Færeyjar Rögnvaldur segir það vera mikinn misskilning að færeyska fiskveiðistjórnunarkerfið geti orðið Íslendingum að fyrirmynd.
Færeyjar Rögnvaldur segir það vera mikinn misskilning að færeyska fiskveiðistjórnunarkerfið geti orðið Íslendingum að fyrirmynd. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján Torfi Einarsson kristjantorfi@gmail.com „Ég hef alla tíð verið mjög hlynntur kvótakerfinu og tel það skynsamlegustu stjórn fiskveiða miðað við þær aðstæður sem eru á Íslandi.

Kristján Torfi Einarsson

kristjantorfi@gmail.com „Ég hef alla tíð verið mjög hlynntur kvótakerfinu og tel það skynsamlegustu stjórn fiskveiða miðað við þær aðstæður sem eru á Íslandi. Hitt er annað að miklar deilur hafa staðið um hvort leggja eigi auðlindaskatt á sjávarútveginn, en ég hef jafnframt verið hlynntur slíkri skattheimtu,“ segir Rögnvaldur Hannesson í samtali við Morgunblaðið.

Rögnvaldur segir eðlilegt að líta fiskveiðiauðlindir sömu augum og Norðmenn líta olíuauð sinn. „Hvor tveggja eru mjög arðbærar auðlindir og því ber að skattleggja þær samkvæmt því. Ástæðan fyrir þessari skoðun er mjög einföld. Við getum deilt um hve umsvifamikið ríkið eigi að vera en við getum verið sammála um að ríkið þurfi að fjármagna burtséð frá því hversu mikil umsvif þess eru. Við þessa fjármögnun finnst mér réttast að beita þeim sköttum sem valda minnstum skaða og að mínu mati hefur skattlagning á auðlindarentu ótvíræða kosti fram yfir skatt á tekjur og fjármagn.

Nú er rétt að ég taki fram að ég missi engan nætursvefn þó svo að ég viti að einhverjir útgerðarmenn hirði auðlindarentuna. Hér í Noregi hafa verið stundaðar arðbærar fiskveiðar án þess að auðlindaskattur hafi verið lagður á sjávarútveginn. Útgerðarmenn hafa því fengið að sitja einir að arðinum og hafa margir hverjir notað hagnaðinn til þess að fjárfesta skynsamlega, t.d. í fiskeldi og þjónustuskipum fyrir olíuvinnslu. Þessar fjárfestingar hafa aukið fjölbreytni atvinnulífsins og stuðlað að blómlegum byggðum.

Ef íslenskir kvótaeigendur hefðu hagað sér á svipaðan máta þá væri erfitt að mæla á móti því að þeir hirtu auðlindarentuna. En það má efast um að arðurinn af sjávarútveginum hafi verið skynsamlega nýttur í gegnum tíðina. Sögur um kvótaeiganda sem seldi aflaheimildirnar á sínum tíma og keypti hlutabréf í gömlu bönkunum eru t.d. til marks um að auðlindarentunni hafi ekki alltaf verið ráðstafað skynsamlega. Ég hallast þess vegna að því að ríkið ætti að skattleggja þessa auðlind.“

Markaðsdrifin skattlagning

Rögnvaldur segir ekki sama hvernig staðið sé að því að innheimta skatt af auðlindinni. „Aðferðirnar sem núverandi ríkissjórn hefur boðað í þessum málum sýnist mér að muni reynast atvinnugreininni ofviða. Það hefur hingað til ekki þótt góð latína að drepa gæsina sem verpir gulleggjunum,“ segir Rögnvaldur.

„Almennt hefur mér litist mjög illa á þær breytingar á fiskveiðikerfinu sem hafa verið til umræðu að undanförnu. Sér í lagi tel ég óráð að færa svo mikið vald til stjórnmálamanna sem tillögur ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir. Það býður hættunni heim þegar stjórnmálamenn taka að sér að úthluta aflaheimildum til gæðinga sinna.

Ég skil hins vegar óánægjuna sem hefur verið uppi gagnvart auðlindarentunni og tel því rétt að skattleggja hana. Best væri að framkvæma skattlagninguna þannig að hluti kvótans t.d. 10% væri tekinn af kvótaeigendum árlega og þessi hluti svo settur á uppboð. Þá er það markaðurinn og greinin sjálf sem ákveða hvaða verð og hvaða renta fæst fyrir auðlindina en kvótaeigendurnir færu ekki að ofgera greininni með tilboðum sínum. Þannig held ég að hægt væri að ná mjög góðri málamiðlun á milli þessara tveggja sjónarmiða, annars vegar kröfunnar um að ríkið fái sinn hluta af rentunni og hins vegar að skattlagningin verði greininni ekki ofviða. Það er mun betra að markaðurinn ákveði hvað er hóflegt gjald en að stjórnmálamenn séu að ráðskast með þetta eftir eigin geðþótta,“ segir Rögnvaldur.

STRANDVEIÐIFLOTINN Í FÆREYJUM REKINN MEÐ TAPI

Færeyjar ekki fyrirmynd

Rögnvaldur fjallaði einnig um færeyska fiskveiðistjórnunarkerfið í erindi sínu á ráðstefnunni um fiskveiðistjórnun.. Niðurstaða hans var sú að stórir annmarkar væru á því fyrirkomulagi. „Ég fjallaði um þetta sérstaklega vegna þess að ég hef heyrt Íslendinga tala um færeyska kerfið sem mögulega fyrirmynd, en þetta tel ég vera mikinn misskilning.

Strandveiðiflotinn færeyski, sem stýrt er með dagakerfi, er rekinn með tapi og þar að auki eru fiskistofnarnir í algjöru lágmarki þannig að kerfið hefur engu skilað.

Þetta er ekki skrýtið því Færeyingar vildu ekki taka upp kvótakerfi sem hefði í för með sér að fiskiskipum og sjómönnum fækkaði. Niðurstaðan er sú að fiskveiðiflotinn er enn allt of stór og af þeim sökum eru fiskveiðarnar reknar með tapi,“ segir Rögnvaldur.

Stundum er því haldið fram að meiri sátt ríki í Færeyjum um fiskveiðistjórnunarkerfið en hér á landi. Hvað segir Rögnvaldur um þá fullyrðingu? „Sú sátt er þá um lélega rentu og tap og ég efast um að það sé það sem við viljum fyrir íslenskan sjávarútveg.“