28. október 2012 | Sunnudagsblað | 297 orð | 2 myndir

Dagar skyndibita

Aurar og krónur

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Föstudagar eru skyndibitadagar ef marka má tölur unnar úr Meniga-hagkerfinu. Á föstudögum fer fram 19% af heildarskyndibitaveltu Íslendinga en það er 73% meiri velta en á mánudögum.
Föstudagar eru skyndibitadagar ef marka má tölur unnar úr Meniga-hagkerfinu. Á föstudögum fer fram 19% af heildarskyndibitaveltu Íslendinga en það er 73% meiri velta en á mánudögum. Þessar niðurstöður koma kannski ekkert sérstaklega á óvart, á föstudögum er löng vinnuvika að baki og afslöppun og rólegheit meira spennandi kostur en matvörubúðin. Á þessum tímapunkti getur verið erfitt að standast freistingar og einfalda og fljótlega leiðin, það er skyndibitinn, vill verða fyrir valinu.

Það sem kemur meira á óvart er hvað karlmenn eyða miklu meira í skyndibita en konur, en þeir standa á bak við 62% af heildarskyndibitaneyslunni. Getur verið að íslenskir karlmenn séu svona miklu veikari fyrir skyndibita en konur? Kannski ekki, kannski eru þeir svo miklir herramenn að þeir bjóðast oftar til að skjótast eftir skyndibitanum og borga reikninginn.

Ef við skoðum Meniga-tölfræðina aðeins betur má sjá að Íslendingar eyða að meðaltali um 5.400 krónum á mánuði í skyndibita, eða næstum 65.000 krónum á ári. Þetta er jafnhá upphæð og meðal-Bandaríkjamaður eyðir í skyndibita árlega en Bandaríkjamenn eru oftar en ekki eru teknir sem dæmi þegar rætt er um ofneyslu skyndibita.

Eins og þessar tölur gefa til kynna, og flestir vita, má spara sér dágóða summu með því að draga úr skyndibitaneyslu og kemur því eitt ráð að lokum sem hjálpar til við að draga úr skyndibitafreistingunni á föstudögum: Föstudagsmatargerðin getur verið einföld og fljótleg, en jafnframt freistandi. Gott er að versla inn fyrir föstudagsmatinn á fimmtudegi, eða jafnvel fyrr í vikunni, og ef allt hráefni er fyrir hendi er ekki svo mikið mál að útbúa eigin pítsu eða steikja hamborgara. Oftast nær er það líka töluvert hollari kostur.

Niðurstöður eru byggðar á upplýsingum úr Meniga-hagkerfinu. Um 30.000 Íslendingar eru skráðir í Meniga og eru upplýsingarnar því byggðar á kortafærslum frá næstum 10% þjóðarinnar.

Áslaug Pálsdóttir

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.