CNN fjallaði fyrir nokkru um hvernig velja skuli rétta góðgerðarfélagið, séð frá bæjardyrum góðhjartaðra Bandaríkjamanna. Tilefnið var rannsókn blaðamanna sem svipti hulunni af fjölda mjög fjáðra bandarískra góðgerðarfélaga sem létu aðeins brot af framlögum renna til þeirra sem markmiðið var að hjálpa.
Eitt ljótasta tilvikið var félagsskapurinn Kids Wish Network sem hefur það fallega markmið að hjálpa fjölskyldum barna með banvæna sjúkdóma. Í ljós kom að 3% söfnunarfjár fóru til barnanna og fjölskyldna þeirra, en hin 93% fóru í greiðslur og þóknanir til stjórnenda góðgerðarfélagsins, og einkarekinna fyrirtækja sem önnuðust fjáröflunina. Skiptu upphæðirnar mörgum milljónum dala.
Orðspor og gagnsæi
Reglurnar sem fólk ætti að fylgja, hvort sem um er að ræða erlent eða innlent góðgerðarstarf eru nokkuð einfaldar:Veldu frekar vel þekkt og virt góðgerðarfélög. Þau hafa verið lengur undir smásjánni og hafa sýnt árangurinn í verki. Gættu þín á að óprúttnir aðilar gefa stundum góðgerðarfélögunum sínum nöfn sem minna mjög á þekktari félög. Þeir sem styrktu t.d. Kids Wish Network hafa kannski haldið að peningarnir færu til Make-A-Wish Foundation, sem er þekkt og virt félag.
Ekki gefa peninga til fólks sem sækist eftir framlögum úti á götu eða kemur óboðið upp að dyrum hjá þér. Ekki láta undan fjáröflunarfólki sem beitir miklum þrýstingi. Þú getur síðan eftir eigin hentugleika, ef þú hefur áhuga, skoðað málin betur, séð hvað félagið er að fást við, og hvaða mynd upplýsingar á netinu gefa af starfseminni. Ef þér líst vel á, geturðu væntanlega millifært beint í netbankanum, eða greitt framlag með greiðslukorti.
Óhreina mjölið
Ekki styrkja góðgerðarfélag sem er ekki með allt sitt uppi á borðum. Kíktu á vefsíðuna og sjáðu hvort þar eru aðgengilegar upplýsingar um t.d. hvernig peningunum er varið, hversu hátt hlutfall framlaga fer í yfirbygginguna, og hvaða mælanlega árangri starfið hefur náð. Ef rekstrartölurnar eru ekki sýnilegar skaltu biðja um að fá þær skriflega.Ef þessar upplýsingar eru ekki fáanlegar geturðu ekki lagt mat á árangur starfsins, og sennilega er maðkur í mysunni.
Að lokum, þegar búið er að þrengja hringinn utan um vönduð, skilvirk og heiðarleg góðgerðarfélög er rétt að reyna að forgangsraða. Sum vandamál eru meira aðkallandi en önnur. Sum verkefni skila meiri ávinningi fyrir samfélagið og jafnvel mannkynið allt.