Runólfur Elentínusson fæddist í Keflavík 6. febrúar 1933. Hann lést að heimili sínu á Akureyri 3. júní 2013. Útför Runólfs fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 12. júní 2013, kl. 13.30.

Þú ímyndar þér mann. Hann er hávaxinn og myndarlegur, með silfurgrátt hár, og skeggjaður. Það er samt ekki útlitið sem vekur athygli þína. Gleraugun hans eru í skyrtuvasanum ásamt blekpenna, og þú sérð blik í augum hans sem gefur til kynna að hann sé að hugsa um einhverja sem honum þykir vænt um. Hann er ekki að gera neitt sérstakt, en þú veist samt að hann hefur gert svo margt. Hann sækist ekki eftir því að þér líki við hann, en ósjálfrátt gerist það samt. Það er einhver saga á bak við hann, sem þig langar til að heyra. Þú veist ekki af hverju, en undir eins berð þú virðingu fyrir þessum ókunnuga manni, og sérð að hann er góður. Kannski brosir hann, og þú skilur að þetta er maður sem umvefur af ást, án þess að segja það upphátt. Þetta er afi minn.
Blendnar tilfinningar há einvígi innra með mér þessa dagana afi minn. Ég finn fyrir gleði og þakklæti vegna þess að þú fékkst loksins lækningu eftir erfiða baráttu við krabbamein, og enn frekar vegna þess að ég var svo lánsöm að fá að alast upp undir þinni verndarhendi og hlýju - og ég mun njóta þess ævi mína á enda.
Þegar ég er sterk þá hlýja þessar tilfinningar mér og styrkja mig. En þegar ég gleymi mér, þá verð ég aftur litla afastelpan þín og finn söknuðinn læsast um mig eins og logandi fjötra. Ég vil ekki trúa því að ég þurfi að halda áfram án þín. Hljóðlaust og hlýlega hefur þú verið stoð mín og stytta í gegnum allt sem mér hefur dottið í hug að bardúsa. Ég gerði það sem ég vildi gera, hafði trú á hæfileikum mínum og persónuleika, vegna þess að á bak við það allt saman varst þú. Með endurgoldinni virðingu þinni, hlýju, stolti og ást, vissi ég að ég var á réttri leið. Þú notaðir ekki stór og dýr orð, vegna þess að þú trúðir á mátt gjörðanna. Það er til fólk sem kann að tala í kring um sig skýjaborgir, en þú byggðir þær sjálfur, orðalaust. Besta ákvörðun þín að mínu mati var að kaupa skyndilega hús á Laugum í Reykjadal, og flytja brott af mölinni með litlu fjölskylduna þína. Tröð átti þarna sín gullaldarár. Þú og amma bjugguð til frá grunni einn fallegasta garð sem ég hef augum litið og lögðuð hug ykkar og hjarta í garðyrkjuna eins og þið hafið alltaf gert. Það voru samt ekki bara plönturnar sem fengu að vaxa og dafna í Tröð. Börnin ykkar og barnabörnin áttu þarna öruggt skjól og við eigum öll einhverjar fallegustu og dýrmætustu minningar okkar frá þessum stað. Ég var lítið örverpi sem endaði hjá ykkur eftir að mesti erillinn var liðinn hjá, og garðurinn orðinn eins og paradís. Þarna ætla ég að hitta þig aftur þegar ég kveð þennan heim.
Þú gast allt. Smíðað, teiknað, skrifað, málað, búið til skartgripi, skorið út og ég gæti skrifað heila bók um hvað ég dáist að hæfileikum þínum. Fallegu hendurnar þínar, sem þú fórst réttilega með eins og fjársjóð, voru svo sannarlega ómetanleg verkfæri sanns listamanns. Hvert einasta ráð sem þú gafst mér tók ég til mín og reyndi eftir fremsta megni að tileinka mér. Slík er trú mín á þína skoðun, að ég efaðist aldrei um að þú hefðir rétt fyrir þér. Það er bara þannig með menn eins og þig, að maður veit að þegar þú segir eitthvað, þá er það satt. Ég hef heyrt frá fólki sem þekkti þig einungis af kunningsskap, að þú værir virðulegur og góður maður. Þú barst eitthvað með þér, einhvern eiginleika, sem tjáði fólki að hér færi maður sem bæri að virða og hlusta á. Samt varst þú ekki alvarlegur, bara hæverskur og sannur. Það var heldur betur stutt í húmorinn hjá þér, örlítið stríðinn, þó aldrei á meinfýsinn hátt - og þú hafðir alltaf gaman af góðum sögum. Ég elskaði að koma heim úr vinnu eða keppnisferð og segja þér frá einhverju skemmtilegu sem kom fyrir. Þú hlóst alltaf með mér og við sáum alltaf húmorinn í sömu hlutunum. Okkur í fjölskyldunni þótti líka svo innilega vænt um að þú hélst í húmorinn og góða skapið allt til enda. Þú gerðir okkur svo auðvelt að vera aðstandendur, sagðir okkur alltaf að þetta væri alveg að batna, og kvartaðir aldrei. Svo sagðir þú að þér þætti miklu betra að þú værir veikur heldur en við, og ég veit að þú meintir það. Mér fannst þú alltaf ljóma upp þegar ég kom til þín. Ég veit þú stríddir mér stundum með því að spyrja mig hvort ég ætti heima hér, eftir langan vinnudag, beint á fótboltaæfingu og þetta venjulega bras sem er alltaf á mér, en svo hlóst þú bara og faðmaðir mig. Það er bara einn staður sem sérhver veit í hjarta sínu að er heima, og minn var hjá þér og ömmu.
Núna er svolítið tómlegt. Mér finnst bókstaflega eins og eitthvað vanti í mig sjálfa, eins og ég sé að reyna að blanda einhvern sérstakan lit - en næ honum aldrei alveg réttum vegna þess að liturinn sem vantar er ekki til. Það þýðir samt ekki að vera dramatísk, þú náðir mér alltaf niður á jörðina þegar ég var að haga mér svoleiðis, og til að heiðra þína minningu ætla ég ekki að vera of háfleyg. Mig langar bara til þess að eiga jafn viðburðarríka og góða ævi og þú hefur átt, eiga þetta yndislega hjónalíf sem þú og amma áttuð, og halda áfram að vera sú manneskja sem þú mótaðir. Engin orð geta tjáð hversu mikilvægur þú hefur verið mér, og ég er þér ævinlega þakklát. Allt sem þú hefur kennt mér og gefið eru vængir mínir út í lífið, og ég lofa því að börn mín í framtíðinni fá að njóta þess sem þú gerðir. Þannig lifir þú áfram í okkur sem elska þig. Næst því að lýsa mínum tilfinningum í þinn garð eru þessi orð Einars Ben sem ég skrautskrifaði og rammaði inn handa þér og ömmu þarsíðustu jól: Mín léttustu spor eru grafin í þína sanda . Góða nótt afi minn.

Til afa míns

Rólyndur reikar afi minn,
um ríka sögu listar.
Í faðmi hans ég flýg um sinn,
um fagra veröld skriftar.

Hann sýnir mér og segir frá,
snillingum heilum og hálfum.
Ég lít samt svo á, mína listamannsþrá,
lærði ég af honum sjálfum.

Fyrirmynd og frelsun mín,
verndari, faðir og vinur.
Ég veit ekki hvar ég væri án þín,
þú sál mína og hugarheim skilur.

Skrifað til afa á áttræðis afmæli hans, 6. febrúar 2013.

Rakel Hinriksdóttir.