19. nóvember 2013 | Minningargreinar | 1264 orð | 1 mynd

Þórdís Jóhanna Árnadóttir

Þórdís Jóhanna Árnadóttir fæddist í Reykjavík 19. september 1933. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ 6. nóvember 2013.

Foreldrar Þórdísar voru hjónin Árni Benediktsson forstjóri, f. 10.3. 1897, d. 13.3. 1967, og Jóna Kristjana Jóhannesdóttir húsfreyja, f. 21.7. 1911, d. 10.6. 1956. Bróðir Þórdísar er Benedikt Örn Árnason leikstjóri, f. 23.12. 1931.

Fyrri eiginmaður Þórdísar var John N. Lareau, f. 24.12. 1918, d. 6.1. 2012. Þau voru búsett í Bandaríkjunum á árunum 1956-1962. Synir þeirra eru Árni Benedikt, f. 16.5. 1955, Jean Noel, f. 28.5. 1956, og Jóhannes Baldvin, f. 21.11.1957. Árni Benedikt og kona hans, Brynja Guðmundsdóttir, eiga synina Brynjar Örn, Guðmund Braga og Árna Benedikt. Jean Noel og kona hans, Anna Guðrún Halldórsdóttir, d. 13.6. 2002, eiga dótturina Þórdísi Jóhönnu.

Seinni maður Þórdísar var Einar Elíasson forstjóri, f. 13.11. 1921, d. 7.8. 2006. Þórdís og Einar gengu í hjónaband árið 1964. Þau eignuðust dótturina Jónu Kristjönu, f. 26.7. 1966. Jóna Kristjana og maður hennar, Eyjólfur Einarsson, eiga tvíburana Snædísi Ester og Jón Elías.

Þórdís ólst upp í Vesturbænum í Reykjavík, fyrst á Ránargötu, þá á Víðimel 29 og síðan á Reynimel 23. Eftir nám við Gagnfræðaskóla Vesturbæjar stundaði hún nám við Verslunarskóla Íslands og lauk þaðan verslunarprófi 1952. Í Bandaríkjunum starfaði hún við offsetprentun, kennslu og sundþjálfun. Eftir heimflutninginn til Íslands starfaði Þórdís með Einari manni sínum við rekstur snyrtistofunnar Valhallar og snyrtivöruverslunarinnar Gyðjunnar við Laugaveg og einnig hjá öðrum fyrirtækjum sem Einar rak, m.a. hjá Gliti hf. og einnig í fjölda ára við verslanir Jes Zimsen í Hafnarstræti og Ármúla. Eftir andlát Einars 2006 og fjörutíu ára búsetu þeirra hjóna á Stekkjarflöt 22 í Garðabæ flutti Dísa í fallega íbúð á Strikinu 12 í Garðabænum. Eftir að heilsu hennar fór að hraka mjög fyrir rúmum tveimur árum dvaldi hún á hjúkrunarheimilinu á Vífilsstöðum og þá flutti hún á Ísafold í Garðabæ.

Útför Þórdísar verður gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 19. nóvember 2013, kl. 15.

Ég kynntist Þórdísi tengdamóður minni árið 1979 þegar við Árni, elsti sonur hennar, kynntumst. Þórdís var glæsileg kona, glaðvær, rösk og óvenjunæm. Hún tók mér einstaklega vel og hún var alltaf boðin og búin að aðstoða okkur Árna við allt sem við tókum okkur fyrir hendur. Það lýsir Dísu að þegar hún sá að mikið var að gera hjá okkur þá bauð hún okkur að koma á Stekkjarflötina í mat á virkum dögum og urðum við fastagestir í kvöldmat þar í talsverðan tíma.

Dísa tók alla tíð mikinn þátt í lífi okkar, fylgdist mikið með strákunum okkar og hjálpaði okkur með þá þegar þeir voru litlir. Hún kenndi þeim á skíði og voru ófáar ferðir farnar í Bláfjöll, Skálafell og þá var farin ógleymanleg ferð í Kerlingarfjöll. Hún kom oft og náði í þá og fór með þá á kaffihús, sem þeim fannst mjög skemmtilegt. Dísa tók einnig að sér að passa Árna, yngsta son okkar, í nokkra mánuði þegar mér bauðst vinna áður en hann náði leikskólaaldri. Þá bauðst hún til að koma alla morgna og vera heima hjá honum frá áramótum til vors. Þetta var góður tími hjá þeim.

Eftir að strákarnir urðu eldri lögðu þeir stund á handbolta og fótbolta. Undanfarin ár hefur Dísa alltaf hringt og spurt hvort ekki væri leikur á næstunni og við máttum ekki gleyma að láta hana vita. Hún mátti ekki missa af einum einasta leik. Undir það síðasta vildi hún endilega koma með og við náðum í hana þótt hún væri orðin mjög léleg, hún hafði alla tíð gaman af að fylgjast með íþróttaiðkun þeirra.

