Grundartangi Afmarkaða svæðið er lóðin á Katanesi sem Silicor Materials hefur fengið undir sólarkísilverksmiðju.
Grundartangi Afmarkaða svæðið er lóðin á Katanesi sem Silicor Materials hefur fengið undir sólarkísilverksmiðju.
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir fátt benda til þess að á Katanesi séu meiri gagnmerkar fornleifar sem muni varpa nýju ljósi á söguna.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir fátt benda til þess að á Katanesi séu meiri gagnmerkar fornleifar sem muni varpa nýju ljósi á söguna.

Fornleifarannsóknir hafa staðið yfir í landi Kataness í Hvalfirði, við athafnasvæðið á Grundartanga. Þar hefur bandaríska fyrirtækið Silicor Materials áform um að reisa sólarkísilverksmiðju. Gísli segir að ekkert verði byrjað að moka fyrir verksmiðjunni fyrr en allt annað verði frágengið.

Magnús H. Ólafsson, arkitekt á Akranesi, sem hefur komið að hönnun flestra mannvirkja á Grundartanga á undanförnum árum, segir í viðtali við Skessuhorn að niðurstaða könnunar á fornleifum á Katanesi gæti orðið til þess að ekkert yrði byggt þar. Magnús gerði á sínum tíma skipulag fyrir byggingu skautverksmiðju á þessum stað. Þá var vitað um 48 fornleifapunkta í landi Kataness. „Mér hraus hugur við því að það gæti þá stoppað áformin,“ segir Magnús m.a. í Skessuhorni.

„Það er verið að skoða þessa fornleifapunkta og því verki lýkur í sumar. Helstu punktar, sem eru merktir, verða allir fyrir utan byggingar Silicor. Þegar Norðurál var byggt voru fornleifapunktar einnig rannsakaðir og gengið þannig frá þeim að sandað var yfir þá og þeir skildir eftir óhreyfðir. Auðvitað eru þessar rannsóknir gerðar til þess að fullvissa sig um að ekki sé verið að ganga fram af gáleysi með þessa hluti,“ segir Gísli.

Hann segir Faxaflóahafnir leggja áherslu á að ekki verði farið af stað með byggingarframkvæmdir fyrr en allt sé klárt og allir samningar frágengnir. Fornleifarannsóknir séu aðeins hluti af því.

„Við munum hafa vaðið fyrir neðan okkur. Faxaflóahafnir hafa almennt fjármagnað sínar framkvæmdir fyrir eigið fé og við höfum gætt okkar á því að fara ekki fram úr okkur í fjárfestingum. Hægt og bítandi höfum við skapað aðstæður eins og á Grundartanga sem eru álitlegar fyrir fyrirtæki. Varðandi Silicor þá eru allmörg handtök eftir áður en farið verður að moka,“ segir Gísli.