Sigurbjörn Þorkelsson
Sigurbjörn Þorkelsson
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson: "Raunveruleg gæska Guðs verður ekki mæld í heilsufari okkar, fjárhagsstöðu, ævilengd eða hversu fáum eða mörgum vonbrigðum við verðum fyrir um ævina."

Hvað veist þú merkilegra en það að vera valinn í lið lífsins?

Æska þessa lands þarf að fá að heyra, upplifa og finna að það sé raunveruleg von, þrátt fyrir allt. Að þau séu sólarmegin í lífinu, hvernig sem allt velkist. Að við séum ekki hérna fyrir tilviljun. Að við séum elskuverð og óendanlega dýrmæt í augum Guðs. Og að þau eigi lífið framundan, jafnvel þrátt fyrir sjálfan dauðann, síðasta óvininn sem að engu verður gjörður. Að það sé tilgangur með veru okkar hérna. Okkur sé ætlað hlutverk og að höfundur og fullkomnari lífsins hafi áætlun með líf okkar. Áætlun til heilla en ekki til óhamingju. Líka í aðstæðum mótlætis og vonbrigða. Því mátturinn fullkomnast í veikleika.

Eilíf samfylgd

Hvað veist þú annars dýrmætara en vera ávarpaður að morgni lífsins af sjálfum höfundi þess og fullkomnara með orðunum: Sjá ég verð með þér alla daga allt til enda veraldar? Að vera valinn í lið lífsins og fá að spila með til sigurs.

Gæska Guðs

Ef gæska Guðs á eingöngu að mælast í okkar heilsufari, ævilengd eða eftir því hve fáum eða mörgum vonbrigðum við verðum fyrir um ævina, þá veit ég reyndar kannski ekki alveg hvaða staðla á að nota. Enda held ég að flestir myndu þá gefast upp á Guði fyrr en síðar. Gæska Guðs er svo miklu dýpri og varanlegri en það. Kærleikur hans víðari, breiðari og hærri. Og friðurinn æðri okkar skilningi.

Aldrei lofað auðveldri ævi

Okkur var reyndar aldrei lofað auðveldri ævi, jafnvel þótt við legðum okkur fram. Það eina sem öruggt var þegar þú fékkst dagsbirtuna í augun var að fyrr eða síðar myndu augu þín bresta og hjarta þitt hætta að slá. Það eina sem þér var lofað var eilíf samfylgd af höfundi og fullkomnara lífsins. Í gegnum þykkt og þunnt, súrt og sætt.

Sigursveigur sem ekki fölnar

Þótt heilsa, mannlegur heiður, vinir og virðing þig svíki, yfirgefi og hafni, þá mun ekkert geta gert líf þitt viðskila við kærleika Guðs sem okkur býðst að meðtaka í syni hans, Kristi Jesú, og við um síðir munum fá að njóta. Ævinnar gleði er nefnilega eitthvað svo skelfing skammvinn og velgengnin völt. Sigrarnir sætir en kransarnir svo ótrúlega fljótir að fölna.

Hin varanlega gleði er fólgin í því að eiga nafn sitt letrað með himnesku letri í lífsins bók. Gleðjumst þeirri gleði, því að hún er sigursveigur sem ekki fölnar.

Friður sem ég skil ekki

Þess vegna veit ég ekkert dýrmætara en að mega fela mig höfundi og fullkomnara lífsins, dag hvern, já hverja stund. Í trausti þess að hann muni vel fyrir sjá eins og hann hefur heitið. Sú fullvissa veitir mér innri frið sem mér finnst gott að fá að njóta og hreinlega ómetanlegt að fá að hvíla í. Jafnvel þótt ég skilji það ekki. Ég er þess nefnilega fullviss að ævinnar bestu stundir, dýrmætustu augnablik, fegurstu draumar og ljúfustu þrár, séu rétt aðeins sem forrétturinn að þeirri himnesku veislu sem lífið raunverulega er og dýrð eilífðarinnar mun hafa upp á að bjóða.

Ekkert er öruggt

Ekkert er öruggt í þessum heimi. Ég þekki engan og hef ekki heyrt um neinn sem ekki verður fyrir vonbrigðum á ævigöngunni. Tilvera okkar getur hrunið á einu augabragði líkt og spilaborg. Það hefur margsýnt sig, það þekkjum við úr heimssögunni, jafnvel okkar nánasta umhverfi og jafnvel eigin lífi. En þá er gott að mega hafa orð Jesú í huga, þar sem hann segir:

Í heiminum hafið þér þrenging, en verið hughraust, ég hef sigrað heiminn.

Lifi lífið!

Höfundur er rithöfundur.