Aðalsteinn Eyjólfur Aðalsteinsson fæddist í Hvallátrum á Breiðafirði 5. ágúst 1923. Hann andaðist á hjúkrunarheimilinu Eir 8. júní 2014. Foreldrar hans voru Jóhanna Sesselja Friðriksdóttir, f. 19.10. 1899, d. 30.6. 1989 og Aðalsteinn Ólafsson, f. 22.7. 1894, d. 27.4. 1923, stjúpfaðir Jón Daníelsson, f. 25.3. 1904, d. 20.8. 1988. Systkini: Sveinbarn, fætt andvana vorið 1921, Björg Ólafía Aðalsteinsd., f. 27.6. 1922, d. 12.12. 2008, Ólína Jóhanna Jónsd., f. 6.4. 1933, Daníel Jónss., f. 2.12. 1934, d. 20.7. 2013, María Theódóra Jónsd., f. 28.4. 1938, Elín Ágústa Jónsd., f. 7.7. 1941, d. 3.2. 1943, Valdimar Jónss., f. 24.11. 1943. Hinn 21.11. 1948 giftist Aðalsteinn Önnu Margréti Pálsdóttur, f. 17.5. 1929. Börn þeirra eru: 1) Hafliði Már, f. 1949, maki Jófríður Benediktsd., f. 1952, börn: a) Hugrún Björk, f. 1972, maki Hermann Þóriss., f. 1972, þeirra börn Signý Rut og Hafliði Hermann; b) Benedikta Steinunn, f. 1973. 2) Elín Ágústa, f. 1950, maki Ásbjörn Jóhanness., f. 1949, barn: Jóhannes, f. 1979, maki Ólína Jóhanna Gíslad., f. 1981, þeirra börn Sóley og Elín Þóra. 3) Jón Valdimar, f. 1953, maki Sigrún Davíðsd., f. 1958, börn: a) Júlíus, f. 1979 (sonur hennar), maki Sandra Björk Ingad., f. 1988, hans barn Signý Lind. b) Ágústa Sigríður, f. 1988, maki Mattías Arnar Þorgrímss., f. 1987; c) Jóhanna Sesselja, f. 1990. Fyrri maki Svanhildur Benediktsd., f. 1954, börn: a) Anna Margrét, f. 1971, maki Magnús Orri Einarss., f. 1979, fyrri maki Friðrik Jónss., f. 1970, þeirra börn Alexander, Jón Stefán og Friðrik; b) Agnes, f. 1976, maki Árni Sigurðss., f. 1973, þeirra börn Sigurður Axel, Arndís Hrund og Arnaldur Sölvi; c) Silvía, f. 1979, maki Björgvin K. Haraldss., f. 1977, þeirra börn Freydís Sonja, Natan Orri og Gabríel Veigar. 4) Páll Finnbogi, f. 1954, maki Anna Reynisd., f. 1972, börn: Halldóra Margrét, f. 2003 og Bjarni Þormar, f. 2005. Fyrri maki Sigrún Kristinsd., f. 1954 börn: a) Kristinn Már, f. 1976, barnsmóðir Hafrún Bylgja Guðmundsd., f. 1978, barn þeirra: Haukur Páll. b) Birkir, f. 1979. c) Anna Margrét, f. 1988, barnsfaðir Oddur Jóhann Brynjólfss., f. 1986, barn þeirra Brynjólfur Hólmar. 5) Skúli, f. 1956, maki Guðrún Brynjarsd., f. 1963, börn: a) Svala, f. 1981, maki Christoph Merschbrock, f. 1978, börn Nökkvi Þór og Lilja Dís; b) Skúli, f. 1984, maki Elsa Sólrún Hauksd., f. 1991; c) Sæunn, f. 1989; d) Snorri, f. 1995, maki Lisa María Lognberg, f. 1995. 6) Drengur, f. 1959, d. 1959. 7) Jóhanna Björg, f. 1961, maki Eiríkur Kr. Jóhannss., f. 1956, börn: a) Sverrir Vídalín, f. 1989, maki Vilborg Guðjónsd., f. 1990; b) Arnfríður Björg, Aðalsteinn Eyjólfur og Jóhann, f. 1993, d. 1993; c) Jóhann Aðalsteinn, fæddur andvana, 1997. 8) Aðalsteinn, f. 1964, fyrrv. maki Sigríður Sturlud., f. 1965, börn: a) Harpa Dögg, f. 1983 (dóttir hans), maki Amadeou Barry, börn Viktoría Erla og Óðinn; b) Tinna, f. 1988 (dóttir hennar); c) Aðalsteinn Emil, f. 1994, maki Eva Björg Guðlaugsd., f. 1994; d) Adam Freyr, f. 2001. 9) Guðbjörg, f. 1966, maki Gísli Jón Bjarnas., f. 1961, börn: a) Elín Anna, f. 1988, maki Sigurberg Guðbrandss., f. 1988, barn: Guðbrandur Gísli; b) Íris Eva, f. 1992, barn Eva Elírós. Aðalsteinn ólst upp í Hvallátrum og bjó þar til 1975 en þá flutti fjölskyldan til Reykjavíkur. Hann lærði ungur skipasmíði af afa sínum og föðurbróður sem lærðu það af sínum forfeðrum. Skólaganga var ekki löng, farskóli og einn vetur í Iðnskólanum í Reykjavík, útskrifaðist þaðan 1963 með meistararéttindi í skipasmíðum. Hann vann við nýsmíðar og viðgerðir báta, en aðstoðaði við bústörfin eftir þörfum. Hann var 18 ára þegar hann smíðaði fyrsta bátinn árið 1941 og þann síðasta 1975. Draupnir er stærsti báturinn sjósettur 1960. Hann byrjaði í hafnargerð í Króksfjarðarnesi 1959, svo frá 1967 samfellt hjá Vita- og hafnamálastofnun og vann við það fram á áttræðisaldur. Það eru ekki margar hafnir á landinu sem hann hefur ekki unnið við. Hann flutti ferðafólk um Breiðafjarðareyjar og einnig fólk í embættiserindum svo sem sýslumenn og presta. Hann var mörg ár í hreppsnefnd Flateyjarhrepps, m.a. sem oddviti. Hann var vitavörður í tveimur vitum, Skarfakletti og Miðleiðaskeri. Aðalsteinn var hagleiksmaður á tré og járn, hjálpsamur og bóngóður. Lagði miðstöðvarkerfi í hús, vatnslagnir úr brunnum til íbúðarhúsa og gripahúsa, var hárskeri í eyjunum (a.m.k. fyrir karlmenn). Hann lagði sig fram um að draga úr fólksfækkun í Flatey og flutti einn vetur til Flateyjar með fjölskylduna til að vinna við rækjuvinnslu. Frá árinu 2007 dvaldi hann á hjúkrunarheimilinu Eir. Útför Aðalsteins fer fram frá Árbæjarkirkju í dag, 27. júní 2014, kl. 13.

