Formaður Hallgerður Hauksdóttir á góðum degi í útreiðatúr.
Formaður Hallgerður Hauksdóttir á góðum degi í útreiðatúr.
„Ef menn vita að þessi mél skaða en nota þau áfram, erum við komin að mörkum dýraníðs,“ segir Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands.

„Ef menn vita að þessi mél skaða en nota þau áfram, erum við komin að mörkum dýraníðs,“ segir Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands. Sambandið hefur sent frá sér ályktun þar sem notkun hestamanna á tungubogamélum er sögð ill meðferð á hestum.

Dýraverndarsambandið telur notkun mélanna ólöglega. Vísað er í ákvæði laga um dýravelferð þar sem segir að hver sá sem þjálfar dýr, notar þau í keppni og sýningar eða á annan hátt skuli tryggja að þau séu ekki markvisst beitt meðferð sem veldur þeim skaða eða óþarfa ótta.

Í ályktuninni er gagnrýnd sérstaklega afstaða þeirra hestamanna og samtaka sem vilji láta refsa þeim sem skaði hesta með notkun mélanna en ekki banna búnaðinn. Í henni felist að hestar skuli enn þurfa að meiðast og það sé óverjandi. „Þar sem sýnt hefur verið fram á skaðsemi mélanna hljóta rök sem hníga að því að nota þau „varlega“ að falla um sig sjálf.“

Hallgerður tengir afstöðu Félags tamningamanna og Félags hrossabænda við peningahagsmuni sem menn hafi af því að ná góðum einkunnum á sýningum og sigra í keppni. Aðrir hagsmunir en dýravelferðarsjónarmið hafi því yfirhöndina. Í ályktun Dýraverndarsambandsins er vakin athygli á því að notkun umræddra méla skekki mjög stöðu þeirra knapa sem vilja keppa í hestaíþróttum án þess að nota beislisbúnað sem yfirbugar hestinn með sársaukafullum núningi á bein.

„Dýraverndarsamband Íslands fordæmir allar aðferðir sem byggja á harðýðgi við dýr. Sýningar, keppni og auðvitað einnig útreiðar ættu ávallt að vera með þeim hætti að velferð dýranna sé höfð í fyrirrúmi. Fagmenn ættu öðrum fremur að sýna gott fordæmi með því að berjast gegn notkun tóla sem meiða hesta,“ segir í ályktun. helgi@mbl.is