Margt kemur fróðlegt fram í Alþingismannatali allt frá 1875, sem til er á netinu, þótt ekki sé þar allt nákvæmt. Til dæmis segir um Svavar Gestsson, að hann hafi stundað nám í Berlín 1967-1968.

Margt kemur fróðlegt fram í Alþingismannatali allt frá 1875, sem til er á netinu, þótt ekki sé þar allt nákvæmt. Til dæmis segir um Svavar Gestsson, að hann hafi stundað nám í Berlín 1967-1968. En Svavar stundaði nám í Institut für Gesellschaftswissenschaften beim Zentralkomite der Sozialistische Einheitspartei Deutschlands í Austur-Berlín, Félagsvísindastofnun miðstjórnar Sameiningarflokks sósíalista (kommúnistaflokksins) í Austur-Berlín. Munurinn er eins mikill á Berlín og Austur-Berlín og á Hrauni og Litla-Hrauni. En sennilega er til of mikils ætlast, að Svavar upplýsi þetta af sjálfsdáðum. „Á ég að halda ljósi að minni smán?“ spyr Jessíka í Kaupmanni í Feneyjum .

Í grúski mínu vegna tilvitnanasafns míns, ævisagna ýmissa merkismanna og bókar um íslenska kommúnista rakst ég á fleiri gloppur í Alþingismannatali . Til dæmis eru nefnd tíu börn Hannesar Hafsteins og konu hans, Ragnheiðar Stefánsdóttur, eins og vera ber. Ekki er hins vegar getið Péturs Thorsteinssonar, sem Hannes átti með Katrínu Thorsteinsson. Er það faðerni þó nú almennt viðurkennt, eins og sást meðal annars á dálknum Merkum Íslendingum í Morgunblaðinu 7. nóvember 2012.

Einnig eru talin upp börn Hannibals Valdimarssonar og konu hans, Sólveigar Ólafsdóttur, og einnig sonur Hannibals og Hólmfríðar Ingjaldsdóttur, Ingjaldur. En ekki er minnst á Ísleif Weinem, sem Hannibal átti 1934 með þýskri konu, Gustel Weinem. Hann ólst upp á Íslandi til fimm ára aldurs, en fór þá með móður sinni til Þýskalands. Tilvera Ísleifs var bersýnilega ekkert launungarmál, því að hans var getið í fjörlegu viðtali við eina systur Hannibals í Morgunblaðinu 26. júlí 1998.

Þriðja dæmið er auðvitað alþekkt. Eins og kom fram í Morgunblaðinu 29. ágúst 2007, skar DNA-rannsókn úr um það, að Hermann Jónasson væri faðir Lúðvíks Gizurarsonar. Í Alþingismannatali eru nefnd þrjú börn Hermanns og Vigdísar Steingrímsdóttur, en hvergi minnst á Lúðvík.

Ég skrifaði Alþingismannatalinu eitt sinn og benti á flest þessi atriði hér. Ég fékk kurteislegt svar um hæl, og sagði þar, að sú regla gilti, að æviágripum látinna alþingismanna væri ekki breytt nema með samþykki fjölskyldna þeirra. Ég lét kyrrt liggja, en hugsaði með sjálfum mér: Hvorrar fjölskyldunnar? Voru Pétur Thorsteinsson, Ísleifur Weinem og Lúðvík Gizurarson ekki eins skyldir feðrum sínum og önnur börn þeirra? Eins og bandaríski félagsmálafrömuðurinn Edna Gladney sagði eitt sinn: Það eru ekki til nein börn utan hjónabands, aðeins foreldrar utan hjónabands.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is