Rósa Björnsdóttir fæddist á Akureyri 11. október 1938. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga 3. júlí 2013. Foreldrar hennar voru Snjólaug Hjörleifsdóttir, f. 1911 á Knappsstöðum í Stíflu, d. 2001 og Björn Júlíusson pípulagningameistari frá Syðra-Garðshorni í Svarfaðardal, f. 1903, d. 1985. Systkini Rósu voru Jóhanna María, f. 1934, Hjörleifur Baldvin, f. 1937, d. 2009, Sigrún, f. 1940, Júlíus Jón, f. 1942, Jófríður, f. 1944, Daníel Björn, f. 1946, Árni, f. 1951 og Ólafur Örn, f. 1953. Hinn 5. desember 1959 giftist Rósa eftirlifandi eiginmanni sínum Ármanni Sigurjónssyni frá Húsavík. Foreldrar hans voru Þórhalla Bjarnadóttir frá Húsavík, f. 1905, d. 1969 og Sigurjón Ármannsson frá Hraunkoti í Aðaldal, f. 1896, d. 1958. Fyrstu hjúskaparárin bjuggu Rósa og Ármann í Reykjavík þar sem þau kynntust en fluttu til Húsavíkur 1961 og hafa búið þar allar götur síðan. Börn þeirra eru 1) Snjólaug, hjúkrunarfræðingur, f. 10. september 1959, gift Ómari Friðrikssyni, blaðamanni, f. 1957 börn þeirra eru Vala, f. 1980, sambýlismaður Auðunn Lár Sverrisson, dóttir þeirra er Karítas, f. 2012, Rósa, f. 1988, sambýlismaður Hákon Pálsson, Bjarki, f. 1995. 2) Dóra, skólameistari, f. 3. maí 1964, gift Gunnlaugi Stefánssyni, framkvæmdastjóra, f. 1963, synir þeirra eru Andri Birgisson f. 1982, Stefán B. Gunnlaugsson, f. 1985, hans sonur er Tristan Breiðfjörð, f. 2009, Ármann Örn, f. 1991, og Patrekur, f. 1995. 3) Sigurjón iðnverkamaður, f. 3. janúar 1966, kvæntur Agnieszku Ewu M. Ármannsson leiðbeinanda á leikskóla, f. 26. október 1971. Rósa gekk í skóla á Akureyri og lauk þar unglingaprófi 1953. Hún var í sveit í Svarfaðardal hjá föðurbróður sínum og einnig sem ung stúlka var hún kaupakona í Skagafirði og Húnavatnssýslu. Hún vann um tíma á Hótel KEA, en fór síðan suður til Reykjavíkur og vann á dagheimilum fyrst á Grænuborg og síðar á Tjarnarborg. Á Húsavík vann Rósa á saumastofunni Fífu, í kaupfélaginu og í sundlauginni áður en hún hóf störf á leikskólanum. Á Bestabæ var Rósa farsæl í starfi og vann þar uns hún hætti störfum vegna veikinda. Rósa var í Kvenfélagi Húsavíkur í áratugi, í Soroptimistaklúbbnum og um tíma var hún í félagsmálanefnd bæjarins og í sóknarnefnd. Hún var í áraraðir í bridgeklúbbi með vinkonum sínum og starfaði um tíma með AFS samtökunum. Miklum tíma varði Rósa í starf með AA og samtökum SÁÁ. Útför Rósu fer fram frá Húsavíkurkirkju í dag, 10. júlí 2013, og hefst athöfnin kl. 14.

Í dag kveð ég móður mína, Rósu Björnsdóttur, með miklum söknuði í hjarta en einnig með miklu þakklæti. Ég er þakklát fyrir allt sem hún kenndi mér og fyrir alla þá ást og umhyggju sem hún sýndi mér og mínum. Að eiga góða móður er gott. Að eiga yndislega móður er ómetanlegt. Ég var svo heppin að eiga yndislega móður. En þó söknuðurinn sé mikill trúi ég því og hugga mig við það að mömmu líði vel þar sem hún er nú, laus við veikindi og vanlíðan.

Mamma var félagslynd og hafði yndi af samskiptum við annað fólk. Vinir og frændfólk var ávallt velkomið og vel var tekið á móti öllum þeim er til hennar leituðu. Ég man þá tíð að mamma byrjaði öll sín sumarfrí á því að baka, steikja fiskibollur og hrefnukjöt í raspi. Hún vildi eiga nóg í kistunni ef gesti bæri að garði. Stundum fannst okkur hinum í fjölskyldunni nóg um. Frekar var dregið að en vísað frá eins og einn bróðir mömmu orðaði svo skemmtilega. Þegar ég var ung stúlka og við bjuggum í blokkinni voru tveir ungir puttalingar á ferðalagi hér á Húsavík. Mamma sá þá standa rennandi blauta úti í rigningunni og kuldanum á Garðarsbrautinni. Þá þótti alveg sjálfsagt mál að bjóða þeim inn í hlýjuna þó ekki væri nema inn í stigaganginn og bera í þá heitt kakó.

