Tuttugasta öldin var öld sósíalismans í þremur ólíkum afbrigðum, þjóðernissósíalisma Hitlers og Mússólínis, byltingarsósíalisma Leníns, Stalíns og Maós og lýðræðissósíalisma ýmissa vestrænna jafnaðarmanna, til dæmis enska stjórnmálafræðingsins Harolds...

Tuttugasta öldin var öld sósíalismans í þremur ólíkum afbrigðum, þjóðernissósíalisma Hitlers og Mússólínis, byltingarsósíalisma Leníns, Stalíns og Maós og lýðræðissósíalisma ýmissa vestrænna jafnaðarmanna, til dæmis enska stjórnmálafræðingsins Harolds Laski, sem var fyrirmynd Ayns Rand að söguhetjunni Ellsworth Toohey í skáldsögunni Uppsprettunni .

Þjóðernissósíalismi Hitlers og Mússólínis var mjög mannskæður, og má ekki gleyma því, að Hitler sendi ekki aðeins Gyðinga í útrýmingarbúðir, heldur líka sígauna, samkynhneigða og ýmsa aðra, sem ekki ættu heima í þúsundáraríki hans. En byltingarsósíalismi Leníns, Stalíns og Maós var þó sýnu mannskæðari með fjöldaaftökur sínar, þrælkunarbúðir, þjóðarmorð, nauðungarflutninga heilla þjóða og hungursneyðir af mannavöldum. Er talið, að um eitt hundrað milljón manna hafi týnt lífi af þeirra völdum. Eru þá ótaldir allir þeir, sem héldu lífi, en fengu ekki notið sín vegna kúgunar og ofsókna.

En sumir sósíalistar höfðu séð fyrir hættuna af því að safna öllu valdi í hendur eins manns, sem hefði sýnt það í undangenginni valdabaráttu, að hann væri harðskeyttari og ófyrirleitnari en keppinautar hans. Þýsk-pólski kommúnistinn Rósa Lúxemburg gagnrýndi einmitt Lenín og rússnesku byltingarmennina fyrir að tryggja ekki aðstöðu minnihlutahópa til að gagnrýna stjórnina í byltingarríkinu með fleygum orðum 1918: „Freiheit ist immer nur Freiheit des Andersdenkenden.“ Frelsi er alltaf frelsi andófsmannsins. Það þarf auðvitað ekki að tryggja frelsi manna til að vera með valdinu.

Í hörðum deilum um skipulag kommúnistaflokksins rússneska 1904 sagði Lev Trotskíj í bæklingi gegn lenínismanum: „Fyrst kemur flokksskipulagið í stað flokksins; síðan kemur miðstjórnin í stað flokksskipulagsins; loks kemur einræðisherra í stað miðstjórnarinnar.“ Verður ekki annað sagt en hann hafi orðið sannspár.

Og Trotskíj sagði um stjórnarskrá Stalíns, sem hann boðaði í Bolshoj-leikhúsinu 11. desember 1937, þar sem Halldór Kiljan Laxness var á meðal áheyrenda (en sú ræða Stalíns er til á Youtube): „Í landi, þar sem ríkið er eini vinnuveitandinn, bíður stjórnarandstæðingsins hægur hungurdauði.“ Betur verður varla lýst umkomuleysi andófsmannsins í landi, þar sem hagvald og stjórnvald er allt á einni hendi.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is