Hvað er til ráða þegar fortíðin er ekki lengur boðleg?

Netið hefur gerbreytt aðgengi að upplýsingum. Áður fyrr kostaði öflun upplýsinga ferðir á bóka- og skjalasöfn, fyrirspurnir hjá stofnunum og almennt erfiði og fyrirhöfn. Nú má fyrirvaralaust sækja upplýsingar á netið. Nafnleysi er ekki lengur til og varla hægt að hverfa í fjöldann. Sporin eru varðveitt á netinu og blasa við öllum, sem þau vilja finna.

Umræðan um réttinn til að gleymast fór á flug eftir að Evrópudómstóllinn úrskurðaði í maí að einstaklingar ættu rétt á að láta þurrka út tengla við nöfn þeirra undir ákveðnum kringumstæðum þannig að þau komi ekki fram við leit í leitarvélum. Þetta á til dæmis við ef upplýsingar eru úreltar eða ónákvæmar. Í málinu tókust á rétturinn til upplýsinga og friðhelgi einkalífsins.

Eftir að dómurinn féll hefur óskum um að þurrka út tengla rignt yfir netfyrirtækið Google, sem rekur umfangsmestu leitarvélina á netinu. Rúmlega helmingur tenglanna hefur verið fjarlægður, en fyrirtækið lendir iðulega í vandræðum með þessar fyrirspurnir vegna þess að mjög er á reiki hvenær friðhelgi einkalífsins á að vera upplýsingafrelsinu yfirsterkari.

Í bréfi, sem Google sendi persónuverndaryfirvöldum Evrópusambandsins, segir að stundum reynist rangar eða ónákvæmar upplýsingar liggja að baki óskum. „Jafnvel þótt umsækjendur veiti okkur nákvæmar upplýsingar geta þeir skiljanlega forðast að setja fram staðreyndir, sem eru þeim ekki í hag.“

Dæmi um þetta er að einstaklingur, sem biður um að upplýsingar um brot framin á unglingsárum verði fjarlægð, nefni ekki að hann eða hún hafi hlotið dóm fyrir svipuð brot á fullorðinsárum eða sé í framboði. Í bréfinu fer Google fram á leiðbeiningar um það hvernig eigi meta hvað varði almannahag og hvað ekki og hvort upplýsingar, sem stjórnvöld hafi sett á netið, megi falla í gleymsku sé þess óskað.

Hér er ekki bara verið að tala um þau spor, sem einstaklingar skilja sjálfir eftir á netinu, heldur umfjöllun í fjölmiðlum og upplýsingar á hinum ýmsu vefjum. Það er athyglisvert að ekki skuli vera á hreinu hvernig eigi að meðhöndla tengla við opinberar upplýsingar. Augljóslega er ekki hægt að breyta því, sem einu sinni hefur verið sett á prent í dagblaði. Blöð eru geymd á bókasöfnum. Íslensk blöð og tímarit hafa verið skönnuð og eru aðgengileg á vefnum Tímarit.is. Engu að síður hafa Morgunblaðinu borist óskir um að efni, sem birst hefur í blaðinu, verði þurrkað út, þar á meðal minningargreinar.

Það hefur tíðkast að menn og fyrirtæki reyni að hafa áhrif á niðurstöður í leitarvélum og þá helst í þá veru að tryggja að neikvætt efni finnist ekki við leit eða sé svo neðarlega í niðurstöðulistanum að ekki verði eftir því tekið.

Fjölmiðlar í Evrópu hafa gagnrýnt Google fyrir að fjarlægja tengla við fréttir úr leitarniðurstöðum. Þessir tenglar koma hins vegar fram í bandarísku útgáfunni af leitarvélinni.

Það er eitt að vilja þurrka bernskubrek og vitleysisgang út af félagsvefjum. Allt annað mál er að þurrka út umfjöllun fjömiðla. Fjölmiðlum ber vitaskuld skylda til þess að leiðrétta þegar rangt er farið með þannig að leiðréttingin komi fram við leit og þeir eiga að virða reglur um friðhelgi einkalífs.

Menn eru hins vegar komnir á hálan ís þegar á að fara að þurrka út efni. Næsta skref er að móta „söguna“ í þóknanlegri mynd. Milan Kundera segir í Bókinni um hlátur og gleymsku frá frægri ljósmynd af ráðamönnum Tékkóslóvakíu frá 1948. Þar standa hlið við hlið Klement Gottwald forsætisráðherra og Vladimir Clementis utanríkisráðherra. Clementis féll síðan í ónáð og var tekinn af lífi 1952. Þegar Clementis var ákærður 1950 þurrkuðu áróðursmeistarar ríkisins hann út af myndinni. Það snjóaði daginn, sem hún var tekin, og Clementis hafði lánað Gottwald húfuna sína. Húfan var það eina, sem var eftir af Clementis á myndinni. Fortíðin var ekki lengur boðleg, en það var ekki hægt að þurrka hana alveg út.