Ekki fer fram hjá neinum, að heimsmeistamótið í knattspyrnu fer um þessar mundir fram í Rio de Janeiro og fleiri borgum Brasilíu. Borgarheitið merkir Janúarfljótið, því að portúgalskir landkönnuðir, sem sigldu 1.

Ekki fer fram hjá neinum, að heimsmeistamótið í knattspyrnu fer um þessar mundir fram í Rio de Janeiro og fleiri borgum Brasilíu. Borgarheitið merkir Janúarfljótið, því að portúgalskir landkönnuðir, sem sigldu 1. janúar 1502 inn í Guanabara-flóa, sem borgin stendur við, héldu, að þeir væru komnir í fljótsmynni. Einn þeirra var Amerigo Vespucci, sem Ameríka tekur nafn eftir. Sjálft landið Brasilía dregur nafn af rauðviðartegund, sem notuð er í liti, og mætti því nefna það Rauðviðarland. Færum við þá að fordæmi Konráðs Gíslasonar, sem reyndi að íslenska erlend staðarnöfn og nefndi til dæmis Buenos Aires Góðviðru (bókstafleg merking á spænsku er Gott loft) og Ecuador Miðgarðaríki (en það liggur um miðbaug).

Brasilía, rauðviðarlandið, er líka iðulega nefnd framtíðarlandið, en gárungarnir bæta við, að svo eigi eftir að vera lengi. Rio de Janeiro er kunnasta og fegursta borg landsins, og um hana er frægt skrúðgöngulag, „Cidade Maravilhosa“, Yndisfagra borg, sem tónskáldið André Filho samdi fyrir kjötkveðjuhátíðina 1935. Dansa léttklæddar, þeldökkar stúlkur jafnan hraða sömbu við það lag á hátíðinni.

Annað og enn frægara lag frá borginni heitir „Garota de Ipanema“, stúlkan frá Ipanema. Það er rólegt og kliðmjúkt bossa-nova-lag og fléttað inn í textann munúð og söknuði eftir því, sem aldrei varð. Tildrög voru, að árið 1962 sátu tónskáldið Antônio (Tom) Carlos Jobim og ljóðskáldið Vinicius de Moraes iðulega saman að bjórdrykkju á veitingastaðnum Veloso á mótum Rua Montenegro og Rua Prudente de Morais í Ipanema, einu strandhverfi Rio de Janeiro. Á hverjum degi gekk fram hjá þeim á ströndina ung og falleg stúlka, sem hreif þá svo, að þeir hripuðu á munnþurrku um hana ljóð og lag. Nú heitir veitingahúsið, þar sem þeir sátu, Garota de Ipanema, og Rua Montenegro hefur skipt um nafn og heitir Rua Vinicius de Moraes. Alþjóðaflugvöllurinn í Rio de Janeiro er nefndur í höfuðið á Tom Jobim.

Frank Sinatra hefur með miklum ágætum sungið lagið í lauslegri, enskri þýðingu og annarri útsetningu, en hér er íslensk þýðing fyrstu vísunnar eftir Kristján Hrafnsson rithöfund, sem hann gerði að mínu frumkvæði með hliðsjón af portúgalska frumtextanum:

Brún á hörund,

hýreyg, töfrandi,

heit af Ipanema-sólinni,

öllum ljóðum fegri

fer hún hjá,

– fer hjá.

Vitað er, hver stúlkan frá Ipanema er. Hún heitir Heloísa Eneida Menezes Paes Pinto og kemur oft fram í brasilísku sjónvarpi. Hún var sautján ára, þegar lagið var samið, en verður sjötug á næsta ári.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is