30. desember 2013 | Árnað heilla | 247 orð | 1 mynd

Merkir Íslendingar

Bjarni Thorarensen

Bjarni fæddist í Brautarholti á Kjalarnesi 30.12. 1786. Foreldrar hans voru Vigfús Þórarinsson, lengst af sýslumaður Rangárvallasýslu, og k.h., Steinunn Bjarnadóttir.
Bjarni fæddist í Brautarholti á Kjalarnesi 30.12. 1786. Foreldrar hans voru Vigfús Þórarinsson, lengst af sýslumaður Rangárvallasýslu, og k.h., Steinunn Bjarnadóttir.

Vigfús þótti með merkustu sýslumönnum á sinni tíð, sonur Þórarins Jónssonar, sýslumanns á Grund og ættföður Thorarensenættar, og Sigríðar Jónsdóttur húsfreyju.

Steinunn var dóttir Bjarna Pálssonar landlæknis og Rannveigar Skúladóttur, landfógeta Magnússonar. Systir Steinunnar var Þórunn, kona Sveins Pálssonar, læknis og náttúrufræðings í Vík.

Eiginkona Bjarna var Hildur, dóttir Boga Benediktssonar úr Hrappsey, og áttu þau fjölda barna.

Bjarni ólst upp á Hlíðarenda í Fljótshlíð, lauk stúdentsprófi 15 ára, enda fluggreindur og bráðþroska, lauk lagaprófi frá Hafnarháskóla tvítugur og starfaði í danska kansellíinu í nokkur ár. Hann varð dómari í Landsyfirréttinum 1811 og eldaði þá grátt silfur við frænda sinn Magnús Stephensen dómstjóra. Bjarni þjónaði auk þess stiftamtmanns- og amtmannsembættinu í suðuramtinu í afleysingum, var sýslumaður í Árnessýslu í tvö ár, síðan aftur dómari við Landsyfirréttinn, búsettur í Gufunesi, var skipaður amtmaður í Norður- og austuramtinu árið 1833, flutti þá að Möðruvöllum í Hörgárdal og bjó þar til dauðadags.

Bjarni var metnaðargjarn, agaður og strangt yfirvald, þjóðernis- og framfarasinnaður en íhaldssamur um stjórnarfar og konungssinni. Hann var tímamótaskáld og ásamt Jónasi Hallgrímssyni höfuðskáld Íslendinga á 19. öld. Hann var upphafsmaður rómantísku stefnunnar hér á landi og orti gjarnan undir bragarháttum Eddukvæða. Mörg þekktustu ljóð hans eru ættjarðar- eða náttúruljóð, svo sem Íslands minni. Auk þess samdi hann ástarljóð og nokkur mögnuðustu erfiljóð tungunnar, s.s. eftir Baldvin Einarsson, Sæmund Hólm og Odd Hjaltalín.

Bjarni lést 25.8. 1841.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.