Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands
Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands fer að nálgast það að vera óskuldsettur. Í júní sl.

Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands fer að nálgast það að vera óskuldsettur. Í júní sl. voru skuldir umfram eignir í erlendri mynt á efnahagsreikningi bankans um 20 milljarðar en þegar mest var í árslok 2009 voru skuldir umfram erlendar eignir um 190 milljarðar. Þetta kemur fram í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

Sé hins vegar tekið tillit til þess að umtalsverðar eignir Seðlabankans, til að mynda fjölmyntalán í tengslum við yfirtöku nýju bankanna á veðtryggðum lánum og kröfur á fallin fjármálafyrirtæki í vörslu ESÍ, verða líklega gerðar upp í gjaldeyri en teljast engu að síður ekki sem erlend eign á efnahagsreikningnum, þá má segja að Seðlabankinn hafi þegar náð því marki að koma sér upp óskuldsettum gjaldeyrisforða. Óskuldsettur forði bankans er þó ekki stór.

Greinendur Arion banka benda á að það séu jákvæð tíðindi að Seðlabankanum sé að takast að safna hreinni gjaldeyriseign. Það skipti ekki síst máli samhliða áformum stjórnvalda um að stíga skref í átt til losunar hafta. Þrátt fyrir að gjaldeyrisforðinn sé ekki tiltölulega stór um þessar mundir er skuldsetning hans einn þeirra þátta sem draga úr nytsemi forðans. Þannig telji fáir að Seðlabankinn sé reiðubúinn að ganga á forðann til þess að verja gengisstöðugleika ef afleiðingin yrði sú að auka skuldsetningu ríkissjóðs í erlendri mynt.