Nú er hann fallinn, forystumaðurinn, þúsundþjalasmiðurinn, ráðgæðingurinn, glæsimennið Aðalsteinn Aðalsteinsson eftir langvarandi veikindi óraunsæis og tálsýna. Elli kerling var lengi að vinna á honum, en fyrir henni hljóta allir að falla um síðir. Ævilokin átti hann við atlæti hjúkrunarheimilisins Eirar við heimsóknir stórrar fjölskyldu hvar í fararbroddi var hans ástríka dyggðum prýdda eiginkona, Anna Margrét Pálsdóttir.

Hann fæddist við þær aðstæður, að faðir hans var þá nýlátinn í sjóslysi. Hefur því vafalaust notið strax mestrar aðdáunar og umhyggju sem lítið barn getur hlotið af að fylla ögn upp í það skarð sem örlögin höfðu höggvið.

Hann var bráðger. Ættarfylgjan handlagni kom strax í ljós. Verkhyggjan tamin við umsvif stórheimilis með margþættan búrekstur byggðan á sjóferðum. Orðhvatur, óvæginn ef í odda skarst, stríðinn, stærstur, í margmenni skemmtilegastur, svo litlu krakkarnir fylltust aðdáun. Kallaður Steini stóri til aðgreiningar frá minni frænda með sama nafni. Stefnufastur í skoðunum. Kvennaljómi, stelpurnar skotnar. Óneitanlega sjarmerandi karl, sagði kona sem var honum reið af pólitískum ástæðum.

