Ástríður Hafdís Guðlaugsdóttir Ginsberg fæddist 16. júní 1948. Hún lést 16. júlí 2014. Hún var jarðsungin 24. júlí 2014.

Hún Ásta vinkona mín hefur kvatt þennan heim eftir harða baráttu við krabbamein. Þá koma upp margar minningar.

Við vorum rúmlega tvítugar, báðar giftar þýskumælandi mönnum og dvöldum rúm tvö ár saman á Írlandi í byrjun áttunda áratugarins. Það var eftirminnilegur tími við tvær íslensku stelpurnar að byrja að kynnast ókunnum löndum og háttum.

Þremur árum seinna vorum við svo lánsamar að dvelja aftur í sama landi. Í þetta skipti í Nígeríu. Ásta í höfuðborginni Lagos en ég í Owerri, fyrrverandi Biafra. Það var langt á milli en okkur tókst samt að hittast annað slagið í þessum mjög framandi heimi. Eftir Nígeríu fluttu Ásta og Dieter til Botswana og Þýskalands en okkur tókst að halda sambandi.

Á tíunda áratugnum vorum við svo báðar alkomnar til Íslands. Við hittumst reglulega og það voru ófáar hádegispásurnar sem við sátum saman heima hjá mér á Dunhaganum, en vinnustaður Ástu var í sömu götu.

Eða ég kom í kaffiheimsókn í Hafnarfjörðinn sem lengdist svo iðulega fram yfir kvöldmat. Ásta var frábær kokkur og þau hjónin góðir gestgjafar. Og margir urðu líka göngutúrarnir. Eitt skipti fórum við saman til Austurríkis í lengra göngufrí í hinu fallega héraði Salzkammergut. Við vorum einmitt búin að skipuleggja annað göngufrí saman þegar veikindin komu upp.

Ásta mín, ég kveð þig með söknuði. Ég votta Dieter, móður hennar Guðrúnu og systkinum og tengdafólki innilega samúð mína.

Kristín Sörladóttir.