Guðmundur Ingi Þóroddsson
Guðmundur Ingi Þóroddsson
Eftir Guðmund Inga Þóroddsson: "Málið snýst það um að virkja fangann, gera vistunarplan fram í tímann, meta hegðun allan tímann sem hann er í úttekt..."

Í kvöldfréttum RÚV sunnudaginn 20. júlí sl. var sagt frá því að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefði skipað nýja nefnd til að koma á laggirnar millidómstigi en áður hafi réttarfarsnefnd átt að sjá um það. Hanna Birna sagði að ekki væri eðlilegt að réttarfarsnefnd, sem í sitja m.a. dómarar, skuli semja frumvarp sem snertir þá sjálfa. Á sama tíma liggja fyrir drög að frumvarpi um fullnustu refsinga frá innanríkisráðherra sem hugsanlega á að leggja fram á næsta þingi. Það frumvarp er einmitt samið af Fangelsismálastofnun ríkisins og snýr að stórum hluta að sömu stofnun. Helmingur nefndarmannanna sem sömdu drögin er frá Fangelsismálstofnun ríkisins og einn nefndarmanna er lögfræðingur hjá innanríkisráðuneytinu sem sér um samskipti við Fangelsismálastofnun. Af þessum ástæðum einum og sér er fram komið nægjanlegt tilefni til að vísa þessum frumvarpsdrögum til hliðar. En það eru fleiri ástæður.

Öll þau lönd sem Ísland miðar sig við hafa fallið frá refsivörslustefnu sinni og tekið upp betrunarstefnu. Lög um fullnustu refsinga númer 49/2005 sem eru í gildi í dag á Íslandi innihalda refsivörslustefnu. Nýju frumvarpsdrögin eru engin breyting á þeirri stefnu, þrátt fyrir að athugasemdirnar við frumvarpið séu látnar hljóma fallega. Orðið „betrun“ kemur t.d. ekki nema einu sinni fram í þessum drögum. Allar rannsóknir norrænna ríkja sýna að betrunarstefnan er árangursrík. Afbrotum fækkar og þar með brotaþolum, endurkomutíðni dómþola í fangelsi lækkar, fangelsiskerfið í heild minnkar og kostnaður samfélagsins við réttarvörslu og fangelsiskerfið lækkar umtalsvert. Það er umhugsunarefni að svo virðist sem stjórnvöld á Íslandi móti og framkvæmi um þessar mundir refsivörslustefnu sem langflest ríki í Evrópu eru hætt að fara. Og áframhald virðist vera á þessari úreltu stefnu, t.d. með þessu nýja frumvarpi og byggingu öryggisfangelsis á Hólmsheiðinni.

Nýja frumvarpið er illa úr garði gert og að mörgu leyti vanhugsað. Þar er ekki tekið á nauðsynlegum atriðum á borð við betrun fanga eins og fyrr greinir og heldur ekki atriðum sem snúa að aðstandendum og börnum fanga, leiðum sem tryggja að fangar geti lært og orðið sér út um menntun, þ.m.t. iðnmenntun o.fl. Svo virðist sem núgildandi lög hafi að mestu verið afrituð í umræddum frumvarpsdrögum en einstaka atriðum bætt við sem snúa að því að skera úr um lögfræðilegar túlkanir þar sem vafinn er leiðréttur Fangelsismálastofnun ríkisins í hag en ekki föngum. Þá er mikið fjallað um útgjöld Fangelsismálastofnunar ríkisins í frumvarpsdrögunum og spurning hvort slíkir hagsmunir eigi heima í umræddum lögum sem fjalla um afplánun refsingar. Fleira mætti nefna en framangreint látið duga að sinni.

Því miður virðist nefndin sem semur umrætt lagafrumvarp ekki hafa nýtt sér þekkingu og reynslu íslenskra fangavarða sem hafa reynslu af því að vinna í fangelsum erlendis og hafa því alþjóðlegan samanburð. Fangavarðafélagið fékk t.a.m. ekki mann inn í nefndina og ekki er farið rétt með hugmyndir Afstöðu, félags fanga í athugasemdunum. Ekki er vitað til þess að í refsivistarkerfinu hérlendis starfi aðilar sem hafa menntun, þekkingu og reynslu af betrunarmálum fanga og er það umhugsunarvert.

Vill þjóðin refsivörslukerfi eins og er til staðar núna, sem kostar allt upp í 12,3 milljónir á ári á hvern fanga og skilar litlu sem engu til baka? Eða viljum við betrunarkerfi sem kostar um 5,5 milljónir á ári á hvern fanga og er auk þess bæði mannbætandi og skilvirkara? Taka verður fram að með því að skipta um kerfi eins og aðrar þjóðir hafa gert þýðir það ekki að fangar sleppi fyrr út eða taki út minni refsingu. Málið snýst það um að virkja fangann, gera vistunarplan fram í tímann, meta hegðun allan tímann sem hann er í úttekt og koma á sterkari böndum við fjölskyldur og samfélagið. Innanríkisráðherrar Noregs og Danmerkur hafa báðir stigið fram og lýst yfir ánægju með betrunarstefnu landanna sem endurspeglast í lögum þessara landa um fullnustu refsinga. Það ber auðvitað að refsa vegna afbrota en samfélaginu ber líka skylda til að gera sitt ítrasta til að fækka afbrotum. Einfaldasta, fljótlegasta og ódýrasta leiðin til þess er að taka upp betrunarstefnu; hjálpa föngum að aðlaga sig samfélaginu að nýju eftir afplánun á árangursríkari hátt en hingað til og fækka endurkomum fanga. Núverandi frumvarpsdrög um fullnustu refsinga eru mikið ólán fyrir land og þjóð. Hér með er skorað á alþingismenn og/eða aðra sem um málið hafa að segja að láta það til sín taka. Það er allra hagur.

Höfundur er formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi.