Baldur Arnarson baldura@mbl.is Ónæði vegna skammtímaleigu á íbúðum til ferðamanna í miðborg Reykjavíkur er orðið útbreitt vandamál og telur Húseigendafélagið tilefni til þess að rýmka heimildir til gjafsókna.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Ónæði vegna skammtímaleigu á íbúðum til ferðamanna í miðborg Reykjavíkur er orðið útbreitt vandamál og telur Húseigendafélagið tilefni til þess að rýmka heimildir til gjafsókna. Fjöldi fólks í miðborginni hiki við sækja rétt sinn vegna mikils kostnaðar við lögfræðiþjónustu.

Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins, segir aflsmun á milli stórra leigufélaga, sem hafi jafnvel tugi íbúða í leigu, og íbúa í húsum sem hefur að hluta verið breytt í íbúðahótel á síðustu árum.

Fyrirtækin standi sterkt að vígi

„Stór fyrirtæki sem kaupa fjölda íbúða eru öflug fyrir rétti. Þau geta varið sig. Þar eru peningarnir en ekki hjá þeim íbúum sem eru jafnvel orðnir í minnihluta í fjölbýlishúsum.

Til að bregðast við þessu væri hægt að rýmka heimild til þess að veita gjafsókn. Þeir sem hafa ekki efni á að sækja rétt sinn geta þá sótt um gjafsókn til innanríkisráðuneytisins. Ríkið greiðir þá kostnaðinn,“ segir Sigurður Helgi. Áætla má að 1.500 til 2.000 íbúðir séu leigðar til ferðamanna í Reykjavík og eru þar af minnst 340 íbúðir hjá skráðum íbúðahótelum. Hinar eru leigðar út af einstaklingum.

„Sú stórfellda útleiga íbúða til ferðamanna sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum gjörbreytir öllum íbúaforsendum, sérstaklega í miðbænum. Það er ekki nóg með að hagnýtingu einstakra íbúða sé breytt, heldur hefur útleigan áhrif á líf margfalt fleira fólks sem býr í námunda við þessar íbúðir. Stjórnvöld þurfa að hugsa þetta til enda.“

Mikið kvartað 14

Kvörtunum rignir inn
» Húseigendafélaginu hefur að undanförnu borist fjöldi kvartana frá íbúum í miðborg Reykjavíkur vegna skammtímaleigu á hundruðum íbúða til erlendra ferðamanna.
» Formaður félagsins segir íbúa geta krafist þess að skammtímaleigu íbúða verði hætt með vísan til ónæðis.