Þegar ég sat í bankaráði Seðlabankans var Már Guðmundsson hagfræðingur bankans um skeið. Ég hafði gott eitt af honum að segja. Þótt hann væri drjúgur með sig, var hann vel að sér og mælti jafnan skynsamlega.

Þegar ég sat í bankaráði Seðlabankans var Már Guðmundsson hagfræðingur bankans um skeið. Ég hafði gott eitt af honum að segja. Þótt hann væri drjúgur með sig, var hann vel að sér og mælti jafnan skynsamlega. Einu kynni mín af honum áður voru, þegar við vorum iðulega ræðumenn hvor fyrir sinn málstað í framhaldsskólum, hann fyrir sósíalisma og ég fyrir frjálshyggju. Boðaði hann þá, að menn skyldu taka almannahag fram yfir eigin hag.

Hins vegar var Már bersýnilega ráðinn seðlabankastjóri af stjórnmálaástæðum, þótt látið væri svo heita, að hann hefði mesta þekkingu og reynslu umsækjenda. En dómgreind skiptir ekki síður máli. Sú ákvörðun Más að una ekki við launalækkun, sem aðrir í sambærilegum stöðum urðu að sætta sig við á erfiðum tímum, sýndi dómgreindarbrest.

Már kveðst hafa viljað láta reyna á rétt sinn með því að höfða mál gegn Seðlabankanum. En stundum er skynsamlegast að krefjast ekki réttar síns. Þegar Davíð Oddsson lét af starfi borgarstjóra, átti hann rétt á sex mánaða biðlaunum. Hann ákvað að taka sér þau ekki, þótt réttur hans til þeirra væri ótvíræður. Þegar Davíð var skipaður seðlabankastjóri, var gerður við hann ráðningarsamningur til sjö ára, frá 20. október 2005 til 20. október 2012. Samningurinn var svo skýr, að Davíð hefði með dómi getað fengið full mánaðarlaun greidd allt til 20. október 2012, en hann var sem kunnugt er hrakinn úr starfi í febrúar 2009. En Davíð ákvað að láta kyrrt liggja.

Þegar Davíð var ráðherra 1991-2005, tók eiginkona hans aldrei dagpeninga í utanlandsferðum eins og makar annarra ráðherra. Þetta var réttur hennar, en hún nýtti sér hann ekki.

Hvort tveggja gerir síðan hlut Más verri, að hann tapaði máli sínu gegn Seðlabankanum og að hann lét bankann greiða málskostnað sinn. En ólíkt hafast þeir að í eigin málum, gamli sósíalistinn, sem boðaði forðum, að taka skyldi almannahag fram yfir eigin hag, og hinn borgaralegi stjórnmálamaður Davíð Oddsson. En nú ber svo við, að þeir Hörður Torfason og Bubbi Morthens eru hvergi sjáanlegir með potta sína og pönnur fyrir utan Seðlabankann.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is