28. desember 2012 | Árnað heilla | 545 orð | 4 myndir

Albert Jónsson, sendiherra Íslands í Moskvu – 60 ára

Áhuginn á stangveiði er fjölskylduarfleifð

Á götu í Moskvu Albert, ásamt Ásu, foreldrum sínum, Jóni Ragnari og Auði, og tengdaföður, Baldvini Ársælssyni.
Á götu í Moskvu Albert, ásamt Ásu, foreldrum sínum, Jóni Ragnari og Auði, og tengdaföður, Baldvini Ársælssyni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Albert fæddist við Grenimelinn í Reykjavík og ólst upp í Vogunum og síðan aftur á Melunum. Hann lauk stúdentsprófi frá VÍ 1973, BA-prófi í sagnfræði og stjórnmálafræði frá HÍ 1978 og M.Sc.
Albert fæddist við Grenimelinn í Reykjavík og ólst upp í Vogunum og síðan aftur á Melunum. Hann lauk stúdentsprófi frá VÍ 1973, BA-prófi í sagnfræði og stjórnmálafræði frá HÍ 1978 og M.Sc.-prófi í alþjóðastjórnmálum frá London School of Economics and Political Science 1979.

Albert vann við rannsóknir og skýrslugerð hjá Öryggismálanefnd 1980-82, var aðjunkt í alþjóðastjórnmálum við HÍ á árunum 1983-2006, var fréttamaður við RÚV – útvarp 1984-87, og hjá RÚV – sjónvarpi 1987-88, var framkvæmdastjóri öryggismálanefndar 1988-91, ráðgjafi forsætisráðherra í utanríkismálum 1991-2004, sérstakur ráðgjafi utanríkisráðherra 2004-2006 og ráðgjafi forsætisráðherra í utanríkismálum 2006, var sendiherra Íslands í Washington 2006-2009, aðalræðismaður Íslands í Færeyjum 2009-2011 og hefur verið sendiherra Íslands í Moskvu frá 2011.

Albert er, ásamt Trausta Valssyni, höfundur bókarinnar Aldahvörf: Staða Íslands í breyttum heimi, útg. 1995, var ritstjóri Fréttabréfs öryggisnefndar og hefur skrifað bókakafla, greinar og fyrirlestra um utanríkis- og öryggismál.

Aðstoðarsendiherrann Argus

Albert hefur haft áhuga á veiði frá því hann man eftir sér: „Minn veiðiáhugi er í raun fjölskylduarfleifð. Afi minn og nafni, Albert Erlingsson, rak verslunina Veiðimanninn í Hafnarstræti, við hliðina á Bókabúð Braga, í Smjörhúsinu. Hann var mikill sérfræðingur og þekkti flesta helstu veiðimenn landsins. Þarna var maður að skottast og vann við afgreiðslu. Auk þess fór ég í mínar fyrstu veiðiferðir með afa og ömmu.

Ég hef því alltaf haft gaman af stangveiði og hef á undanförnum árum farið í Laxá í Aðaldal í tveggja til þriggja daga ferð á hverju sumri og þá yfirleitt með föstum hópi góðra félaga. Ég fór töluvert á rjúpu á árum áður en það er nánast liðin tíð.

Við förum líka töluvert í sumarbústað sem tengdaforeldrar mínir komu sér upp á sínum tíma í landi Miðdals í Biskupstungum og sem fjölskyldurnar hafa verið að gera upp nú síðustu árin.

Ég má svo ekki gleyma að nefna Argus sem er nú eiginlega minn aðstoðar sendiherra. Hann er níu ára Labradorhundur og einn fjölskyldumeðlimurinn, hefur búið í Reykjavík, Washington, Færeyjum og nú í Moskvu. Ég fer með hann í 20-30 mínútna göngutúr á hverjum morgni og síðan förum við hjónin með hann út að ganga í svona þrjú korter á hverju kvöldi.

Það er afskaplega heilsusamlegt að eiga hund og honum að þakka að við þekkjum eins og lófans á okkur þau hverfi sem við höfum búið í.“

Svo ertu rokkari Albert, ekki satt?

„Jú, jú. Ég var alltaf mikill Led Zeppelin-aðdáandi, fór á Led Zeppelin-tónleikana í Laugardalshöll vorið 1970 og við hjónin komumst svo á tónleikana þeirra í Knebworth Park í London 1979 sem voru næstsíðustu tónleikar þeirra.“

Fjölskyldan

Eiginkona Alberts er Ása Baldvinsdóttir, f. 14.6. 1955, vefkona. Hún er dóttir Baldvins Ársælssonar, f. 22.1. 1928, prentara, og Þorbjargar Guðmundsdóttur, f. 16.1. 1936, fyrrv. auglýsingastjóra hjá RÚV.

Börn Alberts og Ásu eru Baldvin Albertsson, f. 1.5. 1983, leikari, leikstjóri og nú leiklistarkennari við Ölduselsskóla en unnusta hans er Arna Þorleifsdóttir innanhúshönnuður og er sonur þeirra Tjörvi Baldvinsson, f. 10.10. 2012; Auður Albertsdóttir, f. 15.10. 1989, nemi í bókmenntafræði og sögu en sambýlismaður hennar er Jóhann Ólafsson, nemi í sagnfræði.

Systur Alberts eru Hildur Jónsdóttir, f. 17.5. 1954, starfsmaður við álverið í Straumsvík, og Kristbjörg Jónsdóttir, f. 4.10. 1967, innkaupastjóri hjá Sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum.

Foreldrar Alberts: Jón Ragnar Steindórsson, f. 6.2. 1933, fyrrv. yfirflugstjóri hjá Flugleiðum, og Auður Albertsdóttir, f. 26.9. 1932, fyrrv. verslunarmaður.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.