Dagur Sigurðsson
Dagur Sigurðsson
Dagur Sigurðsson verður að öllum líkindum næsti þjálfari þýska karlalandsliðsins í handknattleik en þetta var fullyrt í ítarlegri frétt á vefmiðli Der Spiegel í gær.

Dagur Sigurðsson verður að öllum líkindum næsti þjálfari þýska karlalandsliðsins í handknattleik en þetta var fullyrt í ítarlegri frétt á vefmiðli Der Spiegel í gær. Þar segir að þýska handknattleikssambandið hafi verið með þrjá þjálfara í sigtinu en samkvæmt heimildarmanni miðilsins liggi nú þegar fyrir að Dagur verði fyrir valinu. Búist er við að tilkynnt verði um nýjan þjálfara um miðjan mánuðinn.

Martin Heuberger stýrði þýska landsliðinu frá árinu 2011 en fékk ekki nýjan samning eftir tapið gegn Póllandi í umspili um HM-sæti í sumar. Eins og frægt er orðið virðist það tap þó ekki koma í veg fyrir að Þýskaland spili á HM í janúar.

Dagur er þjálfari Füchse Berlín og myndi samkvæmt Spiegel geta staðið við samning sinn við félagið sem gildir út komandi tímabil. Dagur hefur áður stýrt félags- og landsliði á sama tíma þegar hann var með Austurríki. Hann vildi ekkert tjá sig um málið og sagðist vilja gefa þýska handknattleikssambandinu vinnufrið en hvorki Dagur né Wolfgang Gütschow, framkvæmdastjóri Füchse, neituðu því að fréttin væri sönn. sindris@mbl.is