[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigrún Klara fæddist á Seyðisfirði 9.10. 1943 og ólst þar upp. Hún lauk landsprófi á Eiðum, stúdentsprófi frá MA 1963, BA-prófi í ensku frá HÍ 1967, MSLS-prófi í bókasafnsfræði frá Wayne State University í Detroit í Michigan í Bandaríkjunum 1968 og...

Sigrún Klara fæddist á Seyðisfirði 9.10. 1943 og ólst þar upp. Hún lauk landsprófi á Eiðum, stúdentsprófi frá MA 1963, BA-prófi í ensku frá HÍ 1967, MSLS-prófi í bókasafnsfræði frá Wayne State University í Detroit í Michigan í Bandaríkjunum 1968 og Ph.D.-prófi frá University of Chicago 1987.

Sigrún vann fyrir sér við síldarsöltun og fiskvinnslu á Seyðisfirði með námi. Hún var upplýsingabókavörður, Kresge Library í Rochester í Michigan 1968-69, ráðgjafi fyrir Bank of Inter-American Development í Perú í Suður Ameríku 1969-71, skólasafnafulltrúi Reykjavíkurborgar 1971-75, lektor, dósent og prófessor við Háskóla Íslands 1975-98, framkvæmdastjóri NORDINFO í Helsinki 1998-2002 og landsbókavörður 2002-2007.

Sigrún er löggiltur skjalaþýðandi í og úr ensku. Hún hefur skrifað og gefið út um 400 greinar, fyrirlestra og ritdóma.

Hefur komið til 100 landa

Sigrún hefur setið í námsnefnd og skorarnefnd um bókasafns- og upplýsingafræði við félagsvísindadeild HÍ, setið í ýmsum nefndum fyrir HÍ, s.s. þróunarnefnd, tækjakaupanefnd og skjalanefnd. Sat í stjórn Félags prófessora, var formaður Bókavarðafélags Íslands og formaður Upplýsingar – félags bókasafns- og upplýsingafræða og hvatamaður að stofnun Félags bókasafnsfræðinga og Skólavörðunnar. Var fyrsti formaður IBBY, sat í stjórn Íslensku barnabókaverðlaunanna og í valnefnd barnabókaverðlauna Fræðsluráðs. Var stofnfélagi Delta Kappa Gamma 1975, formaður Alfa-deildar, svæðisstjóri DKG í Evrópu og varaformaður í alþjóðastjórninni. Sigrún er soroptimisti frá 1984. Var formaður þýðingasjóðs, sat í nefnd um reglugerð fyrir almenningsbókasöfn, var formaður nefndar um stefnumörkun í bókasafns- og upplýsingamálum, sat í nefnd menntamálaráðuneytis um stefnu um upplýsingasamfélagið. Sat í stjórn og var forseti Alþjóða skólasafnasamtakanna (IASL), sat í tveimur fastanefndum Alþjóðlegu bókasafnasamtakanna (IFLA) um skólasöfn og um rannsóknir og kenningar. Hún var stofnfélagi samtakanna Vinir Perú sem styrkir fátæk börn í Perú, er félagi í Íslenska vitafélaginu – félagi um íslenska strandmenningu og er guðmóðir Barnabókaseturs við Háskólann á Akureyri.

Sigrún er heiðursfélagi Upplýsingar: félags bókasafns- og upplýsingafræða; hlaut Distinguished Alumna Award frá Wayne State University; European Achievement Award frá Delta Kappa Gamma, og International Achievement Award frá sömu samtökum og var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 2003.

Sigrún hefur alltaf haft mikinn áhuga á ferðalögum. Hún hefur komið í allar heimsálfurnar og heimsótt 100 lönd.

Fjölskylda

Eiginmaður Sigrúnar var Indriði Hallgrímsson, f. 21.10. 1944, d. 27.1. 1979, bókasafnsfræðingur. Hann var sonur Hallgríms Indriðasonar, f. 17.6. 1919, d. 14.2. 1998, smiðs í Kristnesi, og k.h., Lilju Jónsdóttur, f. 18.6. 1921, talsímakonu.

Fyrri maður Sigrúnar var Eduardo Segura Pino, f. 16.2. 1937, eðlisfræðingur og prófessor í Perú, Þýskalandi og Brasilíu. Þau skildu.

Sambýlismaður Sigrúnar var Daníel Benediktsson, f. 13.7. 1945, bókasafnsfræðingur frá Ungverjalandi. Þau skildu

Sonur Sigrúnar er Hallgrímur Indriðason, f. 24.5. 1974, fréttamaður við RÚV, búsettur í Hafnarfirði en kona hans er Rósa Lyng Svavarsdóttir, kennari við Áslandsskóla, og eru dætur þeirra Líf Hallgrímsdóttir, f. 15.10. 1998, og Sif Hallgrímsdóttir, f. 27.1. 2006.

Systkini Sigrúnar eru Sigurjón Hannesson, f. 13.2. 1935, skipherra, búsettur í Mosfellsbæ en kona hans er Björg Jónsdóttir sjúkraliði og eru börn þeirra Jóhann viðskiptafræðingur og Ólafur Gísli verslunarmaður; Elín Hrefna Hannesdóttir, f. 29.6. 1936, húsfreyja og aðstoðar við starf aldraðra í Bústaðakirkju en maður hennar Árni Sigurbergsson flugmaður og eru börn þeirra Hannes verkfræðingur, Þóra jarðeðlisfræðingur, Sigríður Klara, matvælafræðingur og verkefna- og viðburðastjóri í Kjós, og Berglind Heiða flugmaður; Sveinn Hannesson, f. 9.4. 1950, viðskiptafræðingur og framkvæmdastjóri í Reykjavík en kona hans er Áslaug Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur og eru börn þeirra Gunnhildur lögfræðingur, Elín Júlíana náms- og starfsráðgjafi, Kolbrún lyfjafræðingur og Margrét nemi í HR.

Foreldrar Sigrúnar Klöru voru Hannes Jónsson, f. 11.5. 1905, d. 12.6. 1986, verkamaður á Seyðisfirði og í Reykjavík, og Sigríður Jóhannesdóttir, f. 27.8. 1907, f. 7.12. 2002, húsfreyja.