Á ferðalögum sínum og sunnudagsbíltúrum tóku mamma og pabbi gjarnan upp í bílinn þreytta ferðalanga. Fyrir nokkrum árum urðu á vegi þeirra tveir Þjóðverjar í Mývatnssveit. Þá voru þau á leið í kartöflugarðinn og Þjóðverjunum var bara boðið með og fengu þeir nýjar kartöflur til að taka með sér á tjaldstæðið. Þetta þótti þeim mikið ævintýri en mömmu sjálfsagt mál. En þó mamma hefði verið sérlega gjafmild, tekið vel á móti gestum og kappkostað að eiga eitthvað í kistunni þá var hún nú ekki ánægð með okkur bróður minn einn daginn. Þá höfðum við boðið ansi mörgum krökkum af Torginu inn í nýbakaða skúffuköku og kleinur og allt bakkelsi búið þegar hún kom heim úr vinnunni. Við höfðum nefnilega ekki fengið leyfi og yfirgang og frekju þoldi mamma illa.

Hún var réttsýn og trú sínu, kenndi okkur að ef við gerðum eitthvað á hlut annarra eða gerðum eitthvað rangt yrðum við að taka afleiðingum gjörða okkar og gangast við þeim. Mamma var líka svo æðrulaus í öllu og ekki síst síðustu árin í veikindum sínum. Ég var unglingur þegar mamma gaf mér á litlu spjaldi uppáhalds bænina sína sem síðar varð uppáhalds bænin mín. Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til þess að greina þar á milli og oft ræddum við það hvað þessi bæn er sönn. Mamma varði drjúgum tíma í AA og í starf með samtökum SÁÁ. Það gaf henni mikið og þeim tíma var vel varið.

Mamma var ljúf og góð manneskja, hún talaði aldrei illa um, eða niður til nokkurs manns. Hún bar hag alls fólks fyrir brjósti. Henni fannst svo mikilvægt að við manneskjurnar værum góðar hverjar við aðra og réttum hjálparhönd enda mátti hún ekkert aumt sjá og þoldi illa allt óréttlæti. Hún brýndi fyrir okkur afkomendum sínum að vera góðar manneskjur og hafði í heiðri orð Sókratesar góðum manni getur ekkert grandað hvorki lífs né liðnum.  Hún vildi að fólk gerði gott úr því sem það hafði og ég man alltaf eftir því þegar hún sagði við mig þegar ég var lítil stelpa að það væri ljótt að öfunda ég ætti að samgleðjast og það er mikil viska fólgin í því.

Aldrei gleymi ég því þegar ég kornung og miður mín sagði mömmu að ég væri ófrísk. Þá tók hún utan um mig og sagði; ja, Dóra mín ef ekkert verra á eftir að koma fyrir þig í lífinu. Ég hugsaði lítið um þessi orð þá, en seinna meir skildi ég merkingu þeirra og hef allar götur síðan fundist mamma svo mikil manneskja. Mamma hjálpaði mér mikið með frumburðinn minn en tók aldrei af mér ráðin og lét mig finna að ábyrgðin væri mín. Við bjuggum hjá foreldrum mínum, og Síó bróður, í tvö ár eftir að Andri fæddist og það voru yndisleg ár. Mamma hjálpaði okkur Gulla mikið með alla synina en þó mest með frumburðinn og hjá henni og pabba hefur Andri minn átt sitt annað heimili. Fyrir það er ég ævinlega þakklát og veit að þar fékk hann sitt besta veganesti.

Samband foreldra minna var fallegt. Þau sýndu hvort öðru blíðu og virðingu og ég er þakklát fyrir að hafa alist upp í slíku umhverfi. Það á vel við um mömmu þegar sagt er að mamma er konan sem heldur í höndina á þér fyrstu árin en hjartað alla ævi. Mamma var einstök og því finnst mér hæfa vel að hafa með þetta fallega ljóð eftir Teri FernandeEinstakur er orð sem notað er þegar lýsa á því sem engu öðru er líkt, faðmlagi eða sólarlagi eða manni sem veitir ástúð með brosi eða vinsemd.

Einstakur lýsir fólki sem stjórnast af rödd síns hjarta og hefur í huga hjörtu annarra.
Einstakur á við þá sem eru dáðir og dýrmætir og hverra skarð verður aldrei fyllt.
Einstakur er orð sem best lýsir þér.

Mig langar að þakka af alhug starfsfólki Heilbrigðistofnunar Þingeyinga. Kærar þakkir fyrir mömmu og kærar þakkir fyrir umhyggju og tillitssemi við okkur aðstandendur.

Minningin um mömmu mína elskulegu mun lifa í hjarta mínu um ókomna tíð.

Dóra Ármannsdóttir.

