[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Marteinsson fæddist á Hálsi í Kaldakinn 30. ágúst 1924. Hann lést 30. ágúst 2013.

Hrólfur Marteinsson fæddist á Hálsi í Kaldakinn 5. nóvember 1933. Hann lést 9. september 2013.

Foreldrar þeirra voru Marteinn Sigurðsson, f. 22. júlí 1891, d. 28. desember 1986 og kona hans Aðalbjörg Jakobsdóttir, f. 2. júní 1895, d. 25. maí 1953, bændur á Hálsi. Bræður þeirra eru: Sigurður, f. 21. febrúar 1926, Jakob, f. 9. febrúar 1928, d. 25. júlí 2013 og Gunnar, f. 3. júní 1929.

Þeir bræður ólust upp við hefðbundin bústörf og gengu í farskóla sveitarinnar.

Helgi gekk í Héraðsskólann á Laugum og vann við skógrækt í Vaglaskógi þess á milli. Hann var í byggingarvinnu í Reykjavík og Akranesi í nokkur ár og vann sem gervismiður. Þá vann hann við fiskverkun tvær vertíðar í Vestmannaeyjum. Hann kom aftur heim og var bóndi á Hálsi upp frá því. Hann vann einnig í sláturhúsinu á Húsavík árum saman í sláturtíð.

Hrólfur fór í smíðaskóla í Hólmi og vann við tilfallandi smíðar um tíma eftir það. Var í lausamennsku í sveitum á Suðurlandi. Þá vann hann við búskap í Grímsnesi skamma hríð. Hann var í millilandasiglingum á Rangánni í nokkur ár. Hann sneri einnig aftur heim og var bóndi á Hálsi upp frá því.

Helgi og Hrólfur stóðu að búskap á Hálsi ásamt Gunnari bróður sínum frá 1953 til 2006 þegar kynslóðaskipti urðu á búinu. Eftir það gengu þeir til verka eins og heilsa leyfði og voru til ráðgjafar. Þeir tóku þátt í félagslífi sveitarinnar, sungu m.a. í kór Þóroddsstaðakirkju áratugum saman. Helgi var sóknarnefndarformaður þar í tvö ár. Hrólfur var fjallskilastjóri árum saman. Þeir bjuggu með stórfjölskyldunni til 1984 þegar þeir keyptu 4 Kröfluskúra og settu saman í hús. Faðir þeirra bjó með þeim þar til hann lést.

Þeir voru báðir ókvæntir og barnlausir.

Útför Helga og Hrólfs fer fram frá Þóroddsstaðakirkju í dag, 14. september 2013, og hefst athöfnin kl. 14.

Helgi var ekki fyrirferðarmikill maður. Hann hélt sig til hlés en Hrólfur var sjarmörinn. Fyrstu kynni voru því aðallega í gegnum Hrólf enda var hann mannblendnari og kunni þá list að spjalla um daginn og veginn.

Þegar lengra lét komumst við Helgi að því að við áttum sameiginlegan bókaáhugann og eftir það sótti ég reglulega í bókasafnið hans og við ræddum bækur og höfunda. Helgi var launfyndinn og hafði gaman af hlutunum. Iðulega með kímnisglampa í augunum.

Þeir bræður voru nýtnir og stundum úr hófi fram. Eitt sinn fórum við í verslun og við Hrólfur sem var nýkominn af sjúkrahúsi vegna meltingarvandamála erum að ræða um ávaxtaúrval verslunarinnar. Hann segist hafa keypt ávexti þarna nýverið en þeir hafi skemmst fljótlega eftir heimkomu. Ég segi eitthvað á þá leið að það sé lítill sparnaður að kaupa ávexti í svona lágvöruverslun og þurfa svo að henda helmingnum af þeim. Hrólfur svarar: „Nei, ég henti þeim ekki. Ég borðaði þá.“ Nánast hneykslaður að mér dytti önnur eins vitleysa í hug.

Heimili þeirra var alltaf tandurhreint og snyrtilegt. Sjálfir voru þeir bræður alltaf snyrtilegir til fara og reffilegir. Helgi beinn í baki fram á síðustu stund en Hrólfur orðinn nokkuð beygður af áralöngum heilsubresti. Hrólfur fór samt út að ganga nánast daglega og gekk jafnvel niður og upp heimkeyrsluna sem er ekki mikið sléttlendi. Þegar hann fór að dvelja meira á Húsavík fór hann og sportaði sig reglulega í bænum. Helgi sá hins vegar ekki tilgang með óvinnutengdum hreyfingum.

Þeir áttu alltaf bestu múffurnar. Gunnar litli fór ekki í heimsókn öðruvísi en að biðja um múffu og stundum gerði hann sér sérstaka ferð til að fá múffu hjá Helga og Hrólfi. Almennt borðar hann þær ekki og alls ekki heima hjá sér.

Þeir bræður misstu aldrei áhugann á umhverfi sínu. Höfðu gaman af tíðindum og fylgdust vel með bústörfunum þótt þeir tækju ekki þátt í þeim lengur. Hrólfur heilsaði reglulega upp á kindurnar og vissi allt um þeirra hagi.

Helgi fór á spítala í júlí og hafði þá verið slappur lengi án þess að nefna það við nokkurn mann. Hann virtist ekki gera ráð fyrir að koma aftur heim og gerði það því miður ekki. Hrólfur hefur barist við heilsuleysi lengi og þegar þeir Jakob og Helgi fóru nú í sumar fannst honum ekki taka því að standa í þessu lengur. Hann fylgdi Helga til Sumarlandsins tíu dögum seinna. Þeir verða því jarðaðir saman, bræðurnir.

Ég þakka ykkur góð kynni, bræður. Þau hefðu vel mátt vera lengri.

Ásta.