Um miðja sautjándu öld stundaði ungur Íslendingur nám í fornum fræðum í Kaupmannahöfn, Stefán Ólafsson, og gat sér svo gott orð, að sjálfur Mazarin kardínáli, guðfaðir Lúðvíks 14., bauð honum til Parísar og að gerast menningarfulltrúi Norðurlanda.

Um miðja sautjándu öld stundaði ungur Íslendingur nám í fornum fræðum í Kaupmannahöfn, Stefán Ólafsson, og gat sér svo gott orð, að sjálfur Mazarin kardínáli, guðfaðir Lúðvíks 14., bauð honum til Parísar og að gerast menningarfulltrúi Norðurlanda. Ráðum var ekki ráðið á heimili Stefáns, nema Brynjólfur biskup Sveinsson væri kallaður til. Skrifaði hann Stefáni, að Mazarin væri merkur maður, en þætti hvatráður og miðlungi haldinorður. Væri og alkunna, að sumir, sem hafist hefðu af litlu, lægðust oft aftur skjótlega. Hollast væri hinum unga manni að snúa aftur og vinna landi sínu. Gerði Stefán það og varð eitt okkar bestu skálda.

Hálfri fjórðu öld síðar var öðrum Stefáni Ólafssyni boðið til Parísar í nokkrar vikur, og er sá prófessor. Hann hefur skrifað um dvölina á eyjan.is og segir, að sjálfur Thomas Piketty hagfræðiprófessor hafi boðið sér suður. Piketty er kunnastur fyrir að vilja stórhækka skatta eins og þeir Mazarin og Lúðvík 14., en ólíkt þeim aðeins á ríkt fólk. Telur hann kapítalista liggja á fjármagni eins og orma á gulli. Í bók um Fjármagn á 20. öld vísar Piketty óspart í lýsingar Balzacs á auðugu fólki á öndverðri 19. öld.

Í París hefði Stefán mátt leggja á sig að lesa skáldsögur Balzacs, því að þær eru velflestar um það, hversu valtur vinur auðurinn er. Til dæmis eiga aðalsöguhetjurnar í Gamla Goriot , sem Piketty vitnar aðallega í, í stökustu fjárhagsvandræðum, þótt þær hafi allar verið vel fjáðar áður, Goriot gamli, dætur hans og tengdasynir. Og Stefán hefði líka mátt lesa frönsku dagblöðin á kaffihúsum borgarinnar. Þá hefði hann komist að því, að franskir sósíalistar komust nýlega til valda með því að veifa hugmyndum í anda Pikettys, en hafa nú séð sitt óvænna og skipt um stefnu.

Ólíkt er hlutskipti þessara alnafna. Öðrum var boðið til Parísar vegna fróðleiks síns, þótt hann færi hvergi. Hinn snýr stórum ófróðari frá París.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is