Ásta Stefánsdóttir fæddist 20. nóvember 1978. Hún fannst látin í Bleiksárgljúfri í Fljótshlíð 15. júlí 2014, en var saknað frá 10. júní 2014. Útför hennar fór fram 25. júlí 2014.

Við andlát ungs fólks verður spurningin um lífið og tilgang þess áleitin. Það á við um fráfall Ástu Stefánsdóttur sem lést langt um aldur fram aðeins 35 ára gömul. Ásta hafði mikið til að bera, var gáfuð, vel menntuð og glæsileg. Hún hafði mikinn áhuga á refsirétti og hafði kennt í þeirri grein við lagadeild Háskóla Íslands. Hún var frumleg og sjálfstæð og í henni sáum við fyrir okkur einn af fræðimönnum framtíðarinnar, verðugan fulltrúa sinnar kynslóðar.

Ásta varð skrifstofustjóri Norræna sakfræðiráðsins árið 2011 og gegndi því starfi út það tímabil sem Ísland gegndi formennsku í ráðinu eða til loka árs 2012. Bakgrunnur Ástu í lögfræðinni kom þar að góðum notum auk þess sem hún skildi og talaði sænsku reiprennandi. Starfið felst í því að halda utan um fjölbreytta starfsemi ráðsins eins og ráðstefnur, vinnuhópa, styrkveitingar og útgáfustarfsemi í náinni samvinnu við formann ráðsins og stjórn. Ásta náði góðu sambandi við kollega okkar á Norðurlöndum með fagmannlegum vinnubrögðum en ekki síður hlýlegri nærveru sinni og oft glettni í tilsvörum. Við fulltrúar Íslands í ráðinu og starfsmenn þess minnumst Ástu með söknuði og sendum fjölskyldu hennar okkar dýpstu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar.

Ragnheiður Bragadóttir, Helgi Gunnlaugsson, Kristrún Kristinsdóttir, Margrét Sæmundsdóttir, Íris Björg Kristjánsdóttir, Halldóra Jóhanna Þorláksdóttir.