Hvað er eiginlega í vatninu þarna í Garðabæ? Stjörnumenn og -konur, hvort sem er innan vallar eða utan, hafa gjörsamlega stolið senunni þetta knattspyrnusumarið með magnaðri frammistöðu á hvorum tveggja vígstöðvum.
Hvað er eiginlega í vatninu þarna í Garðabæ? Stjörnumenn og -konur, hvort sem er innan vallar eða utan, hafa gjörsamlega stolið senunni þetta knattspyrnusumarið með magnaðri frammistöðu á hvorum tveggja vígstöðvum. Þar stendur óneitanlega upp úr Evrópuævintýri karlanna sem hafa ekki enn tapað leik. Kannski þeir fari bara í úrslitaleikinn og taki silfur? Djók.

Kvennaliðið er nú búið að gera sitt besta til að afmá þennan silfur-stimpil sem hefur verið á Stjörnunni sem félagi síðustu ár, og hefur unnið tvo Íslandsmeistaratitla og einn bikarmeistaratitil á síðustu þremur árum. Fávísir myndu einir veðja gegn því að liðið taki svo tvennuna þetta tímabilið.

Það er að myndast einhver hefð fyrir því að ÍBV leiki heimaleik á Hásteinsvelli fyrir þjóðhátíðargesti og því fagna ég mjög. Eins glæsileg og þjóðhátíðardagskráin jafnan er þá er frábær viðbót að fá mikilvægan fótboltaleik sem jafnvel þúsundir manna mæta á eins og gerðist í fyrra.

Það setti reyndar ljótan svip á leik ÍBV og KR í fyrrakvöld að einhverjir vallargesta skyldu hafa gerst sekir um kynþáttaníð. Eða ég trúi alla vega ekki öðru en að Gunnar Jarl dómari hafi heyrt eitthvað slíkt fyrst hann kom þeim skilaboðum áleiðis til vallarþular sem bað fólk að haga sér. Hálfvitar leynast víða.

Nú tekur við rólegasta helgi hvers árs í íþróttunum hérna heima. Hafi menn áhuga á að sjá keppni þá er eina ráðið að skella sér á Sauðárkrók (nema þá að lesandi sé þegar staddur þar, þá þarf hann hvergi að fara) og sjá æsku landsins spreyta sig í ýmsum greinum.