Já, sæll vinur, sagði hún þegar hún varð þess vör að ég vitjaði hennar á sjúkrabeðið. Þetta urðu hennar síðustu orð til mín. Röddin mild sem áður, þó þrotin væri að kröftum. Viðmótið hlýtt, rétt eins og fyrir bráðum fjórum áratugum er ég kynntist þeim öðlingshjónum, Rósu og Ármanni, þegar leiðir okkar Lólu dóttur þeirra lágu saman.

Rósa Björnsdóttir, tengdamóðir mín, lést eftir erfið veikindi 3. júlí á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga í faðmi fjölskyldu sinnar. Við fráfall hennar er stórt skarð höggvið í raðir samheldinnar fjölskyldu og margt leitar á hugann.

Rósa ólst upp í stórum systkinahópi á Akureyri, í húsi sem foreldrar hennar, Björn Júlíusson og Snjólaug Hjörleifsdóttir, reistu við Helgamagrastræti 3. Hún var sú þriðja í röð níu systkina. Hlýja, glaðlyndi og jákvæðni eru eðliskostir í fari þeirra og æskuheimilinu var svo lýst í eftirmælum um Björn föður Rósu að þar var bæði húsrými og hjartarými. Slík lýsing getur allt eins átt við um heimili Rósu og Ármanns á Húsavík í meira en hálfa öld. Þau var alltaf gott heim að sækja, ávallt tilhlökkunarefni að fara norður, þar sem mætti okkur glaðværð og hlýr heimilisandi. Fjölda gesta bar þar að garði, margir löðuðust að og öllum sem komu var tekið opnum örmum.

Rósa kynntist eftirlifandi eiginmanni sínum Ármanni Sigurjónssyni í Reykjavík þar sem þau bjuggu fyrstu hjúskaparárin eða þangað til þau fluttu til Húsavíkur. Það einkenndi alla tíð hjónaband tengdaforeldra minna hvað þau voru samhent og samstíga og ástríkt samband á milli þeirra, sem hefur haft djúp áhrif á aðra.

Rósa vann við ýmis störf, þó lengst af og um langt árabil með börnum á leikskólum. Hún tók virkan þátt í félagsstörfum á Húsavík og verkefnin voru oft vandasöm. Var hún meðal annars um skeið í félagsmálanefnd Húsavíkurbæjar og flesta daga önnum kafin í viðfangsefnum af ólíkasta tagi á meðan heilsa og starfþrek leyfðu. Mörgum er hún minnisstæð fyrir framlag sitt en færri vita að til hennar leituðu einnig margir sem áttu við ýmiskonar erfiðleika að stríða og fengu ráð og stuðning Rósu, sem var að upplagi bæði ráðagóð og hjálpsöm.

Á hugann leita minningar um margar góðar stundir sem við Lóla áttum með foreldrum hennar, ekki síst ef leiðin lá um slóðir ættmenna í Svarfaðardal, sem hún sýndi góða ræktarsemi. Rósa hafði yndi af tónlist, sérstaklega voru vel flutt sönglög henni hjartfólgin. Hún hafði mikinn áhuga á þjóðmálum og fylgdist vel með. Spurði hún mig ævinlega nýjustu fregna af vettvangi  fréttamennskunnar þegar við hittumst en oftar en ekki hafði ég litlu að bæta við það sem hún þegar vissi, því hún var vel að sér um málefni líðandi stundar. Skoðanir hennar voru skýrar og  reistar á réttlætiskennd og umhyggju en aldrei heyrði ég hana halla á nokkurn mann.

Börnin og síðar barnabörnin voru í miðdepli tilverunnar. Tengdamóðir mín lét sér alla tíð mjög annt um afkomendurna og fylgdist með þeim af áhuga og alúð. Og vinahópurinn var stór. Rósa lagði sig fram um að rækta tengslin við ættingja og vini frá fornu og nýju. Dagskráin var oft þéttskipuð þegar tengdaforeldrarnir komu í heimsóknir til Reykjavíkur, því þá stóð líka til að heilsa upp á vini og kunningja.

Þó sjúkdómsgangan yrði ströng síðustu árin tók Rósa því sem að höndum bar af æðruleysi. Við hlið hennar stóð Ármann eins og klettur og studdi hana og aðstoðaði í gegnum veikindin.  Sárastur harmur er að honum kveðinn og afkomendunum en ljúfar minningar lýsa upp og lífsgildi Rósu fylgja ástvinum hennar um ókomna tíð.

Hvar sem eg fer

og flýg um lönd,

eg finn þína vörmu,

sterku hönd;

og allar leiðir

að einni falla

sem elfur í hafið,

- eg týnist varla.

(Hulda)

Það var bjart yfir í návist Rósu. Hún bar með sér reisn, þokka og glæsileika. Var spaugsöm og glettin. Augun falleg og blíð. Nú þegar komið er að leiðarlokum er mér efst í huga þakklæti fyrir ómetanleg kynni af vandaðri og hógværri konu.

Ómar Friðriksson.