funder er áströlsk, en fjölskylda hennar er upphaflega frá Danmörku. Hún segir að hún hafi erft frá forfeðrum sínum, einkum afa sínum, hrifningu sína af orðum og rituðu máli. „Þegar ég hugsa til baka er ekki svo stórt stökk frá því að starfa við milliríkjasamskipti, sem fjölluðu í grunninn um mannréttindi og til þess að skrifa Stasiland , því að ég var að fjalla um ríki sem lýsti sjálfu sér sem lýðræðislegu og mannúðarfullu, en sem var í raun gjörspillt stjórnarfarslega, lýðræðislega og siðferðislega.“

Buðu valdhöfunum birginn

Funder segir að margt við lífið í Austur-Þýskalandi hafi verið áhugavert. „Það sem vakti einna helst áhuga minn var hið innbyggða hugrekki og samviska venjulegs fólks sem sagði bara, ég veit að ég mun hafa verra af en ég mun samt ekki taka þátt í þessu og svíkja fjölskyldu mína, vini og nágranna, þó að það myndi tryggja öryggi mitt.“

Anna segir að það verði að hafa í huga að fyrir þeim sem lifðu í þessu ríki virtist sem það myndi vara að eilífu. Þeir sem hefðu neitað að taka þátt í að ljóstra upp um nágranna sína, þeir sem ætluðu að flýja eða vildu syngja rokk og ról, þeir gerðu það í þeirri vissu að líklega myndi það ekki enda vel. Þess vegna sé það gott að sjá, nú þegar skjöl Stasi hafa verið opnuð, að tugþúsundir manna ákváðu samt að bjóða valdhöfum birginn. „Þannig að jafnvel undir jafnmikilli alræðis- og spillingarstjórn og var í alþýðulýðveldinu náði mannleg reisn að lifa af, þrátt fyrir allt.“ Anna segir að það hafi komið sér á óvart hversu víðtækt eftirlitið var, en talið er að um fimmtungur þjóðarinnar hafi vegna ótta við ríkisvaldið njósnað um nágranna sína.

Talið berst að George Orwell. Anna segir að hún hafi verið búin að lesa nær allt eftir hann áður en hún skrifaði bókina nema 1984 og að hún hafi ekki lesið hana fyrr en eftir að Stasiland var fullkláruð. „Ég er ánægð með að ég beið með það því að lesturinn varð ótrúlegur í kjölfarið, að sjá það hversu nærri spádómar Orwells voru raunveruleikanum í Austur-Þýskalandi. Bókin mín lýsir nákvæmlega eins ríkisvaldi. Ég held að hann hafi haft rétt fyrir sér með það að einstaklingurinn geti ekki unnið gegn ríkinu,“ segir Anna og útskýrir að þó svo að fólkið sem hún hafi sagt frá hafi haldið reisn sinni fórnuðu þau í staðinn andlegri og í sumum tilfellum líkamlegri heilsu sinni.

Armur Hitlers náði langt

Seinni bók Önnu, sögulega skáldsagan All That I Am , hefur sömuleiðis slegið í gegn hvar sem hún hefur komið út, og hefur nú setið á metsölulistanum í Ástralíu, heimalandi Önnu, í meira en ár. Bókin er byggð á sannri sögu fjögurra einstaklinga sem andmæltu uppgangi nasista í Þýskalandi og neyddust því til að flýja til London þegar Adolf Hitler náði völdum árið 1933.

Anna segir að þau hafi búist við því að þau myndu vera örugg í London, en að raunin hafi orðið sú að Gestapo, leynilögregla nasistanna, hafi gert menn út af örkinni til þess að ofsækja og í sumum tilfellum myrða pólitíska andstæðinga Hitlers. Tvær af þeim fundust síðan látnar af völdum eiturs árið 1935. Opinber rannsókn var gerð á andláti þeirra, en Anna segir að á þessum tíma hafi Bretar viljað forðast átök við Þjóðverja. Dánardómstjórinn tók því ekki gild nein sönnunargögn sem tengdust stjórnmálastarfi þeirra og úrskurðaði að um sjálfsvíg vegna ástarsorgar hefði verið að ræða. Anna segir að sér hafi fundist sá úrskurður ólíklegur af ýmsum ástæðum og því hefði hún viljað skrifa sögu sem byggðist á gögnum málsins og sýndi aðra hlið en þá sem dánardómstjórinn vildi sjá.

Anna telur að hægt sé að draga ýmsa lærdóma af voðaverkum tuttugustu aldarinnar. „Ég lauk fyrirlestrinum mínum á orðum bandaríska rithöfundarins Marylinne Robinson sem sagði að alræðisríki væru byggð á brostnum kjarki. Ég tel að við þurfum að læra að meta þann kjark hjá fólki og byggja upp, því það er of mikið fyrir einstaklinginn að standa einn gegn alræðinu.

Þá þurfum við að vera algjörlega með á hreinu hvað fór fram í löndum kommúnismans og nasismans. Við verðum því líka að halda í heiðri minningu þeirra sem streittust á móti, en margir þeirra eru nú algjörlega gleymdir sögunni.“

Evrópu fórnarlambanna minnst

• Ráðstefna á vegum RNH um helgina

Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt hélt alþjóðlega ráðstefnu á laugardaginn um Evrópu fórnarlambanna: Kommúnismann í sögulegu ljósi. Aðalræðu ráðstefnunnar flutti franski sagnfræðingurinn Stéphane Courtois, ritstjóri Svartbókar kommúnismans, en hún kom fyrst út í Frakklandi árið 1997 og hefur verið þýdd á 26 tungumál, þar á meðal íslensku.

Þrír aðrir erlendir fyrirlesarar voru á ráðstefnunni. Norski sagnfræðiprófessorinn Øystein Sørensen bar saman hugmyndir Marx og Engels við stjórnarfar í ríkjum marxista, Roman Joch, ráðgjafi forsætisráðherra Tékklands, í utanríkismálum, sagði frá reynslu lands síns undir kommúnisma og nasisma og ástralski rithöfundurinn Anna Funder sagði frá bók sinni, Stasiland. Þá tóku þeir Hannes H. Gissurarson og Þór Whitehead til máls.

Anna Funder
» Fæddist árið 1966 í Ástralíu.
» Hún lærði lögfræði, einkum á sviði mannréttindamála, en vildi frá unga aldri verða rithöfundur.
» Starfaði sem lögfræðingur fyrir ástralska ríkið um skeið, en gaf það upp á bátinn til þess að skrifa bókina Stasiland, sem kom út árið 2003.
» Stasiland hefur verið gefin út í fimmtán mismunandi löndum á um tólf tungumálum og verið tilnefnd til margvíslegra verðlauna. Bókin hlaut m.a. verðlaun Samuels Johnsons árið 2004, en það er einn mesti heiður sem fræðiriti getur hlotnast.
» Seinni bók Funder, skáldsagan All That I Am, kom út í fyrra og hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda.