Fjölskyldan í New York Ólafur Jóhann og Anna með börnum sínum, Árna Jóhanni, Ólafi Jóhanni og Sóleyju.
Fjölskyldan í New York Ólafur Jóhann og Anna með börnum sínum, Árna Jóhanni, Ólafi Jóhanni og Sóleyju.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur Jóhann Ólafsson fæddist í Reykjavík og ólst þar upp. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1982 og lauk prófum sem eðlisfræðingur frá Brandeis University í Massachusetts í Bandaríkjunum 1985.

Ólafur Jóhann Ólafsson fæddist í Reykjavík og ólst þar upp. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1982 og lauk prófum sem eðlisfræðingur frá Brandeis University í Massachusetts í Bandaríkjunum 1985.

Ólafur gegndi ýmsum störfum hjá Sony-fyrirtækinu á árunum 1986-90.

Hann átti þar m.a. þátt í að þróa geisladiskinn og undir forystu hans hleypti fyrirtækið af stokkunum PlayStation leikjatölvunni.

Ólafur var aðstoðarforstjóri eignarfyrirtækis Sony USA, 1990-96, og forstjóri Sony Electronic Publishing Company og Sony Electronic Entertainment Company 1991-96.

Hann hóf störf hjá Advanta 1996 og var forstjóri þess um skeið, var síðan ráðinn annar tveggja yfirmanna Time Warner Digital Media 1999 og er nú aðstoðarforstjóri Time Warner.

Ólafur hefur setið í stjórnum fjölda fyrirtækja, var formaður Íslenska-Ameríska félagsins í Bandaríkjunum, var formaður American Scandinavian Foundation um árabil og stjórnarformaður Atlantic Theatre Company í New York.

Skáldverk Ólafs Jóhanns

Ólafur hefur sinnt ritstörfum frá því á námsárunum. Skáldverk hans eru Níu lyklar, smásagnasafn, útg. 1986, og skáldsögurnar Markaðstorg guðanna, 1988; Fyrirgefning syndanna, 1991; Sniglaveislan,1994; Lávarður heims, 1996; Slóð fiðrildanna, 1999; Höll minninganna, 2001; Sakleysingjarnir, 2004; Aldingarðurinn, smásagnasafn, 2006, og Málverkið, 2011.

Ólafur samdi auk þess leikritið Fjögur hjörtu, sem sýnt var í Loftkastalanum 1997, og Rakstur, sem Þjóðleikhúsið sýndi 2003. Leikgerð Sniglaveislunnar var frumsýnd hjá Leikfélagi Akureyrar 2001 og hefur verið sett á svið í Bretlandi. Þá hefur verið seldur kvikmyndaréttur á skáldsögunni Slóð fiðrildanna.

Skáldverk Ólafs hafa verið þýdd á rúmlega 20 tungumál. Skáldsagan Fyrirgefning syndanna var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna en fyrir smásagnasafnið Aldingarðinn, hlaut Ólafur Jóhann Íslensku bókmenntaverðlaunin 2006, auk þess sem ein saga þess, Apríl, hlaut O. Henry-verðlaunin í Bandaríkjunum árið 2008. Hann hefur verið útnefndur til Frank O-Connor verðlaunanna, og hefur í tvígang fengið tilnefningu til IMPAC-verðlaunanna. Hann var sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir ritstörf og kynningu á íslenskum málefnum, 2007.

Að segja athyglisverðar sögur

Ólafur býr að staðaldri í New York með fjölskyldu sinni en kemur reglulega til Íslands. Hann er oft skilgreindur sem „alþjóðlegur“ rithöfundur en sjálfur segist hann vera Íslendingur sem búi í New York.

Hann hlær þegar blaðamaður minnir hann á þau ummæli Ragnars í Smára að athafnamenn séu um margt líkir skáldum – séu í raun athafnaskáld: „Já veistu, það er ýmislegt til í þessu, ekki síst í mínu tilfelli, því Time Warner snýst um fjölmiðlaheiminn, tímaritaútgáfu og kvikmynda- og sjónvarpsrekstur. Í slíkum bransa verða menn hreinlega að bera skynbragð á sögur og skáldskap. Frá örófi alda – og á endanum – hefur þetta snúist um það að segja sögur sem aðrir vilja heyra.“

Fjölskylda

Eiginkona Ólafs er Anna Ólafsdóttir, f. 6. 8. 1963, húsfreyja. Hún er dóttir Ólafs Hauks Árnasonar, f. 18.12. 1934, húsasmíðameistara, og Báru Jakobsdóttur, f. 14.1. 1936, fyrrv. fulltrúa.

Börn Ólafs og Önnu eru Ólafur Jóhann, f. 13.1. 1993; Árni Jóhann, f. 28.1. 1995, og Sóley, f. 17.3. 2004.

Bróðir Ólafs er Jón, f. 17.11. 1943, haffræðingur í Reykjavík.

Foreldrar Ólafs: Ólafur Jóhann Sigurðsson, f. í Hlíð í Garðahverfi 26.9. 1918, d. 30.7. 1988, rithöfundur í Reykjavík, og k.h., Anna Jónsdóttir, f. á Kópaskeri 31.5. 1918, d. 21.2. 1995, húsfreyja.