Þótt söguþráðurinn í Atómstöðinni eftir Halldór Kiljan Laxness sé um margt sóttur í tékkneska skáldsögu, Anna Proletarka eftir Ivan Olbracht, eins og ég hef áður bent á, eru í henni nokkrar rammíslenskar söguhetjur.

Þótt söguþráðurinn í Atómstöðinni eftir Halldór Kiljan Laxness sé um margt sóttur í tékkneska skáldsögu, Anna Proletarka eftir Ivan Olbracht, eins og ég hef áður bent á, eru í henni nokkrar rammíslenskar söguhetjur. Ein þeirra er organistinn, sem settur er saman úr tveimur vinum Laxness, Þórði Sigtryggssyni tónlistarkennara og Erlendi skrifstofumanni Guðmundssyni í Unuhúsi. Hvorugur var við konu kenndur, og Þórður leyndi því hvergi, að hann væri samkynhneigður. Ein frægustu orð organistans í Atómstöðinni eru: „Það er ekki til önnur kynferðileg öfughneigð en einlífi.“

Laxness hefur þessi orð sennilega úr skáldsögu Aldous Huxleys, Eyeless in Gaza , sem kom út 1936 og heimildir eru til um, að hann las. Þar segir (27. k.): „Chastity – the most unnatural of all the sexual perversions.“ Skírlífi – afbrigðilegasta kynferðilega öfughneigðin.

Hugsanlega hefur Huxley stuðst við svipaða hugmynd í bók eftir franska rithöfundinn Remy du Gourmont, Physique de l'amour , sem kom út 1903. Þar segir, að skírlífi (chasteté) sé „de toutes les aberrations sexuelles la plus singulière“, af öllum kynferðilegum öfughneigðum hin einkennilegasta.

Víkur nú sögunni til ársins 1974. Þá var ég fulltrúi á þingi ungra íhaldsmanna í Kaupmannahöfn og hitti þar meðal annars Carl Bildt frá Svíþjóð og Karl Rove frá Bandaríkjunum, sem síðar urðu kunnir stjórnmálamenn. Formaður Evrópusamtaka ungra íhaldsmanna þá var maður að nafni Tom Spencer. Ég kynntist honum ekki að ráði, en hann var fjörugur og skemmtilegur. Hann settist síðar á Evrópuþingið fyrir breska íhaldsflokkinn.

Mörgum árum síðar sá ég mér til mikillar undrunar í enskum blöðum, að Spencer hefði eitt sinn verið handtekinn á Lundúnaflugvelli, þegar hann kom þangað frá Amsterdam, og hafði hann fjölda klámrita og vægra fíkniefna (kannabis) í fórum sínum; þetta var löglegt í Hollandi, en ólöglegt á Bretlandi. Þá sagði hann hið sama við blaðamenn og þeir Laxness og Huxley: Skírlífi er eina kynferðilega öfughneigðin. Hætti Spencer afskiptum af stjórnmálum við svo búið, þótt ekki yrði hann organisti.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is