Dísa sá glæsileika í íþróttum og henni þótti fagmennska mikilvægari en hagstæð úrslit. Hún hafði unun af að fylgjast með fjölmörgum íþróttagreinum. Dísa var afreksmanneskja í íþróttum og vann til ótal verðlauna í sundkeppnum á yngri árum. M.a. keppti hún í sundi á Ólympíuleikunum í London árið 1948, aðeins 14 ára gömul, en Þórdís Jóhanna er yngsti keppandi sem keppt hefur fyrir hönd íslensku þjóðarinnar á Ólympíuleikum frá upphafi.

Í Þjóðviljanum frá 11. mars 1952 mátti lesa þar sem fjallað var um sundmót KR:

„Sundbikar KR sem keppt er um í 200 m bringusundi vann nú til eignar Þórdís Árnadóttir, Ármanni með því að vinna hann þrisvar í röð. Þórdís er alltaf fasta stjarna okkar sundgesta sem við getum treyst að fá að sjá.

Hress, glöð og leikandi í leik sínum hvort sem hún sigrar eða tapar (raunar sjaldan sem hún tapar). Hún er góð fyrirmynd kynsystra sinna um sundiðkun.“

Dísa átti alltaf fjölda mjög góðra og traustra vina og þeir reyndust henni sérstaklega vel. Ég verð að nefna vinkonurnar frábæru í A- og B-saumaklúbbunum sem héldu þétt saman og hittust reglulega alla tíð. Dísa og Einar voru í skíða- og gönguhópi með vinum sem voru þeim gríðarlega kærir. Það er ekki ofsögum sagt, að í ferðum þessa hóps hafi ávallt verið glatt á hjalla. Það var auðvelt að sjá, að til þessa félagsskapar sóttu þau hjónin eitthvað sem var sérstaklega eftirsóknarvert og veitti þeim mikla ánægju og gleði.

Þín

Brynja.

Við bræðurnir kveðjum ömmu Dísu og minnumst allra góðu stundanna með henni. Það var alltaf gaman að koma í heimsókn til ömmu hvort sem við fórum út í hraun að leika, gáfum fuglunum, spáðum í bolla eða fylgdumst með Williams-systrum spila tennis á Eurosport.

Skemmtilegustu dagarnir með ömmu voru án efa uppi í fjöllum. Hún kenndi okkur öllum á skíði en þeir sem ekki höfðu aldur til að fara með, þrátt fyrir óvenju lágt aldurstakmark, grétu mikið.

Það var á skíðunum sem amma naut lífsins einna helst. Hún var að eigin sögn svo „gaga“ að hún gat látið sig bruna niður brekkurnar án þess að hafa neinar áhyggjur af því að fara of hratt. Eftir erfiðan dag á skíðum lumaði amma alltaf á heitu kakói, samlokum og skíðasúkkulaði í eftirrétt. Þá var blautu fötunum hent inn í hitakompu á Stekkjarflöt og amma hristi fram úr erminni eina af sínum gómsætu máltíðum.

Amma Dísa var sérlega lagin í eldhúsinu og munu margar af hennar bestu uppskriftum fylgja okkur alla tíð. Við munum alltaf hugsa til hennar þegar við fáum okkur pönnukökur með bláberjarjóma eða marengs með jarðarberjum og súkkulaði.

Hvíldu í friði, elsku amma.

Árni, Bragi og Brynjar.

Glettnin í augum Dísu kemur fyrst upp í hugann þegar ég hugsa um hana eins og hún var oftast. Og svo góðmennska hennar við mig, við aldraða foreldra mína og börnin mín, en oft lagði hún á sig langt ferðalag til að sjá þessa nýfæddu Laxamýringa. Oft birtist hún hjá mér hér úti: með sterkan svip ættarinnar, bein í baki og tignarleg í reisn sinni, fáguð lady og vönduð til fatnaðar. Fagurkeri var þar á ferð, ofurfínn næmleiki í bland við mikið stórlyndi og ríkar tilfinningar; einkenni, sem hún fékk í arf frá foreldrum og ræktaði til góðra verka. Slík manneskja var ekki hversdagsleg hvort sem við mæltum okkur mót í skíðaferð í Lech, skemmtiferð meðfram Rínarfljóti eða til að uppgötva gróður og fuglalífið við suðurströnd Íslands. Lyndiseinkenni hennar mátti greina þegar hún renndi sér niður brekkurnar í Lech: metnaðarfull og stolt eins og þegar hún keppti löngu áður fyrir landið sitt, sunddrottningin á Ólympíuleikunum í London. Ungur fékk ég að festa á mig alla verðlaunapeninga Dísu í tilefni myndatöku og taldi mig jafnmikinn kappa þótt ég væri tæplega syndur. Síðar gerði hún mér hins vegar ljósan veruleika erfiðisins við að ná árangri þegar hún skellti hausnum á mér á kaf í sundkennslu í Höllinni við Barónsstíg.

Ég naut gestrisni og myndarskapar hennar og eiginmanns hennar alla ævi og er þakklátur fyrir þau kynni. Mitt fólk og ég vottum aðstandendum okkar dýpstu samúð við fráfall einstakrar konu og vinar.

Gunnlaugur Stefán

Baldursson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.