21. janúar 2014 | Innlendar fréttir | 310 orð | 1 mynd

Aukið öryggi með sæstreng

• Sæstrengur gæti komið í veg fyrir orkuskerðingu Landsvirkjunar til stóriðju • Orkan flutt í báðar áttir og viðskiptin sveigjanlegri • Góð reynsla Norðmanna

Hörður Arnarson
Hörður Arnarson
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Helsti kostur á flutningi raforku um sæstreng er aukið orkuöryggi, hvort heldur sem er vegna bilana eða vatnsskorts.
Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Helsti kostur á flutningi raforku um sæstreng er aukið orkuöryggi, hvort heldur sem er vegna bilana eða vatnsskorts. Hefði Landsvirkjun verið komin með sæstreng milli Íslands og Evrópu þá er líklegt að fyrirtækið hefði ekki þurft að grípa til orkuskerðingar til stóriðju hér á landi vegna lélegs vatnsbúskapar.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir þessa stöðu vissulega geta komið upp en það ráðist þó af þeim samningum sem gerðir yrðu vegna mögulegs sæstrengs.

Hann bendir á að orkugetan sveiflist jafnan í raforkukerfi sem byggi á vatnsorku. Landsvirkjun hafi haft umframorku nokkur undanfarin ár en síðan geti komið upp óvenjulegt veðurfar, líkt og nú, þar sem skerða þarf orkuna lítillega vegna lakari stöðu miðlunarlóna Landsvirkjunar.

„Sala á raforku um sæstreng fer fram með öðrum hætti þar sem orkan er flutt í báðar áttir. Viðskiptavinurinn er sveigjanlegri,“ segir Hörður og tekur dæmi af Norðmönnum sem hafi árin 2010 og 2011 lent í þeirri stöðu að nota sæstrengstengingar við önnur lönd til að flytja inn raforku til að koma í veg fyrir skerta afhendingu til stórnotenda. Hörður segir Norðmenn telja þetta stærsta kostinn við sæstrengina, og þar sem þeir byggi sitt kerfi fyrst og fremst á vatnsorkunni þá geti hið sama átt við hér á landi.

„Með sæstreng kæmi sá valkostur að nýta orkukerfið betur, auka afhendingaröryggi og minnka sóun með því að fá meiri sveigjanleika í afhendinguna. Núverandi viðskiptavinir þurfa helst alla orkuna alltaf,“ segir Hörður ennfremur.

Til umfjöllunar á þingi

Áform um sæstreng milli Íslands og Evrópu eru enn í forathugun hjá Landsvirkjun. Alþingi er með til umfjöllunar skýrslu ráðgjafahóps um efnið og Hörður Arnarson segir að forathugunin geti tekið nokkur ár til viðbótar. Vanda þurfi til verka og m.a. þurfi að skoða jákvæðu áhrifin í slökum vatnsárum, líkt og nú eru.

Hörður telur allt að þrjú ár geta liðið þar til fyrstu ákvarðanir verði teknar um verkefnið.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.