16. desember 2012 | Sunnudagsblað | 330 orð | 2 myndir

Vaxtamunur

Aurar og krónur

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í fjölmiðlum var nokkuð fjallað um góða afkomu bankanna þegar þeir skiluðu skýrslum í lok þriðja ársfjórðungs. Fjölmiðlar gerðu hagnaðinum skil og fjölluðu um gott eiginfjárhlutfall og aukinn launakostnað sem mætti rekja til aukinna skatta.
Í fjölmiðlum var nokkuð fjallað um góða afkomu bankanna þegar þeir skiluðu skýrslum í lok þriðja ársfjórðungs. Fjölmiðlar gerðu hagnaðinum skil og fjölluðu um gott eiginfjárhlutfall og aukinn launakostnað sem mætti rekja til aukinna skatta. Lítið sem ekkert var fjallað um atriði sem er afar mikilvægt heimilunum, bæði þeim sem skulda og þeim sem eiga inneignir í bönkum og sparisjóðum, en það er vaxtamunur.

Vaxtamunur er mælikvarði sem segir til um framlegð af vaxtaberandi eignum banka og fjármálafyrirtækja. Það er að segja, mismun á vaxtatekjum sem þau innheimta af útlánum sínum að frádregnum vöxtum sem þau greiða viðskptavinum fyrir innlán. Oftast er munurinn sýndur sem hundraðshlutfall af meðalstöðu innlána yfir tímabil. Vaxtamunur er svipaður framlegð hjá öðrum fyrirtækjum og sýnir svart á hvítu muninn á innláns- og útlánsvöxtum. Því hærri sem vaxtamunurinn er, þeim mun meiri „framlegð“ er af inn- og útlánum fjármálafyrirtækisins. Vaxtamunurinn lækkar þegar bankar þurfa að afskrifa lán og hækkar þegar þeir færa upp lán sem áður voru talin glötuð.

Einföld leið til að reikna vaxtamun er að taka dæmi af ímynduðum banka. Segjum að meðalútlán bankans nemi 100.000 kr. á tilteknu tímabili. Segjum að hann láni féð út á 5% vöxtum og vaxtatekjur hans nemi því 5.000 kr. Á sama tímabili greiðir hann 3% vexti eða 3.000 kr. til innstæðueigenda og annarra lánveitenda bankans. Vaxtamunur bankans væri því 2% (5.000 –3.000) / 100.000 = 2%.

En af hverju er vaxtamunur mikilvægur fyrir heimilin? Af þeirrri ástæðu að hagsýnn neytandi leitar eftir viðskiptum við banka þar sem vaxtamunur er hæfilega lítill, þar sem hann fengi sem hæsta vexti fyrir innstæður sínar, en greiddi sem lægsta vexti fyrir lán sem hann þyrfti að taka.

Í nýlegri skýrslu Seðlabanka Íslands kemur fram að vaxtamunur íslenskra banka er töluvert hærri en vaxtamunur norrænna banka. Þar kemur kemur fram að vaxtamunur hér á landi er frá rúmum 3 prósentustigum og upp í tæp 4 prósentustig, en vaxtamunur á Norðurlöndum er frá tæpu prósenti og upp í tæp 2 prósent.

Breki Karlsson

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.