Bátasmíðin í Látrum stóð föstum fótum í æsku hans en smiðirnir féllu frá hver af öðrum og hann hlaut ekki mikla þjálfun í uppvextinum af þeim sökum. En hann tók við merkinu og var alla sína bátasmiðstíð að þróa og leita uppi heppilegasta sköpulagið. Tíminn frá árabátum til hraðbáta. Áherslur hans lágu í ganghæfni, burði, sjóhæfni, sem hann vildi allt sameina í sama bátnum. Mestir báta hans urðu Draupnir í Hvallátrum og Farsæll í Svefneyjum. Í Farsæl náði hann fram ýmsu því sem honum þótti á vanta eða betur mætti fara í Draupni. Tala báta hans í nýsmíði var á fjórða tug, auk fjölda viðgerða og endurnýjana.

Í þessu fagi hans voru einmitt síðustu störfin og starfsorkulok. Í samvinnu við Aðalstein voru endursmíðaðir fyrir sunnan báturinn Ólafur, sem var í röð fyrstu gripa hans sjálfs, og Sendlingur Ólafs Bergsveinssonar, fjögra manna far frá upphafsárum hans. Heima í Látrum gerði Steini við teinæring Ólafs, Egil, svo hann verði geymdur þó ekki sé hann sjófær.

Það bar upp á sama tíma og eftirspurn eftir bátum hans tók að dala, að verkstjóra vantaði við umbætur í höfnum landsins. Aðalsteinn bryggjusmiður varð þekktur í sjávarplássum víða um land. Trébryggjur, stálþil og sjóvarnargarðar bera verkhyggni hans vitni. Afbragðsgott að vinna hjá þessum kalli, sögðu starfsmenn hans. Þetta dettur engum í hug nema Aðalsteini, sögðu þeir, svona gerir enginn annar og þetta getur enginn annar. Þrautseigju hans og ráðum við erfiðar aðstæður var viðbrugðið.

Fyrsta staurabryggja hans frá 1959 stendur í Króksfjarðarnesi. Síðasta eða með síðustu hafnargerðum hans var einnig á heimaslóðum: Skjólgarður og pollur á Stað á Reykjanesi ætlaður til samgöngubóta fyrir svæðið 1992. Má ætla, að þetta hafi verið honum draumaverkefni og að oft hafi hann fundið að þessarar aðstöðu var þörf.

Þegar byggð í Flateyjarhreppi var hrunin að fólki var fátt eftir hagleiksmanna að leita til ef þurfti. Það mæddi margt á Steina.

Stefnufastur íhaldskarl, trúði á einkaframtakið. Ekki hygg ég samt að hann hefði stutt alla þá fjárglæframennsku sem nútíminn þekkir. Landsbyggðarmaður.

Það er ekki heiglum hent að reisa við atvinnuvegi í héraði eftir að fólkið er flutt burt á vit annarra tækifæra. En það reyndu hann og fleiri. Sjávarútvegur frá Flatey í nokkrum mæli, hver tilraunin af annarri varð skammlíf. Hreppsnefndar- og oddvitatíð hans yfirstandandi og hann átti frumkvæðið að flestu sem reynt var. Gamla oddvitanum til margra áratuga, Steini Á. Jónssyni, varð að orði með sínu vestfirska orðfæri: Dad er gott ad hafa Adalstein til hvers kyns erindreksturs, hann er svo vel sédur af valdhöfunum.

Flatey var í eigu fjölda manns, en hreppurinn tók hana eignarnámi í þeim tilgangi að bæta um til búrekstrar. Sagt hefur verið síðar, að það ráð hafi reynst haldbest þess sem reynt var á þessum árum.

Afkomendafjöld Steina óska ég velfarnaðar í minningu hans. Hann var hagur, útsjónarsamur, fær um flest. Þurfti aldrei að spreyta sig á matseld eða húsverkum. Harður í horn að taka, óvæginn, ekki alltaf sanngjarn eða smámunasamur um sálræna umhirðu. Góður fjölskyldufaðir samt.

Anna mín Pálsdóttir, guð blessi ykkur öll.

Jóhannes Geir Gíslason.

Jóhannes Geir Gíslason.