Jonathan Borlée
Jonathan Borlée
Einstæður atburður verður á Demantamótinu í frjálsum íþróttum í Brussel í Belgíu þann 6. september. Þá mætast þrír bræður í 400 metra hlaupi en það hefur aldrei gerst í sögu stóru mótaraðanna í frjálsum.

Einstæður atburður verður á Demantamótinu í frjálsum íþróttum í Brussel í Belgíu þann 6. september. Þá mætast þrír bræður í 400 metra hlaupi en það hefur aldrei gerst í sögu stóru mótaraðanna í frjálsum.

Bræðurnir sem um ræðir eru þeir Kévin, Jonathan og Dylan. Kévin og Jonathan eru 25 ára gamlir tvíburar og Dylan aðeins yngri eða 21 árs. Þeir eru allir vanir því að keppa í 400 metra hlaupi og verða í 4x400 metra boðhlaupssveit Belgíu á heimsmeistaramótinu sem hefst í Moskvu 10. ágúst.

Tvíburarnir komust báðir í úrslit á Ólympíuleikunum í London í fyrra. Jonathan varð í 3. sæti á Demantamótinu í London fyrir viku og kom þá í mark á 45,14 sekúndum. Kévin vann belgíska meistaramótið á 44,73 sekúndum sem er besti árangur Evrópubúa á árinu. Í sama hlaupi náði Dylan sínum besta árangri frá upphafi en hann kom í mark á 45,80 sekúndum. Jonathan hefur hlaupið hraðast bræðranna á ferlinum en hann hefur best hlaupið á 44,43 sekúndum. sindris@mbl.is