11. maí 2013 | Innlendar fréttir | 211 orð | 1 mynd

Moyes hóf ferilinn hjá Tý í Eyjum

• Moyes-fjölskyldan er vinmörg á Íslandi eftir áratuga samstarf við ófá íþróttalið

Á hliðarlínunni David Moyes dvaldi nokkrar vikur í Eyjum og hefur þjálfað íslenska knattspyrnumenn.
Á hliðarlínunni David Moyes dvaldi nokkrar vikur í Eyjum og hefur þjálfað íslenska knattspyrnumenn. — AFP
Pétur Blöndal pebl@mbl.is David Moyes, nýráðinn framkvæmdastjóri Manchester United, hefur oft komið til Íslands með fjölskyldu sinni.
Pétur Blöndal

pebl@mbl.is

David Moyes, nýráðinn framkvæmdastjóri Manchester United, hefur oft komið til Íslands með fjölskyldu sinni. Faðir hans og alnafni er mikill Íslandsvinur og hefur haft milligöngu um íþróttaferðir til Skotlands, auk þess að greiða götuna fyrir þjálfara og leikmenn á milli landanna.

Smám saman tók sonurinn Kenny við þessum samskiptum, en tengslin héldust áfram góð við fjölskylduna, samstarf sem varð að vináttu í áratugi. „Ég man að í einni af heimsóknum Davids eldri til Íslands höfðum við samband við KSÍ vegna miða á bikarúrslitaleik,“ segir Hörður Hilmarsson. „Ég hélt að ég þekkti flesta í fótboltahreyfingunni á Íslandi, en David gamli heilsaði öllum í heiðursstúkunni, bæði þeim sem ég þekkti og hinum líka!“

Þegar Moyes yngri var 15 ára 1978 bjó hann í Vestmannaeyjum í nokkrar vikur, æfði og spilaði fótbolta með Tý og sinnti þjálfun í fyrsta skipti. „Hann bjó hérna þrjár, fjórar vikur, ætlaði að vera allt sumarið, en þá fékk hann tilboð um að komast á samning hjá Celtic,“ segir Ólafur Jónsson sem hýsti unglinginn. „Það var ekkert vandamál að hafa ungling á heimilinu. Þetta var ósköp venjulegur og geðugur strákur, dálítið grimmur við sjálfan sig, metnaðargjarn og stífur á mataræðinu. Hann ætlaði sér greinilega að ná langt í fótbolta.“

Nánar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og á íþróttasíðum.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.