[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Stjórn Ísraels segist ekki ætla að stöðva hernaðinn á Gaza fyrr en herinn hafi eyðilagt göng sem Hamasmenn hafa notað til árása á Ísrael.

Baksvið

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Stjórn Ísraels segist ekki ætla að stöðva hernaðinn á Gaza fyrr en herinn hafi eyðilagt göng sem Hamasmenn hafa notað til árása á Ísrael. Stjórnin er einnig staðráðin í því að koma í veg fyrir að Hamas-samtökin geti hafið flugskeytaárásir á Ísrael að nýju eftir að hernaði Ísraela á Gaza lýkur. Stjórnin hefur því leitað eftir stuðningi annarra ríkja við þá hugmynd að alþjóðlegt herlið verði sent á Gaza-svæðið til að halda uppi eftirliti og fyrirbyggja að Hamas-menn geti orðið sér úti um ný vopn.

Ísraelar hafa hingað til verið tregir til að fallast á slíkt eftirlit á Gaza en The Los Angeles Times segir að stjórnin í Ísrael hafi komist að þeirri niðurstöðu að erlent herlið geti verið besta leiðin til að tryggja að Hamas geti ekki eignast vopn sem ógni öryggi Ísraels. Að sögn blaðsins hafa Bandaríkin, Evrópusambandið og arabaríki tekið vel í þessa hugmynd en embættismenn og sérfræðingar í málefnum Mið-Austurlanda taka fram að mjög erfitt geti verið að koma henni í framkvæmd. Þeir draga í efa að ríkin séu í raun tilbúin að senda hermenn til að annast þetta verkefni þegar til kastanna kemur. Einnig vaknar sú spurning hvað gera eigi við þau vopn sem Hamas-samtökin eiga nú þegar og Ísraelsher hefur ekki tekist að eyðileggja. Hamas-menn hafa sagt að ekki komi til greina að þeir láti vopnin af hendi baráttulaust.

Að sögn The Los Angeles Times hófu Ísraelar landhernaðinn til að eyðileggja göngin með þegjandi samþykki nokkurra arabaríkja, meðal annars Egyptalands og Sádi-Arabíu, sem hafa horn í síðu íslamistanna í Hamas-samtökunum.

Beinast árásirnar í raun að Egyptum?

Hamas-menn hafa ekki léð máls á því að hætta flugskeytaárásum sínum nema Ísraelar og Egyptar fallist á kröfur íslömsku samtakanna. Þeir vilja m.a. að umsátrinu um Gaza verði aflétt.

Bandaríski blaðamaðurinn David Brooks telur að Hamas-menn hafi hafið flugskeytaárásirnar á Ísrael til að knýja nýju valdhafana í Kaíró til að hætta að takmarka vöruflutninga frá Egyptalandi til Gaza. Eftir að Mohammed Morsi, bandamanni Hamas, var steypt af stóli forseta í Egyptalandi fyrir rúmu ári létu nýju valdhafarnir loka um 95% ganga sem notuð höfðu verið til að smygla varningi til Gaza.

Lokun ganganna stórskaðaði efnahag Gaza þar sem um 40% af opinberum tekjum Hamas komu frá tollum á varning sem fluttur var um göngin. Áætlað er að fjárhagslegt tap Hamas af lokuninni nemi jafnvirði 53 milljarða króna á ári, eða tæpum fimmtungi af heildarframleiðslunni á Gaza.

Brooks telur að Hamas-menn hafi einsett sér að knýja Egypta til að heimila vöruflutningana að nýju. Þeir hafi ekki getað gert árásir á Egyptaland og þess í stað ákveðið að skjóta flugskeytum á Ísrael til að ná fram markmiðinu.

Tugir manna létu lífið

Tugir manna biðu bana í árásum sem hófust að nýju á Gaza-svæðinu í gær, örfáum klukkustundum eftir að vopnahlé tók gildi. Leiðtogar Hamas-samtakanna sökuðu Ísraela um að hafa rofið vopnahléið, sem átti að standa í þrjá sólarhringa, en Ísraelar sögðust aðeins hafa svarað flugskeytaárásum Hamas á Ísrael. Bandaríkjastjórn sagði Hamas hafa rofið vopnahléið og sakaði samtökin um að hafa gert „villimannslega“ árás til að taka ísraelskan hermann til fanga.