Ég flyt fyrirlestur á norræna sagnfræðingaþinginu í Joensuu í Finnlandi 16. ágúst. Meginstef þingsins er krossgötur: Mörk og mót á norðurslóðum (Crossovers: Borders and Encounters in the Nordic Space).

Ég flyt fyrirlestur á norræna sagnfræðingaþinginu í Joensuu í Finnlandi 16. ágúst. Meginstef þingsins er krossgötur: Mörk og mót á norðurslóðum (Crossovers: Borders and Encounters in the Nordic Space). Þar segi ég á ensku tvær örlagasögur, sem ég uppgötvaði í grúski á Þjóðarbókhlöðunni. Voru þær af gyðingakonu, sem varð Íslendingur, og nasista, sem varð kommúnisti. Þessar sögur fléttuðust saman vorið 1958. Þá var sextugsafmæli gamla kommúnistaleiðtogans Brynjólfs Bjarnasonar haldið í Skíðaskálanum í Hveradölum. Þangað var að sjálfsögðu boðið aldavini hans, Hendrik Siemsen Ottóssyni, ásamt konu sinni, Henny. Hún var þýskur gyðingur og hafði ásamt syni sínum og móður flúið til Íslands 1934 undan nasistum. Hér hafði hún kynnst Hendrik, sem kvæntist henni svo að hún fengi landvistarleyfi, og tókust með þeim góðar ástir. Nokkrir aðrir þýskir flóttamenn af gyðingaættum bjuggu þá í Reykjavík. Hér starfaði einnig deild úr þýska nasistaflokknum. Einn harðskeyttasti nasistinn hét Bruno Kress og lærði íslenska málfræði. Kærði hann þýska ræðismanninn í Reykjavík til nasistaflokksins í Berlín fyrir að ganga ekki nógu ötullega erinda Þriðja ríkisins. Ræðismaðurinn tók þessu illa og lét reka Kress úr flokknum, en eftir talsvert þref var hann settur þangað inn aftur með úrskurði Adolfs Hitlers. Fékk Kress síðan styrk frá Ahnenerbe eða Arfleifðinni, rannsóknarstofnun svartstakka Heinrichs Himmlers, SS, til að semja málfræðibók. Kvæntist hann íslenskri konu og eignaðist með henni barn. Þegar Bretar hernámu Ísland var Kress handtekinn og sendur á eyna Mön en fór í fangaskiptum til Þýskalands 1944. Þar gekk hann eftir stríð í lið með austurþýskum kommúnistum, skildi við sína íslensku konu og varð forstöðumaður Norrænu stofnunarinnar í Greifswald. Íslenskir kommúnistar voru í sambandi við þá stofnun og þegar Kress kom hingað í heimsókn 1958 var honum boðið í afmæli Brynjólfs. Þegar Henny Ottósson sá þar gamla nasistann, sem hún kannaðist við frá því fyrir stríð, brást hún ókvæða við en það uppnám var þaggað niður. Ég komst síðan að því að bróðir Hennyar, Siegbert Rosenthal, hafði orðið fórnarlamb þessarar sömu rannsóknarstofnunar SS, Ahnenerbe, í tengslum við svokallað hauskúpumál í Natzweiler-fangabúðunum í Elsass. Myrtu nasistar Rosenthal og einnig konu hans og ungan son. Árið 1986 andaðist Henny Ottósson og sama ár varð Bruno Kress heiðursdoktor við Háskóla Íslands.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is