Esjan snjólaus Frá aldamótum hefur skaflinn í Gunnlaugsskarði horfið nærri því öll sumur. Líklegt má telja að svipað verði uppi á teningnum í ár.
Esjan snjólaus Frá aldamótum hefur skaflinn í Gunnlaugsskarði horfið nærri því öll sumur. Líklegt má telja að svipað verði uppi á teningnum í ár. — Morgunblaðið/Kristinn
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Skaflinn í Gunnlaugsskarði, vestan í Kistufelli í Esjunni, mun að öllum líkindum hverfa í haust, að mati Páls Bergþórssonar, fyrrverandi veðurstofustjóra.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Skaflinn í Gunnlaugsskarði, vestan í Kistufelli í Esjunni, mun að öllum líkindum hverfa í haust, að mati Páls Bergþórssonar, fyrrverandi veðurstofustjóra. „Maður er í miklum vafa á þessum tíma, því það ræðst ekki fyrr en sumarið er liðið og komið fram í september, en mér sýnist að hann muni hverfa núna,“ segir Páll. „Hann hefur minnkað mikið undanfarið og er að minnka enn í hlýja veðrinu,“ segir Páll sem þykir því líklegra að skaflinn muni hverfa í haust. Hann bætir við að júlí í ár hafi verið svipaður og gerðist á árunum 1931-1960 sem var mesta hlýindatímabil sem þá hafði þekkst. Þá hafi veturinn verið mildur og skaflinn því minni til þess að byrja með.

Þess má geta að hverfi skaflinn nú verður það annað árið í röð sem það gerist, og í tólfta sinn á síðustu 13 árum. Fyrir þann tíma hafði skaflinn síðast horfið 1998, þá í fyrsta sinn frá árinu 1964.