Logi Gunnarsson
Logi Gunnarsson
Í landsliði Íslands sem mætti Lúxemborg í fyrrakvöld í vináttulandsleik í körfuknattleik voru hvorki fleiri né færri en 5 leikmenn sem hver og einn á föður sem einnig lék fyrir landsliðið á sínum tíma.

Í landsliði Íslands sem mætti Lúxemborg í fyrrakvöld í vináttulandsleik í körfuknattleik voru hvorki fleiri né færri en 5 leikmenn sem hver og einn á föður sem einnig lék fyrir landsliðið á sínum tíma. Ætla má að þeir verði allir einnig á ferðinni í dag þegar þjóðirnar mætast öðru sinni ytra í þessum mikilvægu undirbúningsleikjum fyrir komandi undankeppni EM sem hefst eftir rúma viku.

Fyrstan ber að nefna Loga Gunnarsson sem lék sinn 100. landsleik í fyrrakvöld. Logi er sonur Gunnars Þorvarðarsonar sem lék 69 landsleiki árin 1974-1981. Axel Kárason er annar en faðir hans er Kári Marísson, sem lék með Val og Njarðvík, en hann lék 34 landsleiki árin 1972-1976.

Synirnir taka brátt fram úr

Félagarnir Elvar Már Friðriksson og Martin Hermannsson, sem báðir eru á leið til LIU í New York í haust og munu þar leika í bandaríska háskólaboltanum, eiga báðir feður sem léku með landsliðinu. Friðrik Ragnarsson, pabbi Elvars, lék 31 landsleik á árunum 1989-1999. Hermann Hauksson, pabbi Martins, lék hins vegar 64 landsleiki árin 1994-2000.

Loks lék Alexander Ermolinskij, pabbi Pavels, sex landsleiki fyrir Ísland árið 1997 þegar hann var leikmaður ÍA.

Synirnir hafa samtals leikið 182 landsleiki en feðurnir 204, og þess því ekki langt að bíða að þeir yngri taki fram úr þeim eldri.

sindris@